Fréttasafn



  • svort-vinna

17. okt. 2011

12% í svartri vinnu

Af 6.176 kennitölum starfsmanna á 2.136 vinnustöðum, sem starfsmenn átaks ríkisskattstjóra, ASÍ og SA heimsóttu, reyndust 737 þeirra, eða 12%, ekki vera á staðgreiðsluskrá, þ.e. stunda svarta vinnu. Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.

Hjá meira en helmingi rekstraraðila varð vart frávika frá réttri framkvæmd og þurfti að gefa um fjórðungi þeirra leiðbeinandi tilmæli um tekjuskráningu.

Markmið átaksins, sem ber yfirskriftina „Leggur þú þitt af mörkum?“, var m.a. að hvetja aðila vinnumarkaðarins til að standa rétt að skattskilum en átakið er einnig til umfjöllunar í leiðara nýrrar Tíundar, fréttablaðs ríkisskattstjóra.

Í umfjöllun Morgunblaðsins í dag segir Jóhann G. Ásgrímsson, verkefnisstjóri átaksins, það koma á óvart hversu lítið þeir aðilar sem fengu tilmæli skiluðu sér inn. Mörg brotin hafi verið gróf og nefnir Jóhann dæmi um fyrirtæki þar sem engar tekjur voru færðar til bókar og annað það sem sjö manns voru í vinnu en enginn þeirra á staðgreiðsluskrá. Einnig voru dæmi um að menn urðu uppvísir af því að þiggja atvinnuleysisbætur þrátt fyrir að vera í vinnu. Jóhann segir að embætti ríkisskattstjóra skorti úrræði við eftirlit og að töpuð gjöld vegna svartrar vinnu einnar séu yfir tíu milljarðar króna á ársgrundvelli. Hann leggur ekki til að gripið verið til grófra úrræða heldur að verði áminningum og sektum beitt og starfsemi jafnvel lokað fari menn ekki að leikreglum.   

Samtök iðnaðarins hafa lengi barist gegn svartri vinnu. Sumarið 2009 hleyptu samtökin af stokkunum nýrri auglýsingaherferð með slagorðinu Stendur þú skil á þínu? Tilgangur herferðarinnar er að sporna gegn svartri atvinnustarfsemi og vekja fólk til umhugsunar um að skattsvik af þessu tagi kosta samfélagið tugi milljarða árlega. SI beina því sérstaklega til félagsmanna sinna að fara að lögum og reglum í sínum rekstri. Þá er einnig hægt að ætlast til þess af öðrum.