Vistvænni borgir beggja vegna Atlantsála
Á ráðstefnunni CanNord 2011 komu fulltrúar Norðurlandanna og Kanada saman til þess að ræða þau stóru verkefni sem borgir landanna standa frammi fyrir í skipulags-, samgöngu- og orkumálum.
Græn stefna Reykjavíkur kynnt
„Þátttakan í CanNord 2011 kom til vegna umsóknar okkar um að verða græna borg Evrópu, European Green Capital, í fyrra. Þar komst Reykjavík í 6 borga úrslit“, segir Ellý Katrín Guðmundsdóttir, sviðsstýra umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar.
Ellý Katrín flutti erindi um stefnu Reykjavíkur í umhverfis- og orkumálum, þar sem hún fjallaði um loftslags- og loftgæðastefnu borgarinnar, orkuaðgerðaáætlun og markmið hennar í samgöngumálum.
Margt sameiginlegt borgum á norðurslóðum
„Það er magnað hvað borgir heimsins eiga margt sameiginlegt, óháð stærð og staðsetningu. Við erum alltaf að glíma við það verkefni að tryggja lífsgæði borgarbúa. Kanada er hins vegar á norðlægum slóðum eins og við og því eru ákveðin málefni sem við getum frekar rætt við borgirnar þar“, segir Ellý Katrín.
Dagskrá ráðstefnunnar samanstóð af fjölbreyttum fyrirlestrum og umræðum um vistvænar lausnir í málefnum borga á norðurslóðum. Þátttakendum var einnig boðið í heimsóknir til Torontoborgar, University of Toronto og Ontario Centres of Excellence.
Kanadamenn metnaðarfullir í umhverfismálum
Guðný Reimarsdóttir er framkvæmdastjóri íslenska fyrirtækisins Econord sem framleiðir umhverfisvænar lausnir í sorpiðnaði. Hún tók þátt í ráðstefnunni sem fulltrúi Cleantech Iceland, nýstofnaðra samtaka íslenskra fyrirtækja sem vinna að þróun og markaðssetningu á grænni tækni.
„Kanada er þroskaður markaður þegar kemur að umhverfisvænum lausnum. Stefna Kanadamanna er mjög metnaðarfull, þeir setja mikið fé í málaflokkinn og vilja sinna umhverfinu vel“, segir Guðný.
Það eru því mikil tækifæri á Kanadamarkaði, ekki síst fyrir þá sem einnig hafa hug á landvinningum í Bandaríkjunum.
„80% af útflutningi Kanadamanna er til Bandaríkjanna þannig að ef áhugi er á því að komast inn á markaðinn þar má finna góða tengiliði og mikla reynslu í Kanada“, segir Guðný Reimarsdóttir.
Ákveðni og þor til fyrirmyndar
Að sögn Ellýar Katrínar var mjög áhugavert að fá innsýn í starfsemi þeirra sem vinna við nýsköpun.
„Ég á mikil samskipti við borgarfólk og fólk í umhverfisgeiranum en það að hitta þá sem starfa beint að nýsköpun skerpti mjög á sýn minni á þeim stóru tækifærum sem í henni felast. Þetta er fólk sem fagnar áskorunum og fer beint í að finna lausnir þegar það er kynnt fyrir krefjandi verkefnum“, segir Ellý Katrín.
Að sögn Ellýar var ferðin meðal hvatanna að því að Reykjavíkurborg auglýsti útboð um kaup á 50 metanbílum fyrir stuttu.
„Þetta hugarfar minnir okkur á að við þurfum að halda ótrauð áfram. Það er hlutverk hins opinbera að vera djarft og óska eftir nýjum lausnum varðandi umhverfið og lífsgæði borgarbúa. Ef við tökum fyrstu skrefin er alltaf til fólk sem er tilbúið að leysa verkefnin“, segir Ellý Katrín að lokum.
Nánari upplýsingar
Ítarlegri upplýsingar um CanNord 2011 og önnur samvinnuverkefni Norðurlandanna og Kanada veitir:
Sigríður Þormóðsdóttir
Nýsköpunarráðgjafi hjá Norrænu Nýsköpunarmiðstöðinni
+47 915 76 577
s.thormodsdottir@nordicinnovation.org