Fréttasafn  • Borgartún 35

10. jún. 2011

Mikilvæg niðurstaða - Erlendu lánin ólögleg

Hæstiréttur staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Landsbankans gegn þrotabúi Mótormax. Deilt var um lán, sem Landsbankinn taldi að fæli í sér skuldbindingu í erlendri mynt. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að lánið væri í íslenskum krónum en gengistryggt og þar með ólöglegt.

Orri Hauksson, framkvæmdastjóri SI fagnar því að niðurstaða sé fengin í þessu mikilvæga prófmáli. SI hafi verið að styrkja prófmál vegna annarra en svipaðra samninga varðandi fjármögnunarleigusamninga en Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi slíka samninga ólöglega í nýgengnum dómi. Þessi niðurstaða Hæstaréttar rennir enn styrkari stoðum undir niðurstöðu Héraðsdóms sem hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar. Þessir dómar munu nýtast mörgum okkar félagsmönnum í að aflétta óvissu og byggja upp rekstur sinn til lengri tíma“.

Orri segir það vera ánægjuefni að óvissu um erlend lán fyrirtækja hafi nú verið eytt, bæði fyrir fyrirtækin en ekki síður fyrir bankakerfið og atvinnulífið í heild sinni. „Eitt af því sem hefur staðið í vegi þess að fjárfestingar taki við sér er mikil óvissa um efnahagsreikning fyrirtækjanna og bankanna líka. Lítil fjárfesting veldur því svo að útflutningur er ekki að aukast sem skyldi þrátt fyrir að lágt raungengi og hátt atvinnuleysi helst í hendur við litla fjárfestingu. Nú er staðan skýrari sem ætti að auðvelda okkur leiðina út úr kreppunni“, segir Orri.

Í vetur hafa fjölmörg fyrirtæki gengið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu og nýtt sér úrræði bankanna í tengslum við átakið Beinu brautina. „Ég tel líklegt að bankarnir muni endurskoða þau úrræði í ljósi þessa dóms og margt bendir til að bankarnir hafi borð fyrir báru til að taka á sig það högg sem þessi dómur veldur. Til lengri tíma litið hafa allir hag af því að losa um það skuldafen sem fall krónunnar olli og stuðla þannig að sterkara atvinnulífi“, segir Orri.