Fréttasafn



  • Borgartún 35

12. mar. 2012

Hagvöxtur síðasta árs 3,1%

Árið 2011 var hagvöxtur 3,1% og óx landsframleiðsla sem því nemur. Þessi vöxtur kemur í kjölfar mikils samdráttar árin á undan en 2009 var hann 6,8% og 2010 var samdrátturinn 4%. Vöxtur síðasta árs skýrðist einkum af miklum vexti einkaneyslunnar sem jókst um 4%. Þrátt fyrir þetta er einkaneysla enn lág sem hlutfall af landsframleiðslu í sögulegu samhengi. Samneysla dróst saman um 0,6% og opinberar fjárfestingar um 17,6%. Hins vegar jókst fjárfesting í heild sinni um 13,4%.
 
Ef rýnt er nánar í fjárfestingar kemur í ljós að fjárfestingar einkaaðila jukust um ríflega 21%, þ.a. atvinnuvegafjárfesting er um 25,8% og íbúðafjárfesting um 8,6%. Hlutfall fjárfestinga af landsframleiðslu var 14,1% sem er mjög lágt í sögulegu samhengi og langt undir því sem nauðsynlegt er til að tryggja vöxt framleiðslugetu þjóðarbúsins til lengri tíma litið.
 
Þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, jukust um 4,7% að raungildi á nýliðnu ári. Er þetta nokkuð umfram vöxt landsframleiðslunnar og þar með hefur framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar verið neikvætt í fyrra, sem má skýra með því að innflutningur er að vaxa meira en útflutningur, eða um 6,4% á móti 3,2%.