Fréttasafn  • Borgartún 35

9. sep. 2011

Þversagnir á íslenskum vinnumarkaði

Einkennileg staða er uppi á íslenskum vinnumarkaði. Atvinnuleysi er enn afar hátt í sögulegu samhengi en horfur eru á að smávægilegur hagvöxtur komi fram á þessu ári eftir djúpa kreppu síðustu ára. En þrátt fyrir hátt atvinnuleysi kvarta fyrirtæki í öllum greinum iðnaðarins undan skorti á hæfu starfsfólki. Jafnvel í þeim greinum sem kreppan lék hvað harðast, s.s. byggingariðnað, er erfitt að manna stöður. Þetta á ekki síst við störf ófaglærðs fólks í mörgum greinum en er líka áberandi í tæknigeiranum. Óhætt er að fullyrða að nú þegar nokkur viðsnúningur er vonandi að verða í efnahagslífinu sé þessi skortur að halda aftur af vexti margra greina.

Þessar aðstæður á vinnumarkaði kunna að virðast í mótsögn, þ.e. hátt atvinnuleysi og skortur á starfsfólki, en fyrir þessu eru nokkrar augljósar ástæður. Samkvæmt nýjum útreikningum Samtaka atvinnulífsins hefur kaupmáttur lágmarksbóta almannatrygginga hækkað 50% meira en kaupmáttur almennra launa. Atvinnuleysisbætur hafa hækkað 20% umfram laun á einum áratug og kaupmáttur lágmarkslauna hefur hækkað um 12,7% umfram launavísitölu. Því verður seint haldið fram að fólk sé ofhaldið af bótum eða lægstu launum. Hins vegar má fullyrða að núverandi kerfi og þróun bóta sé vel til þess fallin að letja fólk til vinnu og þar með halda aftur af vexti íslensks atvinnulífs.

Önnur skýring liggur í stóraukinni skattheimtu sem veldur því að í vissum greinum er svört atvinnustarfsemi  útbreidd. Háir skattar og tiltölulega auðvelt aðgengi að bótakerfi skapar hvata til að vinna ekki heiðvirða vinnu. Um leið leggjast auknar byrðar á skattgreiðendur í landinu.

Í upphafi kreppunnar jókst atvinnuleysi hratt og vinnufúsar hendur sátu aðgerðalausar. En þróun síðustu ára bendir til að  vinnufúsum höndum hafi fækkað án þess að atvinnuleysi hafi minnkað að sama skapi. Samkeppnisstaða
vinnandi fólks hefur versnað mjög gagnvart þeim sem byggja afkomu sína á bótum eða svartri vinnu.

Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI