Fréttasafn



  • Alcoa_starfsmenn_kerskala2_nov08_HreinnM

18. okt. 2011

Ekkert álver á Bakka – Enn einn erlendi fjárfestirinn hverfur frá

Alcoa tilkynnti í gær að hætt hefði verið við byggingu álvers á Bakka við Húsavík. Þar með hverfur enn einn erlendi fjárfestirinn frá fjárfestingum á Íslandi, þrátt fyrir að hafa varið mörgum árum og á annan milljarð í undirbúning.

Erlend fjárfesting hefur verið í lágmarki frá bankahruni og svo virðist sem mikilllar tortryggni gæti  gagnvart erlendum aðilum sem hafa áhuga á að fjárfesta hér á landi. Viðhorf stjórnvalda til erlendra fjárfesta er neikvætt auk þess sem hömlur eru óvíða meiri. Óhætt er að segja að Ísland komi illa út á alþjóðlegan mælikvarða en af 142 ríkjum erum við í fjórða neðsta sæti hjá IMD þegar kemur að áhrifum laga um erlenda fjárfestingu á atvinnulífið. Pólitísk afskipti eru mikil og það virðist sem komin sé upp sú staða að erlend fjárfesting eigi sér litla von nema viðkomandi verkefni sé stjórnvöldum þóknanlegt. 

Af öðrum dæmum um erlendar fjárfestingar sem lent hafa í miklum hremmingum hér á undanförnum misserum vegna afstöðu stjórnvalda má nefna Magmamálið, áform um einkasjúkrahús á Suðurnesjum og í Mosfellsbæ sem og nýleg áform um uppbyggingu ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum. Ekki má heldur gleyma langri þrautargöngu gagnavers Verne Holding.

Í fréttatilkynningu frá Alcoa segir að hætt sé við áform um byggingu álvers á Bakka vegna þess að ljóst sé að ekki muni fást nægileg orka á samkeppnishæfu verði til álversins. Þar segir jafnframt að Alcoa standi í dag frammi fyrir allt öðrum veruleika en fyrir sex árum þegar fyrirtækið hóf vinnu við verkefnið í samstarfi við stjórnvöld, sveitafélög nyrðra og orkufyrirtæki. 

„Í dag telur Landsvirkjun sig einungis geta tryggt Alcoa helming þeirrar orku sem Alcoa, Landsvirkjun og stjórnvöld gengu útfrá í upphafi að fengist til verkefnisins. Auk þess er afhendingartími þeirrar orku sem Alcoa býðst of langur til að af fjárfestingu af þessari stærðargráðu geti orðið.

Eftir viðræður við stjórnendur Landsvirkjunar og fulltrúa stjórnvalda hefur Alcoa komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé lengur unnt að réttlæta fjárfestingu af þeirri stærðargráðu sem bygging og rekstur álvers á Bakka er.

Alcoa hóf þátttöku í verkefninu með undirritun viljayfirlýsingar við ríkisstjórnina og Norðurþing á fyrri hluta árs 2005. Viljayfirlýsingar við Landsvirkjun/Þeistareyki og Landsnet voru gerðar í kjölfarið.

Viljayfirlýsingin við Landsvirkjun rann út árið 2008 og ári síðar viljayfirlýsing Alcoa, Norðurþings og stjórnvalda. Beiðni Alcoa um framlengingu hennar var hafnað af ríkisstjórninni. 

Alcoa ákvað þrátt fyrir það að halda áfram vinnu við sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum fyrir álver, orkuver og raflínur á svæðinu. Matsferlinu lauk í nóvember 2010.

Um leið og Alcoa lýsir vonbrigðum yfir því að þær forsendur, sem lagt var upp með í verkefninu árið 2005, séu brostnar þakkar fyrirtækið Norðlendingum af heilum hug samstarfið og stuðninginn við verkefnið."