Fréttasafn



  • Borgartún 35

31. ágú. 2011

Aðgerðin heppnaðist - en sjúklingurinn lést

Eftir Helga Magnússon, formann SI

Til er sönn eða login saga af færum lækni sem átti að hafa framkvæmt vandasaman uppskurð sem honum þótti takast einkar vel. Að loknu verki átti hann að hafa lýst því yfir að uppskurðurinn hafi heppnast fullkomlega. Bætti svo við: En
sjúklingurinn lést því miður.

Þetta kom mér í hug þegar haft er eftir Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington að efnahagsáætlun sjóðsins og stjórnvalda á Íslandi eftir hrun hafi heppnast: „Markmið með áætluninni hafa náðst og Ísland er á réttri leið út úr
erfiðleikunum.“

Af þessu tilefni boðuðu talsmenn ríkisstjórnarinnar til blaðamannafundar til að útskýra fyrir landsmönnum hvað allt sé hér í góðum gangi. Fundurinn var haldinn í gamla og virðulega leikhúsinu Iðnó og fór vel á því að leikritið væri sviðsett í leikhúsi. Þetta er að vísu slakasta leikverk sem þar hefur farið á fjalir enda handritið ótrúverðugt og leikararnir þreytulegir.

Heppnaðist efnahagsáætlunin? Heppnaðist uppskurðurinn fullkomlega? Lifir sjúklingurinn af? Lítum á nokkur atriði:

  • Atvinnuleysi er enn í hæstu hæðum og ekkert bendir til þess að það lækki umtalsvert á næstunni.
  • Atvinnuleysi er einnig farið að verða varanlegt hjá stórum hópum en ekki einungis tímabundið.
  • Fólk hefur flúið land. Við erum að missa fólk úr mikilvægum stéttum til útlanda. Það hefur óbætanlegt tjón í för með sér.
  • Um 20 þúsund störf hafa tapast.
  • Aukin hætta er á að námsmenn sem halda utan sjái sér ekki hag í að flytjast heim og taka þátt í því að efla þjóðfélagið til framtíðar.
  • Kaupmáttur hefur rýrnað stórlega. Kaupmáttur ráðstöfunartekna fólks hefur fallið um tugi prósenta.
  • Vextir fara hækkandi, m.a. vegna rangrar ákvörðunar Seðlabankans um að hækka vexti. Var það til að slá á þenslu? Hvaða þenslu?
  • Verðbólga er tekin að vaxa á ný. Ekki verðbólga vegna athafna eða þenslu heldur verðbólga vegna skorts á fjárfestingum og hagvexti.
  • Fjárfestingar í landinu á síðasta ári voru í sögulegu lágmarki í 70 ár.
  • Hagvöxt hefur vantað. Vonir stóðu til að með réttum ákvörðunum mætti koma hagvextihratt í 4-5%. En vegna seinagangs og viljaleysis stefnir í allt of lítinn hagvöxt, e.t.v. einungis 1-2% á ári – sem gerir lítið til að vinna á óleystum
    vandamálum. Án öflugs hagvaxtar stefnir hér í áframhaldandi stöðnun og stöðnunarverðbólgu.
  • Allt of hægt gengur að rétta við erfiða skuldastöðu fólks og fyrirtækja. Enn eru þúsundir fyrirtækja án úrlausna á því sviði og tugir þúsunda heimila.
  • Íslendingar búa enn við gjaldeyrishöft. Hvernig ætla menn að losna við þau og setja íslensku krónuna í forgrunn að nýju? Eru einhverjar líkur á því að það takist á næstunni?
  • Gjaldeyrishöftin draga mikinn mátt úr hagkerfinu. Þau valda því einnig að mikilvægir mælikvarðar eru villandi. Gengið er rangt skráð vegna gjaldeyrishaftanna og verðbólgan er raunverulega meiri.
  • Þrátt fyrir ítrekaða samninga við ríkisvaldið um að ryðja úr vegi hindrunum vegna hagvaxtarskapandi framkvæmda á sviði orkunýtingar, stóriðju, annars iðnaðar og samgangna – gengur hvorki né rekur. Mikilvæg mál frestast og eru tafin aftur og aftur. Stöðugleikasáttmáli var gerður fyrir 2 árum sem tók á helstu þáttum. Fæst gekk eftir og ekkert af því sem mestu varðaði um hagvöxt.
  • Ríkisstjórnin hefur valið tímann eftir efnahagshrunið til að fara í stríð um stefnu í sjávarútvegsmálum til framtíðar. Vegna þess er ríkjandi skaðleg óvissa í sjávarútvegi og forsendur þar til framkvæmda, fjárfestinga og ákvarðana eru
    brostnar í bili. Einmitt þegar þjóðin þarf hvað mest á öflugri framþróun í greininni að halda.
  • Landsmenn eru að sligast undan skattpíningarstefnu ríkisstjórnarinnar. Skattar eru komnir í hæstu hæðir, jafnt beinir og óbeinir skattar. Og enn er hótað frekari skattahækkunum.
  • Hin grimma skattastefna dregur máttinn úr atvinnulífinu, fjárfestar hika og erlendir fjárfestar eru hræddir við þann óstöðugleika sem hringl í skattastefnu veldur. Einn og einn ofurhugi lætur samt ekki hugfallast. Almenningur kvartar sáran undan skattpíningunni.
  • Er Icesave ekki enn í uppnámi?

Sitthvað fleira mætti nefna. En telji Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þetta góðan árangur, þá er alveg óhætt að spyrja spurninga um dómgreind manna þar á bæ! En sé samstarfinu við þá að ljúka, ber að fagna því enda hefur það ekki verið til ánægju fyrir Íslendinga.

Er nú ekki kominn tími til að hætta að framfylgja rangri efnahagsstefnu á Íslandi? Er ekki rétt að hefja hér uppbyggingu af fullum krafti, ryðja hindrunum úr vegi og taka höndum saman um öfluga hagvaxtarstefnu sem gæti skilað okkur upp úr hjólförunum á skömmum tíma? Hagvöxtur er undirstaða þess velferðarsamfélags sem við viljum standa fyrir hér á landi. Án hagvaxtar verður velferðarstefnan innstæðulaus.

Þrátt fyrir allt sem hefur verið gert rangt á síðustu 3 árum ganga sumar atvinnugreinar vel – og eru að bjarga því sem bjargað verður. Með réttri efnahagsstefnu gætu allar atvinnugreinar gengið vel og þá þyrftum við ekki að una við atvinnuleysi, minnkandi kaupmátt og hnignandi samfélag.

Við þurfum sem allra fyrst að svara því hvernig þjóðfélagsgerð við viljum hafa á Íslandi til framtíðar. Í meginatriðum er um tvær leiðir að velja:

Önnur er hagvaxtarleiðin sem leggur grunn að góðum kjörum fólks og fyrirtækja og getur staðið undir öflugu velferðar- mennta- og menningarsamfélagi.

Hin leiðin liggur áfram niður – til fátæktar og vonleysis.

„Náttúran njóti vafans“, sagði dæmdi ráðherrann. Er ekki komið að því að íslenska þjóðin njóti vafans?

Morgunblaðið 30. ágúst 2011