Fréttasafn



  • SSP-logo

9. des. 2011

Aðalfundur Samtaka sprotafyrirtækja sendir frá sér ályktun

Aðalfundur Samtaka sprotafyrirtækja var haldinn í morgun.

Formaður samtakanna Svana Helen Björnsdóttir, forstjóri Stika ehf. var endurkjörin formaður, en nýir fulltrúar í stjórn voru kjörin Rakel Sölvadóttir hjá Skema ehf. og Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson hjá Clara ehf. Íris Kristín Andrésdóttir, Gogogic ehf. og Gunnlaugur Hjartarson, Iceconsult, voru endurkjörin í stjórn og Jón Ágúst Þorsteinsson, Marorku ehf og Perla Björk Egilsdóttir, Saga Medica ehf, endurkjörin í  varastjórn.

Markmið SSP er að vinna að hagsmuna- og stefnumálum sprotafyrirtækja og taka virkan þátt í að móta stefnu markvissrar þróunar hátækniiðnaðar á Íslandi.

Fyrirtæki innan SSP eru góður þverskurður tæknifyrirtækja úr ólíkum starfsgreinum, s.s. upplýsingatækni, leikjaiðnaði, líftækni, orku- og umhverfis­tækni, heilbrigðisiðnaði/tækni, véltækni og byggingartækni.

Á fundinum var samþykkt meðfylgjandi ályktun:

Ályktun aðalfundar Samtaka sprotafyrirtækja 9. desember 2011

Aðalfundur Samtaka sprotafyrirtækja sendir frá sér eftirfarandi ályktun.

1.     Endurgreiðsla 20% af rannsókna- og þróunarkostnaði nýsköpunarverkefna skiptir miklu máli fyrir íslensk sprotafyrirtæki. SSP lýsir yfir mikilli ánægju með þennan stuðning sem íslenska ríkið veitir sprotafyrirtækjum og nýsköpun á Íslandi. Fullyrða má að þessi stuðningur mun hafa góð áhrif á þróunarstarf og áframhaldandi vöxt fyrirtækjanna hér á landi og spornar við brotthvarfi fólks og fyrirtækja frá landinu.

2.     SSP álykta einnig um nauðsyn þess að ríkisstjórnin standi við yfirlýsingu sína vegna kjarasamninga í maí þar sem gefin voru loforð um að efna til klasasamstarfs og að efla samkeppnissjóði á sviði menntamála, heilbrigðis- og velferðarmála og orku- og umhverfismála á grundvelli útfærðra hugmynda Samtaka iðnaðarins og gera Tækniþróunarsjóði kleift að aðstoða fyrirtæki á sviði hugbúnaðar og hátækni til að auka útflutning á næstu þremur árum.

3.     SSP ítreka einnig mikilvægi þess að Tækniþróunarsjóður verði efldur í 4 milljarða í samræmi við tillögu í atvinnumálanefnd ríkisstjórnarinnar.

Greinargerð:

1.     Eitt helsta baráttumál SSP – lög um endurgreiðslu hluta rannsókna- og þróunarkostnaðar komu í fyrsta sinn til framkvæmdar á s.l. ári. Alls voru endurgreiddar um 450 milljónir króna til fyrirtækja seint á árinu 2011. Þetta er eitt markverðasta framlag til starfsskilyrða hátækni- og sprotafyrirtækja sem fram hefur komið í seinni tíð og ástæða til að draga sérstaklega fram í dagsljósið sem fagnaðarefni, þrátt fyrir að langan tíma hafi tekið að koma þessu fyrirkomulagi á og ýmsa byrjunarörðugleika í því sambandi.  

Framundan er að vinna að því að koma á skattaívilnun vegna hlutabréfakaupa, sem felld var út úr lögunum á árinu 2010, vegna athugasemda frá ESA.

2.     Samtök iðnaðarins og Hátækni- og sprotavettvangur efndu í nóvember 2010 til fundar í tengslum við Ár nýsköpunar þar sem fjárlögin voru rýnd með augum nýsköpunar. Þátttakendur, þar á meðal fimm ráðherrar, voru almennt sammála um að á tímum samdráttar verði að finna nýjar leiðir til að halda uppi þjónustu og helst bæta hana fyrir minna fé en áður. 

Í framhaldi af þessum fundi var skilgreind sérstök þriggja ára markáætlun í tengslum við Tækniþróunarsjóð með það að markmiði „að skapa betri og hagkvæmari lausnir til að uppfylla þarfir á þessum sviðum og skapa um leið tækifæri til þróunar á lausnum sem eiga erindi á alþjóðlegan markað“.

Fyrir liggur fjármögnun verkefnisins frá hendi iðnaðarins á fyrsta ári og vilyrði ríkisstjórnar í tengslum við kjarasamninga um framhaldsfjármögnun fyrir árin 2012 og 2013. Samkomulagið felur í sér að 150 m.kr. á ári er veitt í sérstaka þriggja ára markáætlun hjá Tækniþróunarsjóði til að virkja samstarf á heilbrigðissviði, menntasviði og orkusviði, m.a í formi klasa. Þessir fjármunir mynda 25% heildarumsvifa verkefna en 75% koma frá fyrirtækjum og samstarfsstofnunum þeirra. 

Haldin voru stefnumót og fundir til að skapa aðstæður fyrir fyrirtæki og stofnanir að ná saman um verkefni. Þessir fundir skiluðu góðum árangri og á fyrsta umsóknarfresti sem var 1. nóvember sl. bárust alls 21 umsókn sem lagðar verða fram til mats á næstunni. Þessar umsóknir skiptast þannig að 9 voru á heilbrigðissviði, 6 á menntasviði og 6 á orku- og umhverfissviði.

Núna er þessi þriggja ára áætlun í uppnámi því ríkisstjórnin hefur ekki staðið við yfirlýsingu sína um að tryggja áframhaldandi framlög til þessa verkefnis á fjárlögum áranna 2012 og 2013. Þetta eru mikil vonbrigði, ekki síst þar sem nettóáhrif á greiðslustöðu ríkissjóðs eru í raun jákvæð strax frá árinu 2011 þar sem fyrirtækin leggja mun meira fram og skila launaskatti af þeim útgjöldum löngu áður en til útgreiðslu kemur úr ríkissjóði. 

Það má í raun furða sig á þeirri forgangsröðun í fjárlagagerð að styðja ekki verkefnið þar sem fyrsta árið er án útgjalda fyrir ríkissjóð auk þess sem útgreiðslur úr ríkissjóði verða fyrst á árinu 2013, en þá verður ríkissjóður búinn að hafa launaskattstekjur af verkefninu um tveggja ára skeið. Auk þessa miða verkefnin að betri lausnum og þjónustu í starfsemi hins opinbera fyrir minna fé og sparnaði í ríkisútgjöldum til lengri tíma og í framhaldi af því útflutningi með tilheyrandi gjaldeyrisöflun.

Þrátt fyrir vonbrigðin með fjárlögin 2012 vilja samtökin enn sýna þolinmæði og leita leiða til að tryggja framhald verkefnisins í samstarfi við ríkisstjórnina.

3.     Annað verkefni, sem einnig hefur orðið útundan við afgreiðslu fjárlaga, er efling Tækniþróunarsjóðs. Mikilvægi Tækniþróunarsjóðs við uppbyggingu hátækniiðnaðar á Íslandi hefur aldrei verið meira en eftir hrun fjármálakerfisins. Brýna nauðsyn ber til að efla verðmætasköpun og skapa ný störf eins hratt og hægt er. Þar getur Tækniþróunarsjóður gegnt lykilhlutverki. 

Það er ljóst að stjórnvöld hafa ætlað Tækniþróunarsjóði aukið vægi á undanförnum árum og nýjum greinum, t.d. í skapandi iðnaði, hönnun og ferðaþjónustu hefur verið beint í hann. Þá hefur sjóðnum verið ætlað aukið hlutverk í stuðningi við uppbyggingarstarf fyrirtækjanna, m.a. í formi nýrra styrktegunda á borð við frumherjastyrki, brúarstyrki og öndvegisstyrki. Vandinn er hins vegar sá að þessu aukna hlutverki og nýju áherslum hefur ekki fylgt fjármagn í neinu samræmi við aukinn umsóknaþunga.

Þrátt fyrir að efling Tækniþróunarsjóðs hafi ítrekað verið lögð fram sem forgangsmál m.a. á Hátækni- og sprotaþingum á árabilinu 2005-2011 og að þetta verkefni hafi hlotið hæstan forgang í Atvinnumálanefnd ríkisstjórnarinnar sem starfaði á árinu 2011, hefur ekkert miðað í að tryggja sjóðnum aukin framlög á fjárlögum. Aðeins er um 5 milljóna króna aukningu að ræða á fjárlögum 2012 sem engan veginn heldur í við verðlag hvað þá að fela í sér einhverja eflingu.