Allar fjármögnunarleigur virði niðurstöðu Hæstaréttar - Leitað álits Fjármálaeftirlitsins
Í gær kvað Hæstiréttur upp þann dóm í máli Íslandsbanka hf. gegn þrotabúi Kraftvélaleigunnar ehf. (AB 258 ehf.) að fjármögnunarleigusamningur væri í raun lánssamningur. Segir m.a. í dómsniðurstöðunni að þó að samningurinn væri nefndur fjármögnunarleigusamningur væri það heiti nafnið tómt. Gengistrygging samningsins hafði því verið í andstöðu við ákvæði vaxtalaga, sbr. fyrri dóma réttarins frá 16. júní 2010.
Dómur Hæstaréttar er skýr og afdráttarlaus. Það vekur því furðu að Lýsing hefur í kjölfar dómsins sent frá sér yfirlýsingu um að niðurstaða hans hafi ekki fordæmisgildi gagnvart fyrirtækinu þar sem samningur Íslandsbanka sé í veigamiklum atriðum frábrugðinn fjármögnunarleigusamningum Lýsingar. Ekki er að finna í umræddri yfirlýsingu skýringar á því að hvaða leyti samningarnir eru frábrugðnir samningi Íslandsbanka.
Rétt þykir að nefna hér sérstaklega að Lýsing lýsti kröfu vegna nokkurs fjölda fjármögnunarleigusamninga í þrotabú AB 258 ehf. Það vekur því óneitanlega athygli að Lýsing lét ekki reyna á lögmæti sinna krafna gagnvart þrotabúinu, samhliða kröfum Íslandsbanka hf., fyrir dómstólum. Krefjast SI skýringa á þessu.
SI krefjast þess einnig að Lýsing virði afdráttarlausa niðurstöðu Hæstaréttar og hefjist nú þegar handa við að endurreikna fjármögnunarleigusamninga í samræmi við dóm réttarins. Ennfremur hafa Samtökin hvatt félagsmenn sína sem eru í viðskiptum við Lýsingu vegna fjármögnunarleigusamninga að haga greiðslum sínum til fyrirtækisins í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar.
Loks munu SI leita álits Fjármálaeftirlitsins á afstöðu Lýsingar til dóms Hæstaréttar.