Fréttasafn  • IMR2011-1

15. feb. 2011

Verðlaunahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík

Verðlaunahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík til heiðurs iðngreinunum og nýsveinum sem lokið hafa sveinsprófi með afburðaárangri fór fram í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur laugardaginn 5. febrúar að viðstöddu fjölmenni auk forseta Íslands, ráðherrum mennta og iðnaðar og borgarstjóranum í Reykjavík.

Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður í Gullkistunni við Frakkastíg var valin Iðnaðarmaður ársins 2011 fyrir ómetanlegt starf í þágu gullsmíðagreinarinnar.

Á hátíðinni voru ennfremur heiðraðir 21 nýsveinar úr 13 löggiltum iðngreinum og frá 8 verkmenntaskólum á landsvísu auk þess sem meistarar þeirra fengu sérstakt viðurkenningarskjal.

Dóra á að baki langan og giftusamlegan feril sem gullsmiður. Hún nam gullsmíði hjá föður sínum og lauk sveinsprófi 1954 og stundaði nám við Konstfackskolan í Stokkhólmi og í Pforzheim - gullborginni í Svartaskógi. Auk fjölmargra starfa fyrir Félag íslenskra gullsmiða þar sem hún gegndi formennsku fyrst kvenna hefur Dóra staðið fyrir mörgum framfaramálum sem tengjast iðngreininni. Hún er þekkt fyrir smíði á víravirki og þjóðbúningaskarti og sá um uppsetningu gullsmíðaverkstæðis á Árbæjarsafni. Dóra hlaut nýverið þakkarviðurkenningu atvinnumála kvenna og þann 1. janúar 2011 var hún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til þjóðlegrar gull- og silfursmíði.

Eftirtaldir sveinar fengu silfurverðlaun:

Arinbjörn Sigurðsson málari, Ásgeir Ingi Óskarsson vélvirki, Ásþór Sigurgeirsson vélvirki,
Birkir Örn Arnarson húsasmiður, Bjarni Kjartansson rafeindavirki, Friðrik Óli Atlason rafvirki,
Gísli Gunnar Pétursson rafvirki, Ívar Grétarsson pípulagningamaður, Jónas Rúnar Guðmundsson rennismiður, Kristþór Ragnarsson múrsmiður, Ólafur Egill Ólafsson rafeindavirki, Rúnar Ólafsson húsasmiður, Skúli Már Sigurðsson húsasmiður, Svavar Egill Sölvason veggfóðrari og dúklagningamaður og Ylfa Helgadóttir matreiðslusveinn.

Eftirtaldir sveinar fengu bronsverðlaun:

Anna Lilja Sigurðardóttir snyrtifræðingur, Birgir Axelsson skrúðgarðyrkjumaður, Erlendur Þór Ólafsson húsasmiður, Katrín Björgvinsdóttir hársnyrtisveinn, Ólafur Börkur Guðmundsson húsasmiður og Sverrir Kári Karlsson húsasmiður.

IMR2011-2

Í tilefni af Ári nýsköpunar fengu fyrirtækin Víkurprjón og hönnunarhópurinn Vík Prjónsdóttir sérstök nýsköpunarverðlaun Iðnaðarmannafélagsins í sameiningu, en þau eru veitt einstaklingi, hönnuði eða fyrirtæki sem hefur sýnt sérstakt nýsköpunarfrumkvæði með því að hanna eða láta hanna vöru og setja hana í framleiðslu og sölu. Gæfurík samvinna Víkurprjóns og Víkur Prjónsdóttur hefur leitt til þess að til hafa orðið vörur úr íslenskri ull sem vakið hafa mikla athygli ekki aðeins hér á landi heldur líka erlendis. Vöruhönnuðirnir Brynhildur Pálsdóttir, Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir og Þuríður Rós Sigurðardóttir starfa undir merkjum Víkur Prjónsdóttur, en auk þeirra tóku þeir Egill Kalevi Karlsson Hrafnkell Birgisson þátt í að mynda samstarfið við Víkurprjón í upphafi.

Með þessari 5. verðlaunahátíð hefur Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík heiðrað 78 nýsveina úr 20 iðngreinum og frá 12 starfsmenntaskólum og Dóra Guðbjört er sú þriðja í röð þeirra sem útnefndir hafa verið Iðnaðarmenn ársins.

Upplýsingar um Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík

Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík var stofnað 3. febrúar 1867. Það er annað elsta starfandi félag á Íslandi og hefur gert það óslitið 144 ár.

Tilgangur félagsins hefur frá upphafi verið „að efla menningu og menntun iðnaðarmanna og styrkja stofnanir, sem starfa í þeirra þágu“.

Félagið er frumkvöðull að menntun iðnaðarmanna. Fyrst með vísi að skóla fyrir iðnaðarmenn 1869 en síðar með stofnun Iðnskólans í Reykjavík 1904, sem félagið rak óslitið í 50 ár. Árið 2007 gerðist félagið á ný aðili að rekstri skólans í breyttri mynd undir nýju nafni – Tækniskólinn.

Félagið er frumkvöðull að löggjöf og reglugerð um iðnám og átti mestan þátt í að löggildingu og útgáfu sveinsbréfa var komið á hér á landi 1903 í kjölfar fyrstu reglugerðar um iðnaðarnám. Til gamans má geta þess að í þessari fyrstu reglugerð voru tilgreindar iðngreinar sem nú eru horfnar hér á landi, m.a. Hanskamakarar, Naglarar og Kaðlarar.

Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík reisti Iðnó á uppfyllingu út í Tjörnina árið 1896 og hús Iðnskólans við Tjörnina 10 árum síðar. Þegar leið á 20. öldina kom félagið að undirbúningi byggingu Iðnskólans á Skólavörðuholti og byggingu iðnaðarmanna við Hallveigarstíg og endurbyggði baðstofu iðnaðarmanna í gamla Iðnskólanum eftir að húsið eyðilagðist í eldi 1986.

Þá má geta þess að Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík tók þátt í stofnun Leikfélags Reykjavíkur, átti stóran þátt í að Sparisjóður Reykjavíkur var stofnaður og kom einnig að stofnun Iðnaðarbankans.

Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík beitti sér fyrir því að reisa Ingólfi Arnarsyni minnismerki á Arnarhóli og færði þjóðinni að gjöf 1924. Á 100 ára afmæli félagsins færði það Reykjavíkurborg að gjöf „Borgarstjórakeðjuna“, hannaða og smíðaða úr silfri af Leifi Kaldal gullsmið og á 100 ára afmæli Iðnskólans í Reykjavík færði félagið skólanum að gjöf listaverk sem komið var fyrir á stöpli við skólann.

Með fyrstu iðnsýningunni 1883 gerðist Iðnaðarmannafélagið frumkvöðull að atvinnusýningum hér á landi og í kjölfar hennar og langt fram eftir 20. öldinni fylgdu fleiri iðnsýningar og listsýningar sem félagið tók þátt í að koma á laggirnar.

Menntun og bætt verkkunnátta iðnaðarmanna hefur því alltaf verið í fyrirrúmi í starfi félagsins.

Í tilefni af 140 ára afmæli Iðnaðarmannafélagsins þann 3. febrúar 2007 hélt félagið í fyrsta sinn sérstaka verðlaunahátíð nýsveinum til heilla. Á hátíðinni er nýsveinum sem sýnt hafa afburða hæfni á sveinsprófi veitt verðlaun í formi, brons eða silfurpenings og meistarar þeirra heiðraðir.

Með sín 144 ár að baki er IMFR enn í fullu fjöri og leggur sem aldrei fyrr áherslu á að efla og styrkja samheldni iðnaðarmanna, stuðla að framförum og efla menntun. Félagið tekur virkan þátt í norrænu samstarfi iðnaðarmannafélaga. Það á aðild að rekstri Tækniskólans og Skills Iceland.