Fréttasafn



  • Raforka

25. feb. 2011

Orkustefna fyrir Ísland byggð á veikum grunni

Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins hafa skilað til iðnaðarráðuneytisins umsögn um drög að orkustefnu fyrir Ísland. Fram kemur að samtökin telja drögunum verulega áfátt. Greiningar skorti, umfjöllun sé ómarkviss, engin tilraun gerð til að meta árangur þeirrar stefnu sem fylgt hefur verið og ályktanir byggðar á veikum grunni. 
 
Samtökin telja hins vegar mikilvægt að mótuð sé orkustefna til framtíðar sem skapi vissu og stöðugleika fyrir þá sem virkja og nýta orkulindirnar. Nauðsynlegt er að festa ríki um lengd samninga um nýtingu orkulinda. Nýtingartími sem er einungis 25-30 ár er allt of skammur hvort sem litið er til vatnsafls eða jarðvarma og kallar á hækkun orkuverðs auk þess sem erfitt verður að fá fjárfesta til að byggja upp rekstur hér á landi. Mikilvægt er að almennum fjárfestum verði gert kleift að taka þátt í uppbyggingu orkuvera hér en að ábyrgðin liggi ekki alfarið á ríki og sveitarfélögum.
 

Í drögum að orkustefnu er lögð megináhersla á að í boði verði orka í 1-50 MW skömmtum. Samtökin minna á að íslenska orkukerfið hefur á síðastliðnum 20 árum gengið í gegnum tvö tímabil þar sem umtalsverð orka hefur legið á lausu í kerfinu, annars vegar á árunum 1990 - 1995 og hins vegar frá 2007 til dagsins í dag. Það hlýtur að vera mikið álitaefni hvort raunhæft sé að selja það magn orku sem unnt er að virkja í svo smáum skömmtum hér á landi, og þá hvort ástæða sé til að blása alfarið af stærri samninga sem hafa gefið góða raun til þessa á meðan engin fullvissa er fyrir því að slík stefnubreyting sé yfirhöfuð fær. Til dæmis er á fyrirhuguðum orkuvinnslusvæðum í Þingeyjarsýslu langt að sækja hráefni og langt til markaða. Ef ætlunin er að selja þar orkuna í smáum skömmtum á löngum tíma þarf að huga að öðrum aðferðum en tíðkast hafa fram að þessu til að styrkja innviði eins og samgöngumannvirki og flutningskerfi raforku, þar sem enginn einn notandi verður nægilega stór til að standa undir hafnargerð eða slíku.

Samtökin telja mjög mikilvægt að á Íslandi byggist upp fjölbreytt atvinnulíf í öllum atvinnugreinum og að fyrirtæki geti þrifist hér stór sem smá. Til þess að svo geti orðið þarf efnahagsrammi atvinnulífsins að vera stöðugur, samkeppnisskilyrði að vera á við það sem best gerist í nálægum löndum og hagskerfið opið bæði fyrir fjárfestingum hér á landi og eins fyrir fjárfestingum Íslendinga erlendis. Einungis þannig næst það markmið að byggja hér á landi norrænt velferðarkerfi sem knúið er áfram af öflugum fyrirtækjum sem skapa mörg og vellaunuð störf auk þess að skila drjúgu framlagi í sameiginlega sjóði landsmanna.

Samtökin telja að þótt hér sé unnt að bjóða fjárfestum orku sem unnin er úr endurnýjanlegum orkulindum á samkeppnishæfu verði þá sé það aðeins einn af fjölmörgum þáttum sem til skoðunar koma þegar fjárfestar ákveða staðsetningu fyrirtækja sinna. Fjölmargir aðrir þættir koma til skoðunar svo sem fjarlægð frá markaði, stöðugleiki efnahagslífsins og pólitískur stöðugleiki. Komið hefur í ljós að aðstæður hér á landi eru þannig að Ísland sé í öðru sæti þeirra ríkja innan OECD sem leggja hvað mestar hindranir í veg beinnar erlendrar fjárfestingar. Nauðsynlegt er að stjórnvöld vinni af festu að því að afnema þessar hindranir.

Umsögn SA og SI um orkustefnu fyrir Ísland, 25. 2. 2011