Fréttasafn  • Fjoreggid2011

18. okt. 2011

Myllan hlýtur Fjöreggið á Matvæladegi MNÍ 2011

Fjölmenni er á Matvæladegi MNÍ sem haldinn er í dag. Umfjöllunarefni ráðstefnunnar er heilsutengd matvæli og markfæði. Fjölmargir félagsmenn SI halda þar erindi um íslenska vöruþróun, framleiðslu, rannsóknir og markaðssetningu á vörum sem taldar eru hafa góð áhrif á heilsu manna.

Í upphafi ráðstefnunnar afhenti Orri Hauksson, framkvæmdastjóri SI og formaður dómnefndar, Pétri Smára Sigurgeirssyni og Iðunni Geirsdóttur frá Myllunni Fjöregg MNÍ.

Fjöreggið er verðlaunagripur, hannaður af Gleri í Bergvís og er veittur er á hverjum matvæladegi fyrir lofsvert framtak á sviði matvæla eða næringar. SI hafa gefið gripinn frá upphafi.  

Í dómnefndinni sátu, auk Orra, Gunnþórunn Einarsdóttir, matvælafræðingur hjá Matís, Ólafur Sæmundsson, næringarfræðingur hjá Háskólanum í Reykjavík og Áslaug Guðrúnardóttir, fréttamaður á Ríkisútvarpinu.  

Fimm tilnefningar fengu sérstaka umfjöllun af því að þær þóttu skara fram úr fjölda ábendinga sem barst til keppninnar. 

Myllan var tilnefnd fyrir framleiðslu og markaðssetningu á trefjaríkum samlokubrauðum. Trefjaneysla á Íslandi er mun minni en ráðlagt er en brauð er meðal bestu trefjagjafa sem völ er á.

Niðurstaða dómnefndar var sú að Myllan væri verðugur handhafi Fjöreggsins í ár. Myllan hefur unnið markvisst að því að auka framboð trefjaríkra brauða á markaði hérlendis og veitt gott innlegg í neikvæða umræðu um brauð. Þá er Myllan með virka og framsækna heilsustefnu sem felst m.a. í því að draga úr notkun á salti, sykri og mettaðri fitu í afurðir fyrirtækisins.

Samtök iðnaðarins óska Myllunni hjartanlega til hamingju með viðurkenninguna. 

Aðrir tilnefndir:

Biobú ehf. var tilnefnt fyrir brautryðjendastarf við framleiðslu og markaðssetningu á lífrænum mjólkurvörum. Fyrirtækið framleiðir nú 16 mismunandi vörutegundir sem eru kærkominn valkostur fyrir þá neytendur sem kjósa lífrænar vörur en höfða einnig til breiðari hóps.

Mjólkursamsalan var tilnefnd fyrir Hleðslu sem er ný íslensk drykkjarvara með háu próteininnihaldi.  Grunnurinn að drykknum er skyr en til að auka próteinmagnið eru notuð mysuprótein,  unnin úr ostamysu sem áður var hellt niður. Framleiðslan dregur því verulega úr álagi á umhverfið og dregur úr kostnaði við förgun á úrgangi.  

Icelandic Glacial rekur vatnsverksmiðju í Þorlákshöfn sem er grunnur að metnaðarfullu útflutningsverkefni á íslensku vatni. Markaðssetning hefur tekist mjög vel á markaði þar sem samkeppni ríkir er hörð. Vatnið frá Icelandic Glacial hefur hlotið fjölda viðurkenninga á erlendum mörkuðum.

Þrúður Gunnarsdóttir, sálfræðingur var tilnefnd fyrir rannsókn á fjölskyldumeðferð fyrir of feit börn í doktorsverkefni sínu og í framhaldi af henni að koma slíkri meðferð á fót hjá Landspítala Háskólasjúkrahúsi.