Fréttasafn



  • Prósentumerki

29. apr. 2011

Aukin verðbólga ofan í efnahagsslaka áhyggjuefni

Verðbólga mælist nú 2,8% en vísitala neysluverðs hækkaði um 0,8% í apríl. Líkur eru á að verðbólgan geti farið í um 4% síðar á árinu ef spár rætast. „Þetta eru vond tíðindi“, segir Bjarni Már Gylfason hagfræðingur SI. „Verðbólgan er knúin áfram af margvíslegum kostnaðarhækkunum, einkum á eldsneyti og flugfargjöldum en einnig er húsnæðisliðurinn að hækka. Sumum kann að þykja þetta lág verðbólga en hún er að mestu komin fram á síðustu 2-3 mánuðum. Þessi þróun hefur vond áhrif á stöðuna í kjaraviðræðum og vissulega er hætta á víxlhækkun launa og verðlags ef samið er um óraunhæf laun og gamli draugurinn endurvakinn. Við verðum að finna aðrar leiðir til að auka kaupmátt í landinu en að reyna að elta kostnaðarhækkanir“, segir Bjarni.

Talsverðar verðhækkanir eru enn í kortunum þrátt fyrir að mikill slaki sé enn í hagkerfinu og að atvinnuleysi virðist vera að aukast. Hækkanir hjá Orkuveitu Reykjavíkur munu koma inn í vísitöluna í maí en einnig verður hækkun vegna leiðréttingar á byggingavísitölunni.

Seðlabankinn hefur nýlega lækkað hagvaxtaspár fyrir árið 2011 og telur að hagkerfið hafi dregist meira saman árið 2010 en áður var talið. Bjarni Már segir að þessi þróun setji Seðlabankann í nokkuð snúna stöðu. „Bankinn hefur gefið til kynna að næstu vaxtabreytingar geti farið alla vegu. Ennfremur hefur bankinn sagt að ýtrustu launakröfur sem hafa verið upp á borðum í kjaraviðræðum samrýmist ekki verðlagsmarkmiðum. Staðan í efnahagslífinu kallar á lægri vexti og það væri afar slæmt innlegg  í endurreisn efnahagslífsins að reyna að berjast við verðbólguna nú með hærri vöxtum. Ef hún skýrðist af eftirspurnarþrýstingi væri það annað mál.“

Bjarni Már segir það einnig umhugsunarefni að nú er húsnæðisliðurinn að ýta undir verðbólguna áfram þrátt fyrir stöðuga umfjöllun um ládeyðu á fasteignamarkaði. „Okkar mat á aðstæðum á húsnæðismarkaði bendir til að talsverð þörf sé á vissum tegundum af húsnæði. Aukin umsvif á fasteignamarkaði, verðhækkanir og spenna á leigumarkaði styðja þá skoðun okkar. Það hefði jákvæð áhrif á eftirspurnarhlið hagkerfisins ef við sæjum einhverja aukningu á fjárfestingum í íbúðarhúsnæði“, segir Bjarni að lokum.