Fréttasafn  • 2011-ný tækifæri í orkuöflun

9. maí 2011

Ný tækifæri í orkuöflun

Fyrsti fundur í fundaröð SI og HR um orkumál fór fram sl. föstudag í Háskólanum í Reykjavík. Fjallað var um nýjar leiðir í orkuframleiðslu og hugsanlega framleiðslugetu í raforku og sjónum m.a. beint að djúpborunum, vindorku og sjávarföllum. Einnig var horft til  betri nýtingar í kerfinu og hvernig megi fara betur með það sem fyrir er.

Íris Baldursdóttir, deildarstjóri kerfisstjórnar og markaðar hjá Landsneti fjallaði um flutningsgetu raforkukerfisins og hvernig megi bæta nýtingu orku sem fer inná kerfið með góðum stýringum. Flutningstöp eru einn mælikvarði á nýtingu og þar hefur staðan batnað á undanförnum árum. Landsnet hefur tekið upp svokallaðar smart-grid lausnir við stýringar þannig að stöðugleiki kerfisins verður meiri því hægt er að grípa fyrr inní ef vandamál koma upp. Með markaðslausnum má einnig nýta betur notkunarhlið kerfisins, þannig að stórir notendur minnki eða auki notkun eftir því hvernig álag á kerfinu er og virki eins og sveiflujafnarar.

Ingólfur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og lektor við tækni- og verkfræðideild HR sagði frá tækni sem er í þróun og á fyrstu reynslustigum. Reikna má með að orkubændum fjölgi á næstunni og nú þegar er verið að setja upp litlar vindmyllur við bæi. Stærri verkefni eru á rannsóknarstigi og sagði Ingólfur frá prófunum á notkun ölduorku, sjávarstraumum og seltuorku. Nýsköpunarmiðstöð er þátttakandi í alþjóðlegu verkefni þar sem rannsakaðar eru himnur sem henta í seltuorkuvirkjanir. Miklir möguleikar er fyrir slíka tækni hérlendir því hún byggir á að hafa aðgang að fersku vatni sem rennur til sjávar. Nokkuð er í að tæknin verði samkeppnishæf við núvarandi tækni.

Úlfar Linnet, deildarstjóri rannsóknadeildar hjá Landsvirkjun tekur þátt í norrænu verkefni sem vinnur að gerð vindatlas. Fyrirliggjandi gögn eru mælingar í 10 metra hæð en stórar vindmyllur fara nokkuð yfir það og því er verið að rannsaka vind í meiri hæð.  Kortlagning á möguleikum virkjunar vindorku þarf einnig að taka tillit til samgangna, aðgangi að flutningskerfi raforku, gróður og dýralífi, nálægð við byggð og friðlýst svæði og fleira. Fram kom að vindorka er heppileg sem viðbót við vatnsaflvirkjanir. Vindur er óstöðugur en hægt er að geyma orku vatnsaflsvirkjana í lónum og spila þetta saman.

Bjarni Pálsson, verkefnisstjóri djúpborunarverkefnisins á Kröflusvæðihefur tekið þátt í djúpborunarverkefninu frá upphafi en nú er komin um 11 ár frá því verkefnið var fyrst kynnt. Alla tíð hefur verið lögð áhersla á að þetta er langtímaverkefni og tækni sem við getum nýtt fyrir framtíðarkynslóðir. Bjarni sagði frá framgangi borana á Kröflusvæðinu. Óvænt vandamál hafa komið upp. Aðstæður í borholum er erfiðari en áður hefur verið tekist á við, hiti er mun hærri og efnaálag mikið. Þetta hefur reynt verulega á tæknimenn og þegar hafa frumlegar lausnir litið dagsins ljós. Ljóst er að kostnaður við borun verður mun meiri en nú er en orkumagnið sem hver hola gefur er meira. Það er forsenda verkefnisins að vinnsla verði arðbær.

Næsti fundur verður haldinn í HR föstudaginn 13. maí.