Fréttasafn  • ivilnanir

29. jún. 2011

Ívilnanir vegna nýfjárfestinga

Á síðasta ári tók gildi rammalöggjöf um ívilnanir vegna nýfjárfestinga sem kveður á um að heimilt sé að veita fyrirtækjum afmarkaðar ívilnanir ef sannað þykir að starfsemi fyrirtækisins hafi í för með sér umtalsverðan ávinning fyrir þjóðarbúið. Ingvi Már Pálsson, lögfræðingur hjá Iðnaðarráðuneyti fjallaði um málið á fundi hjá Samtökum iðnaðarins.

Glærur

Markmið laganna er að efla nýfjárfestingu í atvinnurekstri, samkeppnishæfni Íslands og byggðaþróun með því að tilgreina hvaða ívilnanir heimilt er að veita vegna nýfjárfestinga hér á landi og hvernig þeim skuli beitt. Þetta er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem fram kemur að til þess að ná góðum og jöfnum hagvexti, sem sé forsenda fyrir nýjum efnahagslegum og félagslegum stöðugleika á Íslandi, þurfi að stuðla að beinum erlendum fjárfestingu. Einnig er þar lögð áhersla á að kortleggja sóknarfæri Íslands í umhverfisvænum iðnaði og ýta undir fjárfestingar með tímabundnum ívilnunum.

Eldra fyrirkomulag við gerð fjárfestingarsamninga reyndist þungt í vöfum og ómarkvisst. Samningar voru gerðir fyrir hvert einstakt verkefni og kallað var eftir áliti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Samningaferlið gat tekið allt að tveimur árum. Með tilkomu núverandi laga er kominn skýr rammi sem unnið er eftir og  öllum er ljóst frá byrjun hvað er í boði. Nú þegar hafa þrjár umsóknir verið afgreiddar og afgreiðslutími var um það bil mánuður. 

Skilyrði fyrir veitingu ívilnunar til nýfjárfestinga koma fram í 5. gr. laganna og má þar nefna að fyrir liggi greinagóðar upplýsingar um fjárfestingarverkefnið og að árleg velta fyrirhugaðs fjárfestingarverkefnis sé a.m.k. 300 m.kr. eða að nýfjárfesting skapi a.m.k. 20 ársverk á fyrstu tveimur árum þess. Á fundinum var nokkuð spurt um ákvæði laganna um að stofnað sé sérstakt félag um fjárfestingarverkefnið á Íslandi og að fyrirhugað fjárfestingarverkefni sé ekki þegar hafið. Því var til að svara að litið er svo á að verkefni sé hafið við fyrstu skóflustungu. Hönnun, fjármögnun og önnur undirbúningsvinna er ekki þar með talin, enda oft nauðsynleg forsenda umsóknar. Ef fyrirtæki sem sækir um er þegar með starfsemi hér á landi skal halda verkefninu sem styrkt er aðskildu frá annarri starfsemi.

Þær ívilnanir sem heimilar eru samkvæmt lögunum eru fyrst og fremst lækkun skatta og opinberra gjalda. Heimild er fyrir því að veita beinan fjárstuðning, t.d vegna þjálfunar starfsfólks.  Lögin byggja á tveimur stoðum, byggðaaðstoð og almennum ívilnunum óháðum staðsetningu. Sérstök ákvæði eru um nýfjárfestingar lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem og í  rannsóknar- og þróunarverkefnum. Sérstaklega er fjallað um umhverfistengd fjárfestingarverkefni, t.d. vegna uppsetningar búnaðar sem gerir fyrirtækjum kleift að ganga lengra í mengunarvörnum en lög gera ráð fyrir og vegna aðgerða á sviði orkusparnaðar og orkunýtni.

Ferill við veitingu ívilnunar er þannig að nefnd iðnaðarráðherra fer yfir umsókn og metur hvort skilyrði laganna séu uppfyllt. Umsækjandi leggur fram nauðsynleg gögn og Íslandsstofa framkvæmir arðsemisútreikninga og kannar efnahags- og samfélagslegan ávinning. Nefndin gerir tillögu til ráðherra, ráðherra leggur fram boð um ívilnun sem byggir á þeim heimildum sem eru í lögum. Samningar geta verið mismunandi milli verkefna. Að lokum er undirritaður samningur milli ráðherra og umsækjanda um veitingu ívilnunar þar sem kveðið á um réttindi og skyldur aðila.

Lögin eru sett til ársins 2013 en þá skal árangur af þeim metin og skoðað verður hvort áframhald verði á þessu fyrirkomulagi. Einnig verður metið hvort lengra verður gengið með því að veita heimild til fjölbreyttari ívilnana en nú er gert.

Ingvi Már Pálsson - Glærur