Fréttasafn  • Stefnumót menntasvið 2011

20. sep. 2011

Stefnumót og upplýsingafundur um tækifæri til nýsköpunar á menntasviði

Stefnumót og upplýsingafundur um tækifæri til nýsköpunar á menntasviði var haldinn á Grand hóteli í gær.

Markmið fundarins var að kynna nýja markáætlun Tækniþróunarsjóðs um klasasamstarf á menntasviði, gefa fyrirtækjum kost á því að koma á framfæri hugmyndum að fjölbreyttum lausnum á menntasviði og gefa menntastofnunum tækifæri á því að kynna þarfir fyrir nýsköpun á menntasviði.

Orri Hauksson, framkvæmdastjóri SI hóf fundinn með ávarpi þar sem hann fjallaði um m.a. um mikilvægi þess að leiða saman menntakerfi og atvinnulíf til að mæta þörfum atvinnulífsins fyrir starfsfólk með ákveðna menntun og hæfni.  

Katrín D. Þorsteinsdóttir, forstöðumanns hugverkaiðnaðar og mannauðs SI sagði hvernig hugmyndin um menntaklasann hefur þróast og frá fjármögnun af iðnaðarmálagjaldinu sem veitt hefur verið til verkefnisins í gegnum Tækniþróunarsjóð. Katrín sagði uppbyggingu menntaklasa á Íslandi með nýjum áherslum vera spennandi tækifæri til að auka gæði menntunar og tryggja framboð þeirrar þekkingar sem atvinnulífið þarfnast og muni renna stoðum undir
hagvöxt á Íslandi. „Markmiðið er að þessi samvinna stuðli að þróun á „betri lausnum fyrir minna fé“.     

Ólafur Andri Ragnarsson, hönnunarstjóri Betware og aðjúnkt HR fjallaði um hvernig leikjamenning hefur þróast í heiminum. Hinn stafræni netheimur er hluti af uppvextinum og netkynslóðin sækir í skemmtun og spil í námi, leik og starfi. Tækifæri fyrir fyrirtæki og menntastofnanir til nýsköpunar felist í að nýta leikjahugmyndfræðina á öllum þessum sviðum.

Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Mentors gerði grein fyrir samstarfi Mentors við skóla og sveitarfélög hér heima og erlendis. Hún lagði mikla áherslu á sameiginlega framtíðarsýn og skýra verkefnastjórnun. Vilborg telur tækifærin liggja í lausnum sem uppfylla þarfir, fjármagni sem er nýtt betur, stöðugri endurgjöf og betri vöru. 

Ari K. Jónsson, rektor HR fjallaði um þá sýn sem hann hefur á menntaklasa á Íslandi og þá lykilþætti sem hugmyndfræði klasa byggir á. Lagði hann fram hugmynd að því hvernig atvinnulífið ætti að vera virkur þátttakandi í menntaklasa sem hefði það hlutverk að móta heildstæða stefnu menntakerfisins til framtíðar.

Hilmar V. Pétursson, framkvæmdastjóri CCP fjallaði um samspil þarfa atvinnulífs og skóla. Hilmar er þeirrar skoðunar að einn helsti galli á menntastefnu sé skortur á fókus á ákveðnar greinar. Hann telur að stjórnvöld eigi að ákveða hvaða greinar beri að leggja áherslu á og byggja upp gæðanám í þeim í stað þess að reyna að gera öllum greinum jafn hátt undir höfði. Afleiðingin sé meðalmennska á öllum sviðum.    

Níu fyrirtæki kynntu annars vegar lausnir sem þau hafa upp á að bjóða og hins vegar þarfir. Það voru: 

Sólfríður Guðmundsdóttir, Heilsuheilræði

Björgvin Filippusson, Kompás

Rakel Sölvadóttir, Skema

Valgeir Guðjónsson, Nemanet

Hildur Elín Vignir, IÐAN

Hákon Gunnarsson, Íslenski jarðvarmaklasinn

Björn Þór Jónsson, HR

Karl S. Guðmundsson, Keilir

Vaka Óttarsdóttir, Mentor

Að loknum kynningum  var þátttakendum gefin kostur á að beina spurningum til fyrirlesara.

Davíð Lúðvíksson forstöðumaður stefnumótunar og nýsköpunar SI  útskýrði nánar hvernig SI gæti aðstoðað menntastofnanir með skilgreindar þarfir og fyrirtæki með lausnir við að finna samstarfsaðila og sleit fundi.

Fundarstjóri var Hellen Gunnarsdóttir mennta- og menningarmálaráðuneyti.

EYÐUBLAÐ FYRIR VERKEFNI