Fréttasafn



  • Erfðatækniap-2011a

27. apr. 2011

Rannsóknir í erfðatækni ræddar á fjölmennum fundi

 

Tæplega 100 manns sóttu málstofu Samtaka íslenskra líftæknifyrirtækja og Samtaka iðnaðarins um erfðatækni, notagildi og möguleika til atvinnusköpunar á Grand Hótel Reykjavík í morgun.

Markmið málstofunnar var að auka þekkingu og skilning á erfðatækni og notagildi hennar í nútíð og framtíð, með sérstaka áherslu á nýtingamöguleika erfðatækninnar til atvinnusköpunar. Jóhannes Gíslason, formaður SÍL opnaði fundinn og afhenti Þorsteini G. Gunnarssyni frá KOM almannatengsl fundarstjórn.

Fjallað var um sögu erfðatækninnar, kosti og takmarkanir og hugtök skilgreind sem nota má til faglegrar og upplýstrar umræðu. Fyrirlesarar komu frá fyrirtækjum og rannsóknastofnunum og gerðu grein fyrir sinni sýn á erfðatæknina, hvernig hún er notuð í dag, þróun og framtíðarsýn.

Að erindum loknum var efnt til pallborðsumræðna með þátttöku allra fyrirlesara. Líflegar umræður spunnust enda höfðu fundargestir margs að spyrja, m.a. um hvort vænta megi að varúðarreglunni verði í framtíðinni beitt í annarri löggjöf á svipaðan hátt og gert hefur verið fyrir erfðatækni.  

Upphaf erfðatækninnar

Guðmundur Eggertsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands fjallaði um upphaf erfðatækninnar. Hann sagði frá því hvernig erfðatæknin spratt um 1970 upp úr rannsóknum í bakteríuerfðafræði. Á 8. áratugnum voru þróaðar aðferðir til að tengja saman DNA-búta og flytja þá inn í litlar, hringlaga DNA-sameindir, plasmíð, sem gátu margfaldast í bakteríufrumum. Þannig voru gen ferjuð úr dýrum og plöntum og aðferðir þróaðar til að tjáning þeirra gæti farið fram í bakteríufrumunum. Um svipað leyti komu fram aðferðir til að raðgreina DNA-sameindir. Hagnýting þessara aðferða hófst á síðari hluta áratugarins. Árið 1975 var haldin tímamótaráðstefna í Asilomar þar sem settar voru fram leiðbeiningar og reglur un nýtingu tækninnar. Loks greindi Guðmundur stuttlega frá upphafi erfðatækni á Íslandi.

Plöntukynbætur í fortíð, nútíð og framtíð

Áslaug Helgadóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands fjallaði um plöntukynbætur. Maðurinn tók að þróa með sér ýmis form landbúnaðar og rækta plöntur sér til matar á  nokkrum stöðum á jörðinni fyrir um 15 þúsund árum. Hægt og bítandi völdust úr plöntur sem reyndust vel til ræktunar fallnar og höfðu aðlagast þörfum mannsins. Af um 7000 plöntutegundum sem forfeður okkar nýttu sér til matar hafa einungis örfáar þeirra orðið að nytjaplöntum sem fullnægja hátt í 80% af heildarprótín- og orkuþörfum jarðarbúa. Þær erfðafræðilegu breytingar, sem bændur í árdaga ullu með úrvali sínu, eru miklu meiri en kynbótamenn hafa áorkað í krafti vísindanna á síðustu 100 árum eða svo.

Nútíma landbúnaður kallar hins vegar alltaf eftir nýjum eiginleikum og nauðsynlegt er að bregðast við breyttum aðstæðum og nýjum ógnum af völdum sjúkdóma og meindýra. Til þess að ná árangri þarf kynbótamaðurinn að geta spilað úr erfðabreytileika milli einstaklinga og hafa leiðir til þess að velja bestu arfgerðirnar sem síðan leggja grunn að nýju ræktaryrki. Sífellt hefur verið beitt framsæknari og vísindalegri aðferðum til þess að ná árangri allt frá því að sett var á markað fyrsta tilbúna tegundin árið 1718. Í erindi sínu rakti Áslaug hvernig erfðatæknin hefur fylgt í kjölfar annarra vísindalegra nýjunga í plöntukynbótum sem fram hafa komið síðustu 100 árin. Allar þessar aðferðir hafa m.a. gert það að verkum að fæðuöflun í heiminum hefur náð að halda í við öra fólksfjölgun og vel það fram til dagsins í dag. Í lokin greindi Áslaug frá hverjir eru möguleikarnir til framtíðar. 

Erfðatækni í matvælaframleiðslu

Helga M. Pálsdóttir, matvælafræðingur hjá Matvælastofnun fjallaði um erfðatækni í matvælavinnslu, möguleika og tækifæri sem felast í erfðatækninni fyrir matvælaiðnaðinn, algengustu erfðabreyttu nytjaplönturnar og helstu erfðabreyttu matvælin sem eru á markaði í heiminum í dag. Þá greindi Helga frá reglugerð um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og fóðurs, hvaða matvæli falla undir reglugerðina og tók dæmi af því hvar erfðabreytt matvæli er finna og hvaða erfðabreyttu matvæli eru í þróun.

Erfðatækni í lyfjaframleiðslu

 Einar Mäntylä, ORF Líftækni fjallaði um erfðatækni í lyfjaframleiðslu. Prótein eru afurðir gena ; byggingareiningar, hvatar efnahvarfa og boðberar upplýsinga sem gera frumum kleift að lifa og lífverum að þroskast. Ótölulegur fjöldi mismunandi próteina er til í lífríkinu. Þar sem mörg þessara próteina eru nauðsynlegir eðlilegri starfsemi frumnanna eða mikilvægur hluti af viðbrögðum og vörnum lífvera við aðsteðjandi vá og sjúkdómum  kemur ekki að óvart að fjölmörg prótein hafa lyfjavirkni. Prótein eru flóknar stórsameindir sem eingöngu lífverur eru færar um að framleiða. Fram að tíma erfðatækninnar voru lyfvirk prótein  því einangruð úr vefjum lífvera svo sem svína eða nautgripa með tilheyrandi smithættu. Með tilkomu erfðatækni var unnt að staðla framleiðsluna og bæta öryggi afurðanna verulega auk þess sem afkastagetan jókst. Mörg lyfjapróteinanna eru því sameindir sem fyrirfinnast í náttúrunni en verða fyrst sjúklingum aðgengilegar  í stöðluðu formi fyrir tilstilli erfðatækni. Skerfur  líftæknilyfja í lyfjum á markaði fer sívaxandi og er tekið að breyta ásýnd og eðli lyfjaiðnaðarins.

Erfðatækni sem rannsóknatæki

Ólafur S. Andrésson, prófessor í erfðafræði við Háskóla Íslands fór yfir helstu atriði í þróun erfðatækninnar og hvernig hún hefur haft áhrif á rannsóknir. Margs konar tækni og faggreinar hafa skipt sköpum fyrir þróunina og oft hafa niðurstöðurnar verið umfagsmiklar hvað varðar getu, útbreiðslu og áhrif. Meginlærdómurinn er að öflun grunnþekkingar nærir tækniframfarir sem síðan eru hagnýttar bæði til framleiðslu og þjónustu, ekki síst á sviði matvælaframleiðslu og heilbrigðisþjónustu. Ólafur fór yfir þær fjölbreyttu rannsóknir sem eiga sér stað hérlendis á þessu sviði og benti á hve margar stofnanir og fyrirtæki nýta sér aðferðir erfðatækni í að einhverju leyti í sínum daglegu störfum. 

Erfðatækni og umhverfi

Arnar Pálsson,  Dósent í erfðafræði, þróunarfræði og skyldum greinum, Háskóla Íslands ræddi um mögulega hættu sem umhverfinu og náttúrunni gæti stafað af erfðatækni. Þegar sameindalíffræðingum tókst að einangra gen, klóna DNA inn í framandi lífveru, ákváðu þeir að hætta rannsóknum á þessu sviði í heilt ár og meta áhættuna af þessari tækninýjung fyrir rannsakendur, heilsu fólks og náttúruna. Hugmyndir um áhættu af erfðabreyttum lífverum skiptast í nokkra flokka:

  • að erfðabreyttar lífverur hafi yfirburði yfir náttúrulegar tegundir og verði ágengar
  • að erfðabreyttar lífverur raski samsetningu náttúrulegra stofna með genaflæði
  • að leifar erfðabreyttra lífvera mengi náttúruna (t.d. grunnvatn og jarðveg)
  • að gen úr erfðabreyttum lífverum geti hoppað á milli lífvera með ófyrirséðum afleiðingum.

Í erindi sínu mat Arnar þessar hugmyndir út frá núverandi þekkingu, mögulegum afleiðingum og tilheyrandi óvissu auk þess að ræða varúðarregluna, að náttúran eigi að njóta vafans.  

Erfðatækni er mikilvægt verkfæri fyrir alla líftæknistarfsemi en líftæknin er ein af forsendum þróunar í nútímasamfélagi og skiptir miklu máli fyrir samkeppnishæfni þjóða. Líftækni er undirliggjandi tækni í samfélaginu, rétt eins og upplýsingatækni og hún er notuð á fjölmörgum sviðum samfélagsins s.s. í landbúnaði, matvælavinnslu, heilbrigðissviði, orkuiðnaði og sjávarútvegi.