Fréttasafn



  • veiking krónunnar

1. mar. 2012

Veiking krónunnar umhugsunarefni

Frá upphafi árs hefur gengi krónunnar veikst um rúmlega 5%. Á sama tíma hefur aukinn þungi verið að færast í verðbólguna, einkum vegna innlendra kostnaðarhækkana, fyrst og fremst af hendi hins opinbera, og hækkandi olíuverðs. Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI segir að snörp veiking krónunnar undanfarið, miklar hækkanir á olíu auk áhrifa vegna kjarasamningsbundinna launahækkana í febrúar muni að óbreyttu setja áframhaldandi þrýsting á verðlag á næstunni.

„Þótt nokkuð myndarlegur og reglulegur afgangur sé af viðskiptum við útlönd virðist hann ekki duga  til að safna nægum gjaldeyri til að standa straum af útflæði hans og því veikist krónan. Útflæðið er annars vegar tilkomið vegna innflutnings á vörum en einnig vegur þungt um þessar mundir greiðslur af erlendum lánum, m.a. sveitarfélaga og opinberra fyrirtækja. Til að mæta þessu er bara þrennt sem kemur til greina: stóraukin fjárfesting innanlands með tilsvarandi flæði gjaldeyris til landsins, aukinn útflutningur og fyrirsjáanleg endurfjármögnun á erlendum lánum. Án þessa blasir við að krónan mun veikjast enn frekar á næstu misserum“, segir Bjarni Már.

Seðlabanki Íslands ákvað við síðustu vaxtaákvörðun að halda vöxtum óbreyttum þrátt fyrir aukna pressu á verðlag. „Ég býst við Seðlabankinn bregðist við þessu við næstu vaxtaákvörðun, hækki vexti og muni af veikum mætti reyna sporna gegn veikara gengi og hækkandi verðlagi. Það er hins vegar mikið umhugsunarefni að krónan skuli vera að veikjast með þessum hætti enda eru enn við lýði gjaldeyrishöft og Seðlabankanum ætti að vera í lófa lagið að stemma stigu við veikingu krónunnar. Auk þess höfum við ítrekað varað við að genginu sé stýrt með auknum vaxtamun við útlönd. Sú tilraun endaði ekki vel síðast.“

Bjarni Már segir að því miður séu vísbendingar um að umtalsverður hluti af gjaldeyristekjum skili sér ekki til landsins og sé ekki í eðlilegum takti við umfang viðskipta. „Á þessu eru skýringar. Í fyrsta lagi eru gjaldeyrishöftin íþyngjandi og til þess fallin að draga úr hvata fyrirtækja til að koma heim með allan gjaldeyri sem þau skapa. Í öðru lagi er mikill kostnaður í bankakerfinu hér heima við alla umsýslu gjaldeyris og álag bankanna á gjaldeyri hefur margfaldast frá því fyrir hrun. Þannig virðist mér eins og gjaldeyrishöftin, sem ættu að takmarka veikingu krónunnar, séu beinlínis að valda því að ónægur gjaldeyrir komi til landsins.“