Fréttasafn  • Borgartún 35

24. nóv. 2011

Samtök iðnaðarins gagnrýna áform um kolefnisskatt

Ályktun frá Samtökum iðnaðarins

Samtök iðnaðarins gagnrýna harðlega áform stjórnvalda um að leggja á kolefnisskatt. Kolefnisskattur af þessu tagi, sem á sér enga hliðstæðu í nágrannalöndum okkar, skerðir verulega samkeppnishæfni íslensks iðnaðar.

Líkur á frekari uppbyggingu iðnaðar á Íslandi sem háður er notkun kolefna minnkar stórkostlega sem og geta okkar til að nýta umhverfisvænar orkuauðlindir okkar.

Fjárfestingaáform margra fyrirtækja eru sett í uppnám og tilverugrunni starfandi fyrirtækja er ógnað. Í húfi eru þúsundir starfa um allt land.

Kolefnisskattur brýtur gróflega í bága við fjárfestingasamninga margra fyrirtækja og verði af áformunum eru miklar líkur á að stjórnvöld séu bótaskyld. Komi til slíkra málaferla dregur það enn frekar undan trúverðugleika íslenskra stjórnvalda.

Kolefnisskattur á íslensk fyrirtæki mun tæpast draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Starfsemin flyst einfaldlega úr landi og veldur jafnvel enn meiri útblæstri þar sem óendurnýjanlegir orkugjafar eru nýttir.

Kolefnisskattur grefur undan ETS-viðskiptakerfinu um útblástursheimildir sem ætlað er að draga úr losun án þess að grafa undan samkeppnishæfni iðnaðarins.

Samtök iðnaðarins hvetja íslensk stjórnvöld til að draga áform um kolefnisskatt til baka hið fyrsta til að lágmarka það tjón sem þegar er orðið.

Samþykkt á stjórnarfundi SI
Reykjavík 24. nóvember