Fréttasafn  • Gæðabakstur

25. ágú. 2011

Fagfólk í matvælagreinum ánægt

Matvæla- og veitingasvið IÐUNNAR lét gera könnun, síðastliðið vor, sem hafði að markmiði að meta vinnuumhverfi fagmanna í matvælagreinum. Fyrirtækið MASKÍNA framkvæmdi könnunina sem var hvoru tveggja síma- og netkönnun. Valdir voru af handahófi 190 útskrifaðir iðnsveinar úr hverri af fjórum matvæla­iðn­greinum, bakaraiðn,
framreiðslu, kjötiðn og matreiðslu. Svarhlutfallið í könnuninni var 69,2%.

Niðurstöðurnar sýna, svo ekki verður um villst, að mikill meirihluti svarenda er ánægður bæði með nám og starf í sinni grein og telur sig geta mælt með henni við ungt fólk.

Helstu niðurstöður

Fram kom að 60% hópsins hefur mannaforráð, þrír fjórðu er launþegar og um 17% atvinnurekendur eða sjálfstætt starfandi einyrkjar. Hátt í 38% hópsins hefur lokið iðnmeistaraprófi, ríflega 57% starfar við faggrein sína og 80% segja að námið hafi búið þau vel undir starf í faggreininni. Þeir sem hafa horfið til annarra starfa hafa einkum valið sölustörf. Í framhaldi voru þátttakendur, sem starfa ekki við iðngrein sína í dag, spurðir hvort þeir hefðu áhuga á að hefja störf við hana að nýju. Rúmlega 40% töldu sig hafa áhuga á því. Spurt var um viðhorf til náms og námsvals og töldu 67% hópsins sig myndu mæla með því við ungt fólk að hefja nám í iðngrein sinni. Helstu ástæður fyrir því að mæla ekki með námi í greinunum var að vinnutíminn er ekki talin fjölskylduvænn og launin ekki nægjanlega há.

Starfslýsingar

Spurt var um starfslýsingar og töldu yfir 82% starfslýsingar á vinnustaðnum skýrar en um 31% finnst stjórnendur hafa mikil afskipti af starfi þeirra. Spurðir um þátttöku í símenntun töldu tæp 34% sig hafa sótt námskeið á sl. tveimur árum en 66% hafa ekki sótt námskeið. Helstu ástæður fyrir því að sækja ekki símenntun voru áhugaleysi og tímaleysi, eða í 44% tilvika, en 36% töldu námsframboðið ekki nægjanlega áhugavert eða spennandi.

Símenntun

Í könnunni kom fram að þrír af hverjum fjórum hafa áhuga á því að kynnast nýjungum í faggrein sinni. Um 72% voru ánægð með möguleika sína til að þróast í starfi og telja að stjórnendur skapi svigrúm fyrir starfsþróun en aðeins tæplega 31% er ánægt með framboð á símenntun í faggrein sinni. Þessar niðurstöður gefa tilefni til þess að fara nánar yfir námskeiðaframboð og bæta þar úr. Almennt telja menn að auðvelt sé að fá vinnu í þeirra fagi, en um 78% telja sig geta fengið annað starf með litlum fyrirvara. Um 60% telja starfs­öryggi í greininni vera mjög mikið eða frekar mikið. Almennt er ætlast til að starfsmenn vinni yfirvinnu eða í rúmum 68% tilvika.

Viðhorf til starfs

Spurt var um viðhorf starfsmanna til starfsins og hversu stolt þau eru af starfi sínu sem fagmenn í greinunum. Niðurstöðurnar eru afgerandi en 93% eru stolt af starfi sínu. Hátt í 95% telja sig hafa góð tök á öllum þáttum starfs síns og rúmlega 87% telja sig hafa mikil áhrif á hvernig starfið er unnið. Spurt var um streitu og telja 54% að mikil streita fylgi starfinu. Hátt í 74% segja að upplýsingaflæði frá stjórnendum til starfsmanna sé gott og yfir 74% segja að upplýsingaflæði frá starfsmönnum til stjórnenda sé gott.

Ánægja í starfi

Um 88% svarenda eru ánægðir í núverandi starfi og um 76% telja eftirsóknarvert að vinna á sínum vinnustað. Athugað var sérstaklega hvaða þættir hefðu helst áhrif á starfsánægju en þeir eru a) skapandi og hvetjandi vinnuumhverfi, b) vinsamleg umræða um fyrirtækið á vinnustaðnum, c) ánægja með launakjör og d) ánægja með möguleika á að sækja símenntun í faggreininni. Starfsánægja er almenn séð mikil í greinunum og 68 % telja vinnuumhverfið skapandi, um 83% segja að umræða um fyrirtækið á vinnustaðnum sé vinsamleg og 72% telja að stjórnendur skapi svigrúm til starfsþróunar. Fast að 80% telja sig hafa tækifæri til að taka þátt í vöruþróun og nýjungum í fyrirtækinu og yfir 68% telja vinnuumhverfið skapandi og hvetjandi. Um og yfir 86% eru ánægð með
starfsandann. Yfir 81% eru ánægð með vinnuaðstöðuna annars vegar og með tækjabúnað og verkfæri hins vegar. Þá eru um 86% ánægð með öryggi og aðbúnað og yfir 49% ánægð með launakjör en 23% telja launakjör ekki nógu góð.

Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar nánar í Hótel- og matvælaskólanum miðvikudaginn 21. september frá kl. 15.00 – 16.30.

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Jónsson, sviðsstjóri matvælasviðs IÐUNNAR fræðsluseturs.