Fréttasafn  • Prósentumerki

20. apr. 2011

Ótækt að vextir lækki ekki

Seðlabankinn ákvað í dag að halda stýrivöxtum óbreyttum í 4,25% þrátt fyrir að áætlanir um hagvöxt í fyrra og á þessu ári hafi verið lækkaðar. Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI, segir ljóst að Seðlabankinn meti stöðu efnahagslífsins verri en áður og frá þeim sjónarhóli sé ótækt að vextir lækki ekki.

Bjarni segir að þótt verðbólga hafi hækkað nokkuð upp á síðkastið stafi það af hækkun á olíu og hrávörum á erlendum mörkuðum. „Þessar hækkanir valda tímabundinni hækkunum á verðbólgu og að mínu mati ætti Seðlabankinn ekki að horfa til þessara þátta við vaxtaákvörðun. Þótt verðbólguvæntingar hafi hækkað lítillega upp á síðkastið  eru þessar breytingar ólíklegar til að hafa viðvarandi áhrif á langtímaverðbólguvæntingar. Staðreyndin er einfaldlega sú að vaxtastigið hjá okkur er ekki samræmi við þann efnahagslega raunveruleika sem fyrirtækin og heimilin í landinu búa við. Við þurfum einfaldlega lægra raunvaxtastig til að koma meiri hreyfingu á fjármagnið“, segir Bjarni Már.

Eftir að Seðlabankinn kynnti áætlun um að hér yrðu gjaldeyrishöft allt til ársins 2015 ættu ekki að vera efnisleg rök fyrir því að lækka ekki vexti vegna haftanna „Peningastefnan ætti ekki að verða fyrir neinum áhrifum vegna haftanna  til skemmri tíma litið.  Vissulega eru þættir sem valda Seðlabankanum vanda t.d. möguleg lækkun á lánshæfismati vegna höfnunar Icesave. Á móti má segja að til lengri tíma litið ætti lánshæfismat okkar að geta batnað ef hægt er að sýna fram að efnahagslífið hér sé eitthvað að taka við sér og til þess þarf lægri vexti.