Fréttasafn  • Vaxtarsprotinn 2011

6. maí 2011

Handpoint hlýtur VAXTARSPROTANN 2011

Fyrirtækið Handpoint ehf. hlaut í morgun Vaxtarsprotann 2011 sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis. Fyrirtækið meira en fjórfaldaði veltu sína milli áranna 2009 og 2010 úr 66,7 m.kr í um 347 m.kr. Fyrirtækin Marorka, Trackwell og Gogogic fengu einnig viðurkenningar fyrir góðan vöxt á síðasta ári. 

Vaxtarsprotinn er viðurkenning sem veitt er á vegum Samtaka iðnaðarins, Rannsóknamiðstöðvar Íslands og Háskólans í Reykjavík. Tilgangurinn er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja.

Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóri í iðnaðarráðuneytinu afhenti starfsmönnum og stjórnarformanni Handpoint Vaxtarsprotann 2011 að viðstöddum fulltrúum sprotafyrirtækja og stuðningsaðilum atvinnulífsins í Grasagarðinum Laugardal við hátíðlega athöfn í morgun.

Alls hlutu fjögur sprotafyrirtæki viðurkenningu fyrir öflugan vöxt milli áranna 2009 og 2010, en viðurkenningunum var skipt í tvo flokka. Í 2. deild, þ.e. flokki sprotafyrirtækja með veltu á bilinu 10-100 milljónir, hlutu fyrirtækin Gogogic ehf. og Handpoint ehf. viðurkenningu en í 1. deild, flokki sprotafyrirtækja með ársveltu á bilinu 100-1000 milljónir, fengu fyrirtækin Marorka ehf. og Trackwell ehf. viðurkenningu.

Handpoint ehf./Ltd sérhæfir sig í greiðslulausnum fyrir fyrirtæki og bankastofnanir. Fyrirtækið þróar og selur kortagreiðslulausnir fyrir afgreiðslukassa, internetið, handtölvur og farsíma og er með skrifstofur í Hlíðasmára í Kópavogi og í Kambryggjuskíri á Englandi.

Handpoint ehf. var stofnað árið 1999 af þremur skólabræðrum í verkfræðideild HÍ, þeim Davíð Guðjónssyni, Magnúsi Þór Torfasyni og Þórði Heiðari Þórarinssyni í kringum nýja handtölvutækni sem þá kom á markaðinn (Palm Pilot). Davíð og Þórður stjórna fyrirtækinu í dag en Magnús starfar sem aðstoðarprófessor við viðskiptadeild Harvard háskóla í Bandaríkjunum.

„Á þeim tíma voru fyrirtæki eins og Nokia að spá fyrir um mikinn vöxt markaðar fyrir þess konar tækni. Auk þess sáum við fyrir okkur að í framtíðinni kæmu á markað tæki sem væru blendingar af handtölvu og farsíma eða það sem þekkist í dag sem snjallsímar. Segja má að þessi sýn hafi ekki raunverulega orðið að veruleika fyrr en að iPhone síminn kom á markað,“ segir Davíð Guðjónsson, framkvæmdastjóri Handpoint.

 „Í dag sérhæfum við okkur í greiðslulausnum fyrir handtölvur og snjallsíma og getum t.a.m. boðið upp á lausnir til að taka við PIN-korta greiðslum með iPhone og Android snjallsímum en við sjáum fram á mikinn vöxt á markaði fyrir slíkar greiðslulausnir.  Sögulega höfum við verið upptekin við að þróa og selja okkar handtölvu- og greiðslulausnir út um allan heim.“ Helstu viðskiptavinir fyrirtækisins eru verslunarkeðjur, flugfélög og bankastofnanir, t.am. British Airways, Ryanair, EasyJet, Icelandair, Adidas og Greiðsluveitan.

Miklar breytingar hafa orðið á greiðslukortamarkaði síðustu ár eins og Íslendingar hafa fundið fyrir og séð erlendis þar sem undirskriftir á greiðslukvittanir hafa vikið fyrir PIN innslætti en brátt mun sú tækni hefja innreið sína á Íslandi. Þessar breytingar skapa tækifæri í lausnaframboði fyrir verslanir og þjónustuaðila sem fyrirtækið hefur einbeitt sér að.

„Við teljum 25 starfsmenn í dag á Íslandi og Bretlandi og værum fleiri ef við finndum fleiri hugbúnaðarsérfræðinga á Íslandi. Þrátt fyrir kreppuástand virðist mikil vöntun í þeirri starfsgrein og við höfum neyðst til að stækka erlendis vegna þess. Það er því kannski rétt að nota tækifærið og auglýsa eftir hæfileikaríku fólki,“ segir Davíð.

Árið 2009 kom Frumtak fjárfestingarsjóður að fyrirtækinu og jafnframt hefur Þórður Magnússon fjárfestir leiðbeint og stutt við stjórnendur fyrirtækisins í fjöldamörg ár og er stjórnarformaður þess. Fyrirtækið keypti á síðasta ári allt hlutafé í Median hf. og hefur sameinað reksturinn í einn.  

Meginviðmið dómnefndar er hlutfallslegur vöxtur í veltu milli tveggja síðustu ára. Fyrirtækið þarf að uppfylla skilgreiningu um sprotafyrirtæki – þ.e. að verja meira en 10% af veltu í rannsókna- og þróunarkostnað að meðaltali fyrir bæði árin. Heildarvelta fyrra árs þarf að vera yfir 10 milljónum en undir einum milljarði ísl. kr. Þá þurfa frumkvöðlar fyrirtækjanna að vera til staðar í tengslum við fyrirtækin og fyrirtæki sem hlýtur Vaxtarsprotann má ekki vera að meiri hluta í eigu stórfyrirtækis, fyrirtækis á aðallista kauphallar eða meðal 100 stærstu fyrirtækja landsins.

Þetta er í fimmta skiptið sem Vaxtarsprotinn er afhentur en hann hefur verið veittur árlega frá árinu 2007, það ár hlaut Maroka ehf. Vaxtarsprotann. Árin 2008 og 2009 var Mentor ehf. Vaxtarsproti ársins og2010 Nox Medical.

Verðlaunagripur Vaxtarsprotans er farandgripur úr áli og steini gefinn af Samtökum iðnaðarins, en auk hans fylgir skjöldur úr sömu efnum til eignar. Fyrirtækin fjögur sem hlutu viðurkenningar fengu auk þess sérstök viðurkenningarskjöl.

Nánar um hin fyrirtækin sem hlutu viðurkenningu 

Gogogic ehf. er stofnað árið 2006 af Jónasi Björgvini Antonssyni, Sigurði Eggerti Gunnarssyni og Guðmundi Bjargmundssyni. Í upphafi einbeitti fyrirtækið mest að vefverkefnum fyrir íslensk fyrirtæki og auglýsingastofur. Hin síðari ár hefur meginþungi starfseminnar verið í gerð og markaðssetningu tölvuleikja fyrir vafra, Apple tæki og félagsvefi. 30 manns með fjölbreyttan bakgrunn og menntun starfa hjá Gogogic.  

Gogogic hefur gert þrjá leiki fyrir Apple tæki. Þeir eru þrautaleikirnir Symbol6 og Symbol6 Redux og fjölspilunarleikurinn Soft Freak Fiesta. Fyrirtækið vinnur nú að gerð ævintýraleiks fyrir Apple tæki sem kemur út nú í sumar í samstarfi við bandaríska stórfyrirtækið Big Fish Games. Big Fish Games dreifir meira en tveimur milljón leikjum á dag til spilara um alla heim. Fyrirtækið dreifir leikjum jafnt fyrir PC-tölvur, makka, snjallsíma og töflutölvur. 

Í lok árs 2010 kláraði Gogogic tvö stór leikjaverkefni fyrir Nickleodeon, dótturfyrirtæki bandarísku fjölmiðlasamsteypunnar Viacom. Árið 2009 kom beta útgáfa út af Facebook leiknum Vikings of Thule. Markaðssetning á leiknum hófst í ágúst 2010 og nú má spila leikinn á bæði Facebook og hi5 félagsvefjunum. Auk þess hefur Gogogic gefið út félagsleikina Know Your Friend og Battle Drawn Alpha auk tuga smáleikja.

Nýlega var greint frá því að ákveðið hefði verið að segja upp öllu starfsfólki félagsins. Þetta er í raun varúðarráðstöfun og vonast stjórnendur til að geta dregið þessar uppsagnir til baka sem allra fyrst. Stoðkerfi við fyrirtæki eins og Gogogic er mjög takmarkað hér á landi í samburði við lönd sem markvisst eru að laða slík fyrirtæki til sín. Það er vandkvæðum bundið að fjármagna fyrirtæki af þessari tegund eins og staðan er núna. Bankarnir eru mjög tregir til að lána til nýsköpunarfyrirtækja svo ekki sé minnst á hversu erfitt er að fá erlent fjármagn inn í íslensk fyrirtæki vegna gjaldeyrishafta og annarra aðstæðna. Starfsemi Gogogic mun þó halda áfram eins og ekkert hefur í skorist enda er verkefnastaða fyrirtækisins mjög góð.

Marorka ehf. er tæknifyrirtæki sem er leiðandi í orkustjórnunarlausnum fyrir skipaiðnaðinn. Lausnir Marorku felast í orkusparnaðarkerfum og ráðgjöf en ekki síður í aðferðafræði sem gerir orkustjórnun bæði hluta af daglegum rekstri og reglubundnu viðhaldi skipa. Fyrirtækið var stofnað árið 2002 með þremur starfsmönnum en í dag eru starfsmenn 31 talsins. Fyrirtækið hlaut Vaxtarsprotann 2007 fyrst sprotafyrirtækja og á árinu 2009 hlaut fyrirtækið Umhverfisverðlaun Norðurlanda. Stofnandi og frumkvöðullinn í fyrirtækinu er Jón Ágúst Þorsteinsson. 

Trackwell ehf. TrackWell hefur frá stofnun árið 1996, sérhæft sig í hugbúnaðargerð með sérstakri áherslu á lausnir tengdar fjarskiptum og staðsetningartækni. TrackWell hefur þróað þjónustu sem kallast TrackWell Forðastýring. Hugtakið forðastýring er þýðing á Mobile Resource Management (MRM) og stendur fyrir kerfi sem innifelur verkferla til þess að hafa eftirlit með og stýra notkun forða - hver er að gera hvað á hverjum tíma, hvar og hvernig.

Lausnirnar eru markaðssettar undir fjórum meginvörumerkjum með áherslu á þarfir mismunandi starfsemi. Tímon, tíma-, verk- og viðveruskráning hentar fyrirtækjum í hvaða starfsemi sem er og auðveldar stjórnendum að ná yfirsýn yfir tímanýtingu og launakostnað. Trackwell Floti gerir fyrirtækjum sem reka bílaflota kleift að ná betri nýtingu tækjaflotans, lækka rekstrarkostnað og bæta þjónustu. Trackwell ERS veitir útgerðum rauntímayfirsýn yfir veiðarnar og heldur á markvissan hátt utan um veiðisögu og aflaverðmæti fyrir skipulagningu og úrvinnslu. TrackWell VMS gerir ríkjum og fjölþjóðlegum stofnunum kleift að uppfylla alþjóðlegar reglugerðir og staðla um eftirlit með fiskveiðum. 

Um 300 fyrirtæki, í öllum geirum atvinnulífsins, nota þjónustuna til að stýra og hafa yfirsýn með um 2000 farartækjum og 30.000 starfsmönnum. Meginstarfsemi TrackWell er á Íslandi en fyrirtækið hefur selt vörur og þjónustu til nítján landa í fimm heimsálfum og rekur dótturfyrirtækið TrackWell ADS í Bandaríkjunum.

Stofnendur fyrirtækisins eru Bergur Þórisson, Kolbeinn Gunnarsson, Ingveldur Jónsdóttir, Sæmundur Þorsteinsson og Jón Benediktsson.Tveir af þeim starfa enn við fyrirtækið, þeir Bergur Þórisson og Kolbeinn Gunnarsson.

Fjöldi starfsmanna við stofnun var 4 en í dag starfa 23 hjá fyrirtækinu á Íslandi.