Fréttasafn  • Rannis-nýtt

12. júl. 2011

Skattfrádráttur vegna rannsóknar- og þróunarverkefna –umsóknarfrestur til 1. september 2011

 

Opnað hefur verið fyrir umsóknir vegna skattfrádráttar rannsókna- og þróunarverkefna (R&Þ) fyrir árið 2011. Umsóknarfrestur er til 1. september 2011 fyrir R&Þ-kostnað sem fellur til við verkefni sem unnin eru á því ári. Útskýringar á umsóknarferli og öðru því tengdu eru í lögum nr. 152/2009 og handbók vegna skattívilnunar.

Á árinu 2010 sóttu tæp 100 fyrirtæki um skattfrádrátt, en 132 verkefni voru staðfest af Rannís og hefur Ríkisskattstjóra verið tilkynnt um þessa niðurstöðu. Fyrirtæki með R&Þ-verkefni, sem unnin eru á árinu 2011, hafa tækifæri fram til 1. september 2011 að sækja um staðfestingu á  R&Þ-verkefnum, en sótt er um á heimasíðu Rannís.

Talsverðar breytingar voru gerðar á lögunum á árinu 2010 vegna tilmæla ESA og þurfa því þau fyrirtæki sem fengu staðfestingu 2010 að sækja um aftur vegna framhalds- sem og nýrra verkefna er hefjast á árinu 2011.

Hlutverk Rannís er að staðfesta að um R&Þ verkefni sé að ræða en það er endurskoðandi, skoðunarmaður eða viðurkenndur bókari sem staðfestir endanlegan kostnað verkefnisins og sendir greinargerð með skattskýrslu félagsins á þar til gerðu eyðublaði. Eyðublað 4.21

Lágmarkskostnaður, þ.e. frádráttarbær rekstrarkostnaður, við verkefni sem sótt er um skattfrádrátt á er 1 milljón króna en hámark kostnaðar við útreikning er 100 milljónir króna fyrir fyrirtækið í heild. Hámarkið hækkar þó upp í 150 milljónir króna ef um aðkeypta R&Þ í verkefninu er að ræða, sjá nánar í lögum og handbók á vefsíðu Rannís.

Ef verkefni fær staðfestingu sem rannsóknar- og þróunarverkefni á fyrirtækið rétt á frádrætti frá tekjuskatti fyrirtækisins sem nemur allt að 20% af af bókfærðum kostnaði verkefnisins. Ef fyrirtækið greiðir ekki tekjuskatt er frádrátturinn greiddur út. Hámark opinbers stuðnings við verkefni takmarkast svo af reglum EFTA en frekari upplýsingar eru í handbók um skattívilnun á heimasíðu Rannís.

Athugið að hér er um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki að ræða sem allir, sem telja sig vera að vinna að verkefnum sem falla innan ramma laganna, eiga rétt á. Leiða má líkur að því að sprotafyrirtæki falli að öllu jöfnu undir þennan flokk og eru forsvarsmenn þeirra sérstaklega hvattir til að kynna sér vel hvaða stuðningsmöguleikar felast í þessari aðgerð.

Umsóknareyðublaðið er opið og ekkert því til fyrirstöðu að hefja skráningu á umsókn. Þeir sem sóttu um í fyrra eru hvattir til að yfirfara skráningu á upplýsingum um fyrirtækið í nýrri umsókn.