Fréttasafn  • Taekni

14. júl. 2011

Nýjasta tækni og vísindi nauðsynleg atvinnulífinu

Grein eftir Jürgen R. Thumann, forseta BUSINESSEUROPE, samtaka atvinnulífsins í Evrópu, Vilmund Jósefsson, formann Samtaka atvinnulífsins og Helga Magnússon, formann Samtaka iðnaðarins.
 
Alkunna er hversu mikilvægar tæknilegar framfarir eru fyrir hagvöxt. Á sviði vísinda, tækni, verkfræði og stærðfræði hefur í gegnum tíðina orðið til þekking sem skilað hefur mikilli velmegun. Þegar horft er um öxl má benda á fjölmörg dæmi um nýjungar sem nánast  umbyltu daglegu lífi okkar og breyttu viðhorfum  til margvíslegra viðfangsefna. Og eitt er víst, fjölmörg knýjandi verkefni bíða úrlausnar.

 

Dragbítur á hagvöxt
Í nýrri viðhorfskönnun meðal aðildarfélaga BUSINESSEUROPE, samtaka atvinnulífsins í Evrópu, kemur fram með mjög skýrum hætti að skortur á vísinda- og tæknimenntuðu starfsfólki gæti orðið einn helsti dragbítur á hagvöxt í álfunni á komandi árum. Við fyrstu sýn mætti ætla að nokkur framför hefði orðið á þessu sviði þar sem fjöldi háskólanema á vísinda- og tæknibrautum hefur aukist nokkuð í heild. En í raun hefur hlutfall þeirra þó farið lækkandi, eða úr 24,8% þeirra sem útskrifuðust á árinu 1999 niður í  22,7% árið 2005. Á Íslandi vantar atvinnulífið sárlega iðn- og tæknimenntað fólk og útskrifa þarf mun fleiri úr framhaldsskólum sem geta lagt atvinnulífinu lið á fjölmörgum sviðum.

Aldurinn færist yfir
Breyting á aldurssamsetningu þjóða mun að óbreyttu hafa veruleg áhrif á þekkingu á vísindasviðinu. Til að mynda sýna kannanir að óvenju hátt hlutfall eðlisfræðikennara á háskólastigi eru að láta af störfum á næstu árum innan Evrópusambandsins. Í atvinnulífinu liggur ljóst fyrir að mikil þörf verður á að finna vel menntað starfsfólk á sviði vísinda, tækni, verkfræði og stærðfræði til að ganga í störf þeirrar kynslóðar sem núna er smám saman að setjast í helgan stein.

Skortur á tæknimenntuðu fólki
Sú kynlega staða er komin upp í Evrópu að þrátt fyrir að víða sé viðvarandi hátt atvinnuleysi ríkir almennur skortur á tæknimenntuðu starfsfólki. Þetta misræmi á vinnumarkaði má mæla með ýmsum hætti. Til að mynda í Belgíu þar sem skortur á verkfræðingum er slíkur að fyrir tveimur árum voru um 2.500 laus störf á þessu sviði sem ekki tókst að ráða í. Nýleg könnun ráðningarþjónustunnar USG meðal starfsmannastjóra í Evrópu sýnir ennfremur að mikill meirihluti þeirra telur að ástandið eigi enn eftir að versna. Ekki bætir úr skák að fátítt er að vísindamenn sem búa yfir dýrmætri reynslu og þekkingu flytjist til Evrópu frá öðrum heimshornum.

Úr vörn í sókn
Samtök í evrópsku atvinnulífi og aðildarfyrirtæki þeirra hafa nú tekið höndum saman um að finna ráð til að fjölga starfsmönnum með vísinda- og tæknimenntun á evrópskum vinnumarkaði. Evrópusamtök iðnaðarins hafa t.d. nýverið hafið markvisst kynningar- og fræðsluátak á þessu sviði þar sem meðal annars er stuðlað að því að háskólanemar fái góða kynningu á þeim fjölda áhugaverðra starfa sem bíða þeirra í atvinnulífinu eftir útskrift. Þýsku aðildarfélögin að BUSINESSEUROPE, BDI og BDA settu einnig árið 2008 á laggirnar áætlunina  „MINT" þar sem eftirspurn eftir sérhæfðu og vel menntuðu starfsfólki var sett á oddinn. Fengnir voru 3.500 sérstakir „sendiherrar" vísinda- og tæknigeirans sem hafa síðan þá heimsótt þúsundir skóla og átt fræðslufundi með liðlega þremur milljónum námsmanna.

Vonir standa til að auka megi áhuga á vísindum og tækni í grunn- og menntaskólum með auknu fræðslustarfi. En til að svo megi verða, þurfa stjórnvöld, skólakerfið og atvinnulífið að vinna betur saman.


Aukin gæði og forgangsröðun
Atvinnulífið í Evrópu telur að vísinda- og tæknimenntun eigi að setja í forgang í skólakerfinu. Á þetta hefur til að mynda verið bent í Bretlandi þar sem samtök atvinnulífsins þar í landi hafa lagt áherslu á hversu brýnt er að hlúa að vísindamenntun á háskólastiginu.

Stjórnvöld ættu að beina auknum krafti í verkfræði og raunvísindanám, sjá til þess að gæði námsins verði aukin og að leita eftir samráði við atvinnulífið. Það ætti einnig að vera á stefnuskrá stjórnvalda að auðvelda vísindamenntuðu starfsfólki erlendis frá að koma til starfa. Menntaáætlanir á vettvangi Evrópusambandsins og þar með á Evrópska efnahagssvæðinu ættu að styðja þessa stefnumörkun.

Samkeppnishæft atvinnulíf nauðsynlegt
Helstu keppinautar Evrópu hafa augljóslega skipað verkfræði og raunvísindanámi í efsta sæti á aðgerðaáætlunum sínum. Í Bandaríkjunum hafa stjórnvöld úthlutað eitt hundrað milljörðum dala í sérstaka endurreisnaráætlun þar sem bróðurparturinn fer í að styrkja nám, rannsóknir og framþróun á sviði vísinda og tækni. Framlag þjóða eins og Japans og Kóreu til vísindanáms mælt sem hlutfall af þjóðartekjum er einnig miklu mun hærra en meðal Evrópuríkja.

Aukinnar samkeppni gætir á þessu sviði frá löndum sem sækja hratt fram á efnahagssviðinu. Hlutur landa eins og Kína, Brasilíu og Indlands hefur aukist stórlega á undanförnum tuttugu árum. Framþróun þar hefur ekki einungis orðið til vegna þess að auknu fjármagni hefur verið beint í menntun heldur hefur framþróun á sviði vísinda og tækni verið beinlínis meginmarkmið í sjálfu sér.

Bregðumst nú þegar við!
Forystumenn í Evrópu hafa hingað til tekið sér of mikinn tíma til að bregðast við skorti á vísinda- og tæknimenntuðu starfsfólki. Sú skoðun virðist ríkjandi að ástandið í Evrópu sé með ágætum. Þessu fer því miður fjarri. Löngu er kominn tími til að leggjast á árarnar og leita skynsamlegra leiða til að auka verulega framboð á hæfileikaríku og vel menntuðu starfsfólki sem nýtist atvinnulífinu í aukinni alþjóðlegri samkeppni."

Fréttablaðið 14. júlí 2011

 

SA og SI eiga aðild að BUSINESSEUROPE sem eru málsvari yfir 20 milljón fyrirtækja í 35 löndum með um 120 milljón starfsmenn.