Fréttasafn  • Nýbyggingar

12. apr. 2011

Hagstofa Íslands leiðréttir vísitölu byggingakostnaðar

Alvarleg villa hjá Hagstofu Íslands

Vísitala byggingakostnaðar verður leiðrétt 20. apríl vegna alvarlegrar villu í útreikningum Hagstofunnar á vísitölunni. Samtök iðnaðarins bentu Hagstofunni á ósamræmi milli þróunar vinnuliðs vísitölunnar og almennrar þróunar á markaði. Í kjölfarið endurskoðaði Hagstofan útreikningana. Talið er að vísitalan sé rúmlega 4 prósentum of lág vegna kerfisbundins vanmats á launakostnaði vísitölunnar frá mars 2010. 

Árni Jóhannsson, forstöðumaður mannvirkjasviðs SI, segir að mörg fyrirtæki innan SI eigi mikilla hagsmuna að gæta enda sé algengt að verksamningar séu verðtryggðir með vísitölunni. „Í stærstu tilvikum voru greiðslur til einstakra fyrirtækja á síðasta ári mörg hundruð milljónum króna of lágar vegna þess að byggingavísitalan mældi launakostnað vitlaust. Villan gerði það að verkum að verkkaupar fenguverkin of ódýrt á kostnað verktaka. Erfitt er að áætla umfang vandans en gera má ráð fyrir að um stórar upphæðir sé að ræða. Afar mikilvægt er að verkkaupar taki leiðréttingum Hagstofunnar vel og greiðslur til verktaka verði leiðréttar í samræmi við þessar breytingar. En það eru ekki bara verksamningar sem verðtryggðir eru með þessari vísitölu heldur leigu- og þjónustusamningar af ýmsu tagi. Hagsmunirnir eru því miklir.“

Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI segir að villan komi raunar við alla landsmenn þar sem byggingavísitalan sé notuð við útreikning á undirvísitölu fyrir viðhald á húsnæði í vísitölu neysluverðs. „Lauslegt mat Hagstofunnar er að vísitala neysluverðs hækki um allt að 0,2% í maí vegna þessa. Ljóst er að þetta er álitshnekkir fyrir Hagstofuna og getur rýrt traust notenda á gögnum þaðan. Hins vegar tók Hagstofan ábendingum SI vel og fara nú í fordæmalausa leiðréttingu á gögnum sínum.“