Fréttasafn



  • ÞV á orkufundi 2011

13. maí 2011

Þjóðhagsleg áhrif orkunýtingar

Annar fundur í fundaröð SI, HR og Samáls um orkumál fór fram í morgun í Háskólanum í Reykjavík. Fjallað var um þjóðhagsleg áhrif orkunýtingar. Flutt voru þrjú erindi, Dr. Helga Kristjánsdóttir, hagfræðingur fjallaði um flæði beinnar erlendrar fjárfestingar á orkufrekan iðnað á íslandi, Þórður Hilmarsson, forstöðumaður fjárfestingasviðs Íslandsstofu fjallaði um orkutengd verkefni til atvinnuuppbyggingar og Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samáls um þjóðhagslegan ávinning orkutengds iðnaðar.Orkundur 2011 

Í erindi Helgu kom m.a. fram að miðað við þær alþjóðlegu rannsóknir sem gerðar hafa verið á helstu áhrifaþáttum í flæði beinnar erlendrar fjárfestingar virðist efnahagsstærð Íslands ekki hafa afgerandi áhrif á hvort önnur lönd ráðast í fjárfestingu í orkufrekum iðnaði. Stærð fjárfestingarlandsins mælist hinsvegar hafa áhrif þar á. Þekkingarstig annarra þjóða er líklegt til að hafa jákvæð áhrif á ákvörðun um að hefja fjárfestingu frekar en að ráðast í viðbótarfjárfestingu. Þá hefur viðskiptakostnaður við að fjárfesta á Íslandi ekki áhrif en viðskiptakostnaður upprunalands jákvæð áhrif. Í lok erindis spannst umræða um stjórnmálastöðugleika og sagði Helga að hann virtist frekar skipta máli í upprunalandi en á Íslandi, ef litið væri til þeirra fjárfestingarákvarðana sem hún hefði skoðað.

Þórður Hilmarsson fjallaði um mikilvægi beinna erlendra fjárfestinga til atvinnuuppbyggingar. Í könnun sem iðnaðarráðuneytið ásamt Íslandsstofu létu gera á stöðu Íslands kemur í ljós að bein erlend fjárfesting er minni hér en hjá flestum viðmiðunarþjóðum okkar. Þórður segir nauðsynlegt að hér verði mótuð fjárfestingastefna og unnið samkvæmt henni. Samkeppnisstaða Íslands sé góð, hér sé endurnýjanleg orka, afhendingaröryggi orku, orkuverð og samningar séu til lengri tíma, góðar samgöngur, samkeppnishæfir fyrirtækjaskattar, evrópskt regluverk, aðild að EES og auk þess erum við staðsett milli tveggja sterkustu markaða heims. Tækni- og menntunarstig og tungumálaþekking er góð og hér er nægt landrými og fólk býr við almenn lífsgæði og öryggi. Þess vegna eigum við leggja áherslu á atvinnugreinar og svið í orku, náttúru og þekkingu. Sóknarfæri séu í kísil, koltrefjum, gagnaverum, grænum iðngörðum eða orkuklösum og gróðurhúsum í iðnaðarskala.

Þorsteinn fjallaði um þjóðhagsleg áhrif áliðnaðar á Íslandi. Í erindi hans kom fram að reynsla Kanadamanna sýndi að veruleg verðmætasköpun hefði myndast í ýmsum stoðgreinum í kringum áliðnaðinn á þeim langa tíma sem áliðnaður hefur verið starfræktur þar í landi. Mikill fjöldi birgja sinnti þjónustu við álverin og þar hefði skapast þekking og reynsla sem ýmis fyrirtæki í Kanada hefðu gert að sjálfstæðri útflutningsvöru. Þorsteinn fór yfir vægi iðnaðarins hér á landi en útflutningstekjur áliðnaðar hér á landi námu 222 milljörðum króna á síðasta ári. Útgjöld álfyrirtækjanna hér á landi námu á sama tíma 80 milljörðum króna, þar af hefðu 24 milljarðar runnið til kaupa á vöru og þjónustu af hundruðum innlendra fyrirtækja, að raforkukaupum frátöldum. Loks fór Þorsteinn yfir áhrif stóriðjunnar á raforkuiðnað hér á landi. Sagði hann ljóst að stóriðjan stæði að stærstum hluta undir arðsemi greinarinnar, ólíkt því sem oft væri haldið fram. Miðað við nýtingartíma væri raforkusala til stóriðju þannig að skila Landsvirkjun um 60% hærri tekjum á hvert uppsett megawatt í afli, en raforkusala til heimilanna. Raforkuverð hér á landi til stóriðju væri nokkuð hátt miðað við það raforkuverð sem álfyrirtæki væru að semja um í nýframkvæmdum í dag. Þá væri ekki sjálfgefið að hækkandi raforkuverð í Evrópu leiddi til hækkandi raforkuverðs til stóriðju. Sú væri í það minnsta ekki raunin í þeim nýframkvæmdum sem nú væru áformaðar. Hins vegar hefði þessi hækkun leitt til þess að orkufrekur iðnaður væri farinn að flytjast frá Evrópu.