Fréttasafn  • Borgartún 35

2. feb. 2012

Lög um svæðisbundna flutningsjöfnun

Nú um áramótin tóku gildi lög um svæðisbundna flutningsjöfnun. Markmið laganna er að styðja við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með því að jafna flutningskostnað framleiðenda sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa við skertari samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar en framleiðendur staðsettir nær markaði.
 
Styrksvæðin teljast þau svæði sem heimilt er að veita byggðaaðstoð skv. byggðakorti og skiptast í tvö svæði:
 
Svæði 2: Árneshreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Kaldrananeshreppur, Reykhólahreppur, Strandabyggð, Súðavíkurhreppur, Tálknafjarðarhreppur, Vesturbyggð, Norðurþing, Svalbarðshreppur, Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur.

 

Svæði 1: Önnur sveitarfélög en þau sem tilgreind eru sem svæði 2, að undanskildu Reykjavík, Kópavogsbæ, Seltjarnarneskaupstað, Garðabæ, Hafnarfjarðarbæ, Álftanes, Mosfellsbæ og Kjósarhrepp.

Flutningsjöfnunarstyrkur reiknast sem hlutfall af flutningskostnaði að teknu tilliti til annarra styrkja sem veittir eru vegna flutnings, við á. Ekki eru greiddir flutningsjöfnunarstyrkir ef lengd ferðar er innan við 245 km.

Framleiðandi á svæði 1 fær 10% endurgreiðslu af flutningskostnaði ef lengd ferðar er a.m.k. 245 km. Framleiðandi á svæði 2  fær 10% endurgreiðslu af flutningi á vörum ef lengd ferðar er 245 – 390 km en 20% ef lengd ferðar er meiri en 390 km.

Styrkirnir greiðast úr ríkissjóði. Sækja þarf um flutningsjöfnunarstyrki til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins. Ekki er sett neitt lágmark á styrkfjárhæð.

Lögin gilda fram til loka árs 2012. Skv. frumvarpi til laganna mun fara fram endurskoðun á lögunum með tilliti til nýs byggðakorts og nýrra útreikninga á flutningskostnaði áður en lögin falla úr gildi.

Meðfylgjandi eru linkir inn á lögin og nýsamþykkta reglugerð um flutningsjöfnunarstyrki 

http://www.althingi.is/altext/140/s/0639.html

http://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?ID=6f3700b5-2780-4841-be44-6850eafa96bb