Fréttasafn  • Borgartún 35

12. júl. 2011

Að breyta doða í dug

Grein eftir Vilmund Jósefsson, formann SA

Undanfarin þrjú ár hefur fjárfesting á Íslandi dregist verulega saman og náði hún sögulegu lágmarki á síðasta ári. Undanfarna tvo áratugi hefur þetta hlutfall numið 20% af landsframleiðslu en var tæplega 13% árið 2010. Ekki eru horfur á því að þetta hlutfall hækki markvert á þessu ári.

Blása þarf lífi í efnahaginn
Á síðustu árum hefur störfum fækkað verulega. Þegar umfang í bygginga- og mannvirkjagerð var sem mest störfuðu 18 þúsund manns í greininni en nú stefnir í að þar starfi einungis 4-6 þúsund manns. Fyrirtækjum hefur fækkað og þau farið minnkandi. Fátt bendir til að óbreyttu að þróunin sé að snúast við þannig að atvinnulausum fækki. Lítil og minnkandi fjárfesting er meginástæða þess að lítið sem ekkert er farið að horfa til betri vegar í efnahagslífi landsins. Það er ekki af ástæðulausu að litið er til fjárfestinga þegar ræddar eru leiðir til að blása lífi í efnahagslífið.

Fjárfesting er í eðli sínu ekkert annað en að fé er lagt til hliðar í formi sparnaðar og því ætlað að skapa aukna framleiðslugetu í framtíðinni og þar með aukna verðmætasköpun og betri lífskjör til lengri tíma litið. Ótal rannsóknir sýna skýrt samband milli fjárfestinga og sparnaðar annars vegar og hagvaxtar hins vegar.

Fögur fyrirheit sumarið 2009
Það ríkti bjartsýni meðal þeirra sem skrifuðu undir stöðugleikasáttmálann fyrir tveimur árum um markmið og leiðir að endurreisn efnahagslífsins. Einn mikilvægur þáttur sáttmálans var að ríkisstjórnin myndi greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda, vinna skipulega í samráði við atvinnulífið að úrvinnslu áforma um aðrar stórframkvæmdir og að ganga til samstarfs við lífeyrissjóði um að þeir fjármögnuðu stórar verklegar framkvæmdir m.a. til að flýta fyrir arðbærum samgönguframkvæmdum.

Þáverandi samgönguráðherra lagði fram á Alþingi frumvarp sem heimilaði ráðherra að stofna opinbert hlutafélag sem hafi þann tilgang að standa að vegalagningu umhverfis höfuðborgarsvæðið, auk Vaðlaheiðargangna, og taka gjald af umferð um viðkomandi vegi. Lögin voru samþykkt samhljóða á Alþingi 28. júní 2010 og í framhaldinu hófst undirbúningur að stofnun félaganna og viðræður við lífeyrissjóði um fjármögnun þeirra. Þeim viðræðum var slitið í desember 2010 vegna ósamkomulags um vaxtakjör þótt lítið bæri á milli.

Áform áréttuð vorið 2011
Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí sl. í tengslum við gerð kjarasamninga var vilji stjórnvalda áréttaður. Þar segir m.a.: „Áfram verður unnið að útfærslu tillagna um vegaframkvæmdir á Suðvesturlandi og fjármögnun þeirra og er mikilvægt að samstaða náist um þau áform. Hér er um tugmilljarða framkvæmdir að ræða sem dreifast á nokkur ár, en fyrstu áfangar eru tilbúnir til útboðs. Stjórnvöld munu skipa starfshóp með fulltrúum SA, ASÍ, fjármálaráðuneyti og innanríkisráðuneyti er reyni til þrautar að finna útfærslur sem gera mögulegt að ráðast í umfangsmiklar samgönguframkvæmdir á Suðvesturlandi og eftir atvikum víðar, fjármagnaðar með sérstökum hætti. Niðurstaða verði fengin í þá vinnu fyrir lok maí."

Þegar svo virðist sem að ekkert sé að vanbúnaði til að ganga frá stofnun félaganna, semja við lífeyrissjóði um fjármögnun og hefjast handa, þá kemur ráðherra samgöngumála og telur framgangi málsins allt til foráttu. Þrátt fyrir yfirlýsingar hagsmunaaðila um eindreginn vilja til að þetta þjóðþrifaverkefni geti orðið að veruleika þá situr ráðherrann við sinn keip og verkefnið er stopp.

Það er sannarlega tímabært að hefja umræðu og stefnumótun um framtíðargjaldtöku af umferð. Rafræn innheimta notenda- eða notkunargjalda í gegnum gervihnött er sú framtíðarsýn sem við blasir. Eitt gjald kæmi í stað annarra gjalda, eins og olíugjalda og bensíngjalda. Tæknin er til staðar og innan Evrópusambandsins er t.d. umræða um að innleiða slíka gjaldtöku á þungaumferð, þannig að tekjur af þungaflutningum renni til einstakra landa í samræmi við notkun á vegum í hverju landi. Ísland hefur alla burði til að vera í fararbroddi þessarar þróunar sem m.a. myndi gefa fyrirtækjum í nýsköpun verðug verkefni til úrlausnar.  

Innviðir verði styrktir

Það er ekki einsdæmi að stjórnvöld ákveði að grípa til sérstaks átaks í styrkingu innviða eins og vegaframkvæmda þegar efnahagslífið skreppur saman og störfum fækkar. Þannig háttaði til þegar kreppti að í upphafi 10. áratugar síðustu aldar. Auk þess að skapa ný störf og efla hagvöxt snúast samgönguframkvæmdir um aukið öryggi á vegum. Nægir að nefna stórfellda fækkun alvarlegra slysa á Reykjanesbraut við tvöföldun hennar. Samkvæmt mati Sjóvár hf. árið 2006 var árlegur heildarkostnaður vegna slysa og óhappa á Suðurlandsvgi til Selfoss um 1 milljarður króna. Þar af var kostnaður tryggingafélaga og tjónvalda um 600 m.kr. og samfélagsins um 400 m.kr.

Því verður ekki trúað að ríkisstjórnin ætli ekki að standa við nýlega yfirlýsingu sína um sérstakt átak í vegamálum líkt og unnið hefur verið að undanfarin tvö ár. Þau úrlausnarefni sem greiða þarf úr svo unnt sé að hefjast handa eru smávægileg í samanburði við þá þjóðarhagsmuni sem þetta átak svo sannarlega felur í sér. Í umræðunni undanfarna daga hefur enginn utan ráðherrans mælt gegn framkvæmdinni.

Það væri sæmd fyrir ráðherra samgöngumála að snúa við blaði sínu, horfa á það jákvæða í málinu og hafa forgöngu um að hnýta lausa enda svo unnt verði að hefja framkvæmdir á næstu mánuðum. Það yrði öðrum hvatning til að ganga í hans fótspor, auka fjárfestingu og fjölga störfum, sem þjóðin þarfnast meira en flest annað. Með því má breyta doða í dug.

Fréttablaðið, 9. júlí 2011