Fréttasafn  • Borgartún 35

6. maí 2011

Skrifað undir kjarasamninga til þriggja ára

Samtök atvinnulífsins hafa skrifað undir nýja kjarasamninga á almennum vinnumarkaði til þriggja ára við Alþýðusamband Íslands og landssambönd þess. Samningarnir fela í sér umtalsverðar launahækkanir, mun meiri en í samkeppnislöndum Íslands. Laun hækka mest á fyrsta ári samninganna en þeir byggja á þeirri sýn að hagur fólks og fyrirtækja batni með aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu og atvinnuleysi minnki. Án uppsveiflu í atvinnulífinu eru samningarnir hins vegar ávísun á verðbólgu og aukið atvinnuleysi. Aðildarfyrirtæki SA munu kjósa um gildistöku samninganna í rafrænni atkvæðagreiðslu.

  • Heildarlaunakostnaður atvinnulífsins vegna samninganna mun aukast um 13% í heildina á samningstímanum sem er til 31. janúar 2014. Launakostnaður fyrirtækja í ákveðnum greinum hækkar meira. Almenn laun hækka um 4,25% þann 1. júní nk., 3,5% 1. febrúar 2012 og 3,25%
    1. febrúar 2013.
  • Atvinnutryggingagjald mun lækka 2012. Ef áætlanir um minna atvinnuleysi ganga eftir lækkar gjaldið frá næstu áramótum og aftur í ársbyrjun 2013. Tryggingagjaldið í heild gæti lækkað um tæpt 1% um næstu áramót og um 0,3% til viðbótar 2013.
  • Lágmarkstekjutrygging fyrir fulla dagvinnu hækkar úr 165 þúsund krónum í 182 þúsund krónur á mánuði við gildistöku samninganna. Hún hækkar í 193 þúsund krónur þann 1. febrúar 2012 og 204 þúsund 1. febrúar 2013. Hækkunin nemur 23,6% á samningstímanum.
  • Greidd verður 50 þúsund króna eingreiðsla til launþega í upphafi samningstímans miðað við fullt starf síðastliðna mánuði. Greitt verður tímabundið álag árið 2011 á orlofs- og desemberuppbót samtals kr. 25 þúsund.
  • Í tengslum við gerð samninganna hefur ríkisstjórnin skuldbundið sig til leggja grunn að varanlegum hagvexti og auknum framkvæmdum í hagkerfinu þannig að þær verði um 350 milljarðar króna árið 2013. Að auki fylgja yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar tvær bókanir, önnur um málsmeðferð í sjávarútvegsmálum og hin um framkvæmd yfirlýsingarinnar.
  • Í kjarasamningunum er forsenduákvæði um að kaupmáttur aukist, verðlag haldist stöðugt, gengi krónunnar styrkist marktækt og að stjórnvöld standi við gefin fyrirheit í efnahags-, atvinnu- og félagsmálum. Forsendur verða metnar í janúar ár hvert.

Sjá nánar á vef SA