Fréttasafn  • Borgartún 35

7. apr. 2011

Erfið en afdrifarík ákvörðun

Þjóðaratkvæðagreiðsla um nýtt Icesave samkomulag fer fram á laugardaginn. Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI, segir að niðurstöður hennar geti haft veruleg áhrif á starfsumhverfi iðnaðarins. „Nýjustu hagtölur benda til að við sitjum nú á botni niðursveiflunnar og að hagkerfið sé hætt að dragast saman. Stóra spurningin nú er hvort og hvernig við ætlum okkur upp á ný.  

Lykilatriði í endurreisn efnahagslífsins er að koma fjárfestingu af stað. Undanfarin tvö ár hefur Ísland verið fjármálalegt eyland og möguleikar á erlendri fjármögnun nánast engir. Framgangur og fjármögnun stórra verkefna virðist hanga á lausn Icesave-deilunnar svo ekki sé minnst á hættuna á því að höfnun samkomulagsins feli í sér frekari lækkun á lánshæfismati. Það blasir því að hagsmunir okkar felist í að samþykkja samninginn út frá þessum sjónarhóli. Fjöldamörg fyrirtæki innan okkar raða eiga allt sitt undir því að þessi verkefni fari í gang og að einhverjum hluta af þeirri miklu óvissu sem umlykur efnahagslífið verði eytt.“

Bjarni segir það vissulega skiljanlegt að margir vilji hafna samkomulaginu og reyna að útkljá málið fyrir dómstólum en telur hagsmunum iðnaðarins best borgið með samþykkt. „Auk þess að koma hjólum atvinnulífsins í gang þurfum við einnig á því að halda að skapa traust og væntingar meðal fólks og fyrirtækja um við getum unnið okkur út úr þessum efnahagsþrengingum. Að hafna þeirri sátt sem náðist við Breta og Hollendinga er því miður ekki rétta skrefið í þá átt. Hvað svosem mönnum finnst um innihald og niðurstöðu samninganna tel ég að hagsmunir iðnaðarins felist í samþykkt samkomulagsins. Þó um réttlætismál sé að ræða verðum við að láta skynsemina ráða og reyna lágmarka skaðann og eyða óvissunni. Ákvörðun fólks hvernig það greiðir atkvæði er vissulega erfið og að sama skapi afdrifarík, segir Bjarni og bætir því að á hvorn veginn sem fer muni allt kapp lagt á að vinna sem best úr þeirri stöðu sem upp kemur.  

Gengisáhættan ofmetin

Icesave samkomulagið felur vissulega í sér gengisáhættu enda eru skuldbindingarnar í erlendri mynt. Bjarni bendir á að á móti eru eignir þrotabúsins að verulegu leyti líka í erlendri mynt. „Ótti við gengisáhættu er eitthvað sem við munum alltaf búa við meðan við notumst við íslenska krónu. Á móti þessari áhættu eru hins vegar lágir vextir og þetta þarf að vega saman. Ég tel raunar að samþykkt samningsins geti styrkt stöðu gengisins að svo miklu leyti sem það ýtir undir að fjárfestingar geti tekið við sér að nýju. Á sama hátt eru líkur til að gengið veikist verði samkomulaginu hafnað en auðvitað er erfitt að fullyrða um slíkt enda genginu að verulegu leyti stjórnað af gjaldeyrishöftum“.

Áhrif á kjarasamninga

Viðræður um nýja kjarasamninga á almennum vinnumarkaði eru í fullum gangi og standa vonir til að hægt verði að ljúka nýjum þriggja ára samningi, jafnvel í þessari viku. Fulltrúar ASÍ og SA hafa gefið til kynna að höfnun Icesave setji kjaraviðræður í uppnám. Bjarni segist ekki túlka þessi orð sem hótun heldur mat á aðstæðum. „Hér er fyrst og fremst um að ræða hagsmunamat þessara aðila. Ef þessu máli verður ekki lokið standa ýmsar forsendur kjarasamninga á veikari fótum. Þá er ég einkum að vísa til væntinga um fjárfestingar. Ef atvinnulífið á að rísa undir kjarabótum og aukinni atvinnu verða fjárfestingar í hagkerfinu að aukast og lausn Icesave-deilunnar er skref í þá átt“, segir Bjarni að lokum.