Fréttasafn



  • Borgartún 35

31. jan. 2011

Hagvaxtastefna og atvinnuleið

Sú var tíð að íslenskur iðnaður og sjávarútvegur tókust á um kvótakerfið og sjávarútvegsstefnu landsmanna. Þeirri umræðu er ekki lokið og mikilvægt er að sem best sátt náist um auðlindastefnu Íslendinga, jafnt til lands og sjávar. Það er viðamikið verkefni að ná breiðri samstöðu um þetta mikilvæga mál. Við lausn þess þarf að beita skipulegum og öguðum  vinnubrögðum sem eru til þess fallin að leiða til sanngjarnrar niðurstöðu og sáttar. Það gengur ekki að nálgast þetta verkefni með hávaða og látum á pólitískum uppboðsmarkaði. Eins þarf að velja tímann rétt og sá tími er ekki núna þegar þjóðin þarf að forgangsraða þannig að unnt reynist að eyða atvinnuleysi, bæta lífskjör fólks og efla fyrirtækin í landinu til dáða á ný. Til þess þarf myndarlegan hagvöxt strax á þessu ári og hann næst ekki nema allar atvinnugreinar geti virkað af fullum krafti.

MINNSTU FJÁRFESTINGAR Í 70 ÁR

Á síðasta ári var samdráttur á vinnumarkaði samkvæmt nýrri skýrslu Hagstofunnar. Það voru fleiri atvinnulausir og vinnutími styttri en árið áður. Í árslok voru 14.000 atvinnulausir. Fjárfestingar í hagkerfinu eru nú minni en nokkru sinni síðustu 70 árin. Við þessar aðstæður eru Íslendingar ekki á leið út úr kreppunni. Við þessar aðstæður náum við ekki 5% hagvexti á ári næstu árin og án myndarlegs hagvaxtar eyðum við atvinnuleysinu ekki og náum ekki að auka kaupmátt. Við þessar aðstæður sköpum við ekki 2.000 ný störf fyrir þá sem koma út á vinnumarkaðinn á ári. Við þessar aðstæður missum við öflugt og vel menntað fólk úr landi. Það yrði þjóðinni dýrkeypt til skemmri og lengri tíma litið.

Til að snúa þessari óheillaþróun við þarf að skapa skilyrði fyrir nýjar fjárfestingar og þá sérstaklega í útflutningsgreinum. Þá er átt við greinar sem nýta orku til framleiðslu sinnar, sjávarútveg, sprotafyrirtæki, ferðaþjónustu, hugverkaiðnað, hátækniiðnað,  matvælaframleiðslu – íslensk fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum.

EYÐUM ÓVISSU

Samtök atvinnulífsins telja að þessi markmið náist ekki nema að samhliða gerð kjarasamninga verði eytt óvissu varðandi virkjanaframkvæmdir og orkufrekan iðnað og eins að sátt náist milli stjórnvalda og hagsmunaaðila í sjávarútvegi á grundvelli niðurstöðu svokallaðrar sáttanefndar. Sú óvissa sem skapast hefur í sjávarútvegi kemur í veg fyrir fjárfestingar í greininni og að ráðist sé í viðhald fjármuna. Það veldur truflun í ýmsum öðrum greinum, m.a. í málmiðnaði og mannvirkjagerð. Þá vilja Samtök atvinnulífsins lagfæringar á sviði skattamála, t.d. lækkun atvinnuleysistryggingargjalds sem er mjög íþyngjandi í mannaflsfrekum greinum. Almennt er skattlagning á Íslandi komin út fyrir viðunandi mörk og farin að valda skaða. Þá er minnt á loforðin frá stöðuleikasáttmálanum vorið 2009 um stórt átak í opinberum framkvæmdum með lánsfé frá lífeyrissjóðum. Það hefur ekki gengið eftir – frekar en svo margt sem samið var um í þeim stöðugleikasáttmála og hefur verið svikið af stjórnvöldum.

Ég styð þessa stefnumörkun Samtaka atvinnulífsins og finn að hún á góðan hljómgrunn innan iðnaðarins þó auðvitað séu ekki allir með sömu árherslur.

Það er mikill misskilningur að kröfur atvinnurekenda snúist einungis um fiskveiðistjórnunarkerfið. Reynt er að gera önnur samtök en sjávarútvegs tortryggileg með því að segja þau gangi erinda LÍÚ varðandi ágreining þeirra og stjórnvalda. Við erum að ganga erinda alls atvinnulífsins í þeirri vegferð að koma hér á öflugum hagvexti að nýju með atvinnuleið í stað atvinnuleysisleiðar. Þannig viljum við eyða atvinnuleysi, auka kaupmátt og bæta hag fyrirtækja. Þannig göngum við erinda allrar þjóðarinnar.

Höfundur er formaður Samtaka iðnaðarins og stjórnarmaður í Samtökum atvinnulífsins.

Morgunblaðið 28. janúar 2011