Þétt setið á ráðstefnu Norræna fjárfestingabankans í New York
Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, flutti erindi á ráðstefnu Norræna fjárfestingabankans (NIB) í Scandinavia House í New York í síðustu viku. Aðrir fyrirlesarar voru Edmund S. Phelps, prófessors og nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, og Hyun Song Shin, hagfræðiprófessor við Princeton háskóla. Johnny Åkerholm, forstjóri Norræna fjárfestingabankans, var fundarstjóri og stýrði umræðum að erindum loknum.
Fundinn hélt Norræni fjárfestingabankinn í tilefni af 100 ára afmæli American Scandinavian Foundation (ASF) og var yfirskrift fundarins hagþróun á 21. öldinni. Húsfyllir var á fundinum, en ASF býður sérstaklega til funda af þessu tagi.
Orri fjallaði í erindi sínu um væntanlega þróun í náttúrulegu umhverfi og hagkerfum á norðurslóð á næstu áratugum. Ræddi hann þar spár um mannfjöldaþróun, hækkandi meðalaldur, loftslag, úrkomu, tækniframfarir og flutningamynstur. Sérstaklega nefndi hann spátölur um aukna ásókn í auðlindir og tefldi fram sýn sinni á tækniþróun og notkun mismunandi orkugjafa.
Orri rakti þau álitamál sem hann taldi að stjórnvöld á norðurslóðum, þ.e. á Norðurlöndum, í Kanada, Bandaríkjunum og Rússlandi, þyrftu að taka afstöðu til. Nefndi hann sérstaklega menntamál, lífeyri, eftirlaunaaldur, skatta og innflytjendalöggjöf.
Þá dró hann saman hvað hann taldi áþekkt og hvað ólíkt með ofangreindum löndum á norðurslóð. Orri telur að aldur og lýðfræði yrðu Íslandi, Kanada og Bandaríkjunum afar hagfelld, en Rússlandi sérlega óhagstæð og Finnlandi hugsanlega líka. Rakti Orri þar nokkrar tölur um núverandi og væntanlega fólksfækkun í Rússlandi.
Orri sagði hins vegar flest benda til að Rússland myndi eiga sífellt betri aðgang að hrávörum handan heimskautabaugs, ekki síst gasi, auk þess að vera í lykilstöðu til að leiða mögulegar breytingar í flutningaskipan á svæðinu. Eins mundu aukin tækifæri skapast í Kanada, Alaska og Grænlandi. Þá myndu Noregur og Ísland styrkja stöðu varðandi nýtingu vatns með aukinni vetrarúrkomu og færslu lífmassa norður á bóginn.
Stærsta verkefnið sagðist Orri hins vegar telja að væri skapa hagfellda efnahagslega hvata í hverju landi, ekki í ljósi þeirra náttúrulegu og lýðfræðilegu breytinga sem áður hefðu verið nefndar. Nefndi hann aðkallandi verkefni í lífeyri og sköttum, svo menntað fólk á vinnualdri hefði hug á að búa í þessum löndum. Þar væri útlitið svartast í Rússlandi, en bjartast í Kanada.
Edmund S. Phelps og Hyun Song Shin ræddu fjármál, skuldamál, lífeyrismál og gjaldmiðlamál frá ýmsum sjónarhornum. Á eftir sátu fyrirlesarar fyrir svörum fundarmanna.