Fréttasafn  • Borgartún 35

6. júl. 2011

Hugsum stórt 

Grein eftir Helga Magnússon, formann SI
 
Þjóð sem hefur efni á að greiða 80 milljarða í atvinnuleysisbætur á 3 árum, hlýtur frekar að hafa efni á að greiða milljarðatugi í atvinnuskapandi, arðbær og uppbyggileg verkefni. Þessari skoðun hreyfði fyrrverandi samgönguráðherra, Kristján Möller, á einkar vel heppnuðum morgunfundi Samtaka atvinnulífsins þann 29. júní sl. um stórframkvæmdir í samgöngum á Íslandi.
 

Í ráðherratíð sinni gerði Kristján sitt ýtrasta til að ná samstöðu um víðtækar samgönguframkvæmdir upp á 60 til 80 milljarða króna á nokkrum næstu árum. Hann lagði sig fram um að hrinda í framkvæmd því sem lofað var í svonefndum stöðugleikasáttmála frá júní 2009. Ríkisstjórnin sveik flest sem hún lofaði skv. þeim sáttmála en alveg fram á haustið 2010 voru horfur á því að unnt yrði að hrinda í framkvæmd myndarlegu samgönguátaki í samræmi við sáttmálann. Um var að ræða aðgerðir sem hefðu haft í för með sér atvinnusköpun í öllu atvinnuleysinu, hefðu verið í samræmi við það sem var samið um í fyrrgreindum sáttmála, hefðu aukið umferðaröryggi og verið marktækt skref í þá átt að hefja ferð okkar út úr kreppunni með áþreifanlegum hætti.

Fjármögnun var klár

Unnið var að langtímalausn á fjármögnun verkefna í samstarfi við lífeyrissjóði landsmanna. Þeir samningar voru komnir á lokastig og unnt hefði verið að ná lendingu í þeim með hætti sem hefði verið viðunandi fyrir stjórnvöld og einnig lífeyrissjóðina sem verða ávallt að hafa öryggi og arðsemi að leiðarljósi.

En Íslands ógæfu verður allt að vopni – nú á þessum síðustu og verstu tímum – eins og allt of oft áður í sögunni. Kristján hvarf úr ríkisstjórn á haustdögum án þess að geta lokið þessum verkefnum. Við tók ráðherra sem hefur leitað leiða til að kveða þessi áform í kútinn með margvíslegum útúrsnúningum og klækjum hins æfða fjölmiðlamanns og áróðursmeistara. En hann er sannarlega fær á því sviði. Hann hefur því miður gengið býsna langt í útúrsnúningum sínum og leyft sér að slá um sig með orðaleppum eins og „vegtollavinir“ og „kúlulán“ þegar rætt hefur verið um að tryggja langtímafjármögnun sem byrjað yrði að greiða niður þegar umrædd samgöngumannvirki yrðu tilbúin til notkunar.

Gegn hagvexti?

Ef ráðherrann er alfarið á móti framkvæmdum á sviði samgöngumála með tilheyrandi auknum gæðum vegakerfisins og stórbættu umferðaröryggi, ef hann er á móti því að draga út atvinnuleysi og að minnka útgöld til atvinnuleysisbóta og sé hann á móti hagvexti – þá á hann að segja það hreint út. En ekki að freista þess að drepa framvindu mála með orðaleikjum að hætti Morfískeppenda.

Áttum okkur á því að Morfís er fyrir skólafólk en ekki ráðherra á sjötugsaldri!

Í ræðu sinni á fyrrnefndum fundi sagði Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, að ástæða væri til að kalla eftir málefnalegri umræðu um stefnumótun vegna framtíðargjaldtöku af umferðinni. Hann nefndi að vegtollaumræðan væri á villigötum. Þetta er mikilvægt. Við verðum að taka höndum saman um að koma þessum mikilvægu málum í viðunandi horf. Hér er um afar viðkvæmt úrlausnarefni að ræða. Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir alla, ekki síst ríkisvaldið sem aflar tekna og stendur fyrir framkvæmdum og einnig bifreiðaeigendur. Reyndar alla sem þurfa að komast um. Með öðrum orðum: Fólkið í landinu.

Ríkissjóður ver einungis þriðjungi af því sem hann aflar vegna umferðarinnar í útgjöld/framkvæmdir vegna umferðar. Flestir eru því sammála að verð á eldsneyti sé komið út yfir öll skynsemismörk. Það er reyndar þekkt vandamál í nágrannalöndunum. En þar er hefð fyrir vegatollum. Þegar umræða hófst um vegatolla, sem við greiðum reyndar í Hvalfjarðargöngum nú þegar, tókst að snúa umræðunni upp í það að nú ætti enn á ný að auka skatta á landsmenn.

Tíminn er dýr

Ég er einlægt á móti frekari skattlagningu og skattahækkunum. Ég berst með lækkun skatta og mun gera gagnvart núverandi ríkisstjórn og einnig þeirri næstu. Og þarnæstu. En ég hlýt að spyrja hvers vegna við viljum ekki nýta vegatolla sem aðferð eins og aðrar þjóðir. En ég geri þá kröfu að þá lækki gjöld á eldsneyti og tollar á bifreiðar á móti. Ég skil að þetta gerist ekki í einu vetfangi og ég styð þá sem vilja taka nokkurn tíma í að freista þess að ná samstöðu um nýtt fyrirkomulag varðandi gjaldtöku á sviði samgangna í þessu landi.

En tíminn er dýr! Og tíminn vinnur gegn okkur Íslendingum um þessar mundir: Atvinnuleysi í hámarki og slaki í atvinnu, fjárfestingar í lágmarki, verðbólga er farin að láta kræla á sér og Seðlabanki hótar vaxtahækkun. (Er það til að draga úr þenslu? Hvaða þenslu?). Pólitísk ósamstaða er um forgangsröðun verkefna, við erum ekki að nýta auðlindir þjóðarinnar rétt og við erum í átökum um sjávarútvegsstefnuna.

Ríkisstjórnin er veik. En samt ekki eins veik og hún lítur út fyrir að vera, því hún er þó sammála um eitt: Að hanga á valdastólum þar til í apríl 2013! Gangi það eftir gæti þjóðinni blætt út. 22 mánuðir eru langur tími þegar blæðir.

Við þessar aðstæður þurfum við samt að reyna að gera eitthvað rétt og uppbyggilegt. Því er ástæða til að beina sjónum að tillögu Þorvarðar Hjaltasonar, sem er talsmaður sveitarstjórna á Suðurlandi, um að koma sér saman um „Stórframkvæmdasjóð“ sem hefði það verkefni að ráðast í stærri verkefni á sviði samgangna á Íslandi næstu árin og yrði fjármagnaður utan við fjárlög, með sérstakri lánsfjármögnun frá lífeysissjóðum. Hann talar um 120 milljarða á 12 árum.

Ég er með eina breytingartillögu: Höfum það 120 milljarða á 5 árum. Og hefjumst handa strax. Hugsum stórt ef við ætlum að lifa áfram í þessu landi.

Morgunblaðið 4. júlí 2011