Fréttasafn  • Borgartún 35

28. feb. 2012

Dómur Hæstaréttar um gengislán skapar margvíslega óvissu sem brýnt er að skýra

Stjórn Samtaka iðnaðarins ræddi í dag á fundi um nýfallinn dóm Hæstaréttar um vexti á gengislánum og samþykkti eftirfarandi ályktun:
 

„Dómur Hæstaréttar um að óheimilt hafi verið að reikna vexti af lánum afturvirkt miðað við íslenska óverðtryggða vexti skapar margvíslega óvissu sem afar brýnt er skýra.

Endurreikna þarf gífurlegan fjölda lánasamninga og ljóst er að lög sem alþingi setti í desember 2010 um hvernig ætti að standa að vaxtaútreikningi gengistryggðra lána standast ekki – fjármálafyrirtækjum var ekki heimilt að endurreikna vexti sem skuldari hafði þegar greitt.

Dómurinn varðar hagsmuni fjölda fyrirtækja sem tóku gengistryggð lán sem og fjármögnunar- og kaupleigusamninga sem dæmdir hafa verið sem ólöglegt erlend lán.

Þótt dómurinn sé skýr varðandi afturvirkni vaxtareiknings ríkir enn veruleg óvissa um fordæmisgildi hans. Því er t.d. ósvarað hvaða áhrif dómurinn hefur á þann fjölda einstaklinga og fyrirtækja sem höfðu farið í greiðsluskjól hjá umboðsmanni skuldara, fengið greiðslujöfnun, fengið lán fryst, greiðslufrestur verið veittur, þeir greitt fasta upphæð af hverri milljón o.s.frv. Ef nýjan dóm þarf til að skýra réttarstöðu þessara aðila er brýnt að málsaðilar komi sér hið fyrsta saman um framgang þess. Að öðrum kosti er hætt við að dómurinn seinki því enn frekar að eigna- og skuldastaða fjölmargra fyrirtækja skýrist.

Líklegt er að dómurinn hafi umtalsverð neikvæð áhrif á efnahag bankanna. Samtök iðnaðarins leggja mikla áherslu á að því áfalli verði ekki velt yfir á viðskiptavini bankanna í formi aukins kostnaðar og vaxtamunar.

Samtök iðnaðarins skora á stjórnvöld og hagsmunaaðila í gengislánamálinu að eyða eins fljótt og auðið er þeirri óvissu sem enn ríkir um meðferð gengislána. Atvinnulífið hefur af veikum mætti verið að taka við sér á ný eftir djúpa kreppu og má alls ekki við frekari töfum á úrvinnslu skuldamála.“

Samtökin efna til morgunverðarfundar nk. föstudag á Grand Hótel Reykjavík þar sem Ragnar H. Hall og Þorsteinn Einarsson, hæstaréttarlögmenn og Yngvi Örn Kristinsson hagfræðingur ræða um dóminn og áhrif hans.

Skráðu þig á fundinn hér