Fréttasafn



  • Borgartún 35

8. feb. 2012

Verðbólgan mikið áhyggjuefni

Seðlabanki Íslands ákvað í morgun að halda stýrivöxtum óbreyttum og eru þeir nú 4,75%. Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI, segir að almennt hafi verið búist við óbreyttum vöxtum eða smávægilegri hækkun en því miður sé útlitið ekkert sérstaklega gott. „Verðbólga hefur vaxið jafnt og þétt frá því að hún náði lágmarki í janúar 2011. Hún mælist nú 6,5% og ég býst við að Seðlabankinn fari að huga að hækkun vaxta ef ekki næst að hemja verðbólguna.“

Bjarni Már segir þetta vera  slæm tíðindi því efnahagsbatinn sé ekki nægjanlega sterkur til að þola hækkun vaxta auk þess sem alþjóðlegar efnahagshorfur séu óljósar.

„Nú þurfa önnur öfl að leggjast á árarnar með Seðlabankanum til að vinna gegn verðbólgunni. Í kjarasamningum, sem undirritaður voru sl. vor, var markmiðið að auka fjárfestingar og framkvæmdir. Vaxandi efnahagsumsvif í kjölfarið hefðu annars vegar átt að auðvelda atvinnurekendum að rísa undir þeim miklu kauphækkunum sem samið var um í kjarasamningum sl. vor og hins vegar að styðja við gengi krónunnar. Úr þessu hefur ekki ræst nema að litlu leyti og að okkar mati stendur það upp á ríkisstjórnina að standa við sitt. Vegna þessa erum við að sjá vísbendingar þess efnis að atvinnurekendur neyðist til að velta launahækkunum út í verðlagið. Önnur undirrót verðbólgunnar eru hækkanir á margvíslegum opinberum gjöldum og nærtækt hefði verið að halda þeim í skefjum. Húsnæðisliður verðbólgunnar hefur hækkað nokkuð sl. ár en ég hef minni áhyggjur af því enda er það jákvætt að húsnæðisverð sé að þokast upp á við. Aðalatriðið er að koma fjárfestingum í gang og gera atvinnulífinu kleift að standa undir vaxandi kaupmætti. Hækkun vaxta vinnur hins vegar gegn því“, segir Bjarni Már að lokum.