Fréttasafn



  • salt

20. jan. 2012

Iðnaðarsalt veldur ekki heilsutjóni fremur en matarsalt

Matvælastofnun hefur látið rannsaka innihald iðnaðarsalts og hefur sú rannsókn leitt í ljós að saltið uppfyllir allar kröfur sem eru gerðar til matarsalts og því ekkert tilefni til að ætla að það hafi önnur áhrif á öryggi matvæla eða heilsu manna en venjulegt matarsalt. Yfirlýsingu Matvælastofnunar má lesa hér. 
 
Það breytir ekki þeirri staðreynd að saltið er ekki ætlað til notkunar í matvæli og framleiðendur þess ábyrgjast það ekki sem slíkt. Salt, sem er ætlað til matvælaframleiðslu, er framleitt samkvæmt stöðlum um matvælaframleiðslu. Mikilvægt er að innflytjendur, dreifingaraðilar og framleiðendur gangi úr skugga um að öllum aðföngum til matvælaframleiðslu fylgi upplýsingablöð sem taka af allan vafa um það að viðkomandi vara sé ætluð til notkunar við matvælaframleiðslu.
 
Samtök iðnaðarins eru þess fullviss að framleiðendur sem notuðu saltið í matvæli gerðu það í góðri trú og hættu því um leið og farið var að draga heilnæmi þess í efa. Þeim efa hefur sem betur fer verið eytt en engu að síður þurfa allir hlutaðeigandi að leggjast á eitt til að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki.
 
Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga hafa ákveðið að ráðast í samræmt eftirlitsverkefni á árinu 2012 til að kanna innra eftirlit matvælafyrirtækja. Að gefnu tilefni hefur Matvælastofnun lagt til að í þessu verkefni verði sérstaklega kannað hvernig matvælafyrirtæki sinna móttökueftirliti. Í móttökueftirliti felst skoðun hráefna, annarra innihaldsefna, umbúða og allra annarra aðfanga til að tryggja að þau séu ætluð til vinnslu og pökkunar á matvælum og standist kröfur um hollustuhætti. Samtök iðnaðarins hvetja félagsmenn til að fara yfir verklagsreglur sínar við móttöku allra aðfanga og ganga úr skugga um að þeim fylgi upplýsingar sem taka af allan vafa um að þau séu ætluð til matvælaframleiðslu. Matvælafyrirtæki bera ábyrgð á öryggi eigin vöru og að skilyrði matvælalöggjafar sé uppfyllt. Öllum matvælafyrirtækjum er mikilvægt að geta sýnt fram á að þau axli sína ábyrgð og séu trausts verð. Á vef Matvælastofnunar, www.mast.is má lesa meira um fyrirhuguð átaksverkefni.