Fréttasafn



  • Borgartún 35

21. nóv. 2011

Lýst er eftir tilnefningum til heiðursverðlauna fyrir tækninýjungar eða framlag til nýsköpunar

Verkfræðingafélag Íslands verður 100 ára á komandi ári. Af því tilefni hefur stjórn félagsins ákveðið að veita viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur við tæknilegar uppfinningar eða nýsköpunarverkefni, sem hafa haft þjóðhagslegt eða alþjóðlegt mikilvægi og byggja á þekkingu í raunvísindum og tækni. Gert er ráð fyrir að einstaklingar eða hópar geti hlotið viðurkenningu og að 5-10 aðilar geti fengið slíka viðurkenningu eftir atvikum. Bæði verkfræðingar og raunvísindamenntaðir geta komið til álita og eru verðlaunin ekki bundin við félagsmenn VFÍ.

Verðlaunin sem eru heiðursmerki í tilefni aldarafmælisins verða afhent á afmælishátíð VFÍ í Hörpunni þann 19. apríl, 2012.

Hér með er leitað tilnefninga/ábendinga um einstaklinga eða hópa sem telja má verðuga slíkrar viðurkenningar.

Eftirfarandi eru þau viðmið sem stjórn VFÍ leggur til grundavallar mati á framlagi: 

Viðurkenningin er veitt verkfræði- eða raunvísindamenntuðum einstaklingum eða hópi fyrir framúrskarandi framlag til tæknilegrar nýsköpunar á Íslandi á síðari hluta 20. aldar eða byrjun 21. aldar sem auðgað hefur atvinnulíf eða bætt lífskjör með eftirtektarverðum hætti og/eða vakið alþjóðlega athygli.

Áhrifin þurf að vera merkjanleg og metanleg. 

Framlagið getur m.a. verið í formi:

  • Einstaks fræðilegs framlags á sviði verkfræði og/eða raunvísinda er í alþjóðlegu samhengi hefur leitt af sér tækninýjungar og framfarir í framleiðslu og atvinnuháttum og/eða bættri þjónustu til hagsbóta fyrir almenning. 
  • Nýrra tæknilegra lausna byggðar á fyrirliggjandi þekkingu í verkfræði og/eða raunvísindum sem breytt hafa framleiðsluferlum og aukið hagkvæmni og verðmætasköpun og útflutning í íslenskum atvinnuvegum eða haft alþjóðleg áhrif.
  • Tæknilegra uppfinninga, tækninýjunga eða stórstígra framfara í þróun vörunýjunga sem leitt hafa til stofnunar fyrirtækja eða umtalverðrar nýrrar framleiðslu hér á landi eða alþjóðlega.
  • Innleiðingar og útbreiðslu vísinda-/tækniþekkingar og aðlögun að íslenskum aðstæðum og þannig aukið framleiðni, gæði og bætt samkeppnishæfni atvinnuvega og lífskjör í landinu.
  • Persónulegs framlags og forystu um samstarf milli tækni- og raunvísindamenntaðra sérfræðinga er leitt hefur til verulegra framfara mælt í hagkvæmni, nýrri eða aukinni framleiðslu eða bættri þjónustu fyrir atvinnulíf og/eða almenning í landinu.

Óskað er eftir rökstuddum tilnefningum er sendist með pósti á skrifstofu VFÍ, Engjateig 9, 105 Rvk eða með tölvupósti á netfangið skrifstofa@verktækni.is