Fréttasafn



  • Borgartún 35

15. mar. 2012

Ályktun Iðnþings 2012

Á aðalfundi Samtaka iðnaðarins í morgun var samþykkt eftirfarandi ályktun:
 

Ályktun Iðnþings 2012

 

Fjárfestingar hefjist af krafti

Skýr opinber umgjörð í sátt við athafnalífið

Markvisst afnám hafta

Þjóðin skeri úr um Evrópu- og gjaldmiðlamál

Eftirlitsaðilar verði ekki ríki í ríkinu

Langtíma samvinna menntakerfis og atvinnulífs

Það er verk að vinna í íslenskum hagkerfi. Lykilatriði er að koma arðbærum fjárfestingum af stað á nýjan leik. Þannig má leggja grunn að hagvexti næstu ár, skapa atvinnutækifæri sem sárlega skortir og uppfæra innviðina í landinu. Þó að enginn opinber ágreiningur virðist um þá nauðsyn, hafa ný fjárfestingarverkefni ekki skapast í ríkum mæli árum saman. Helstu ástæður þessa dráttar framan af voru slæm skuldastaða heimila, fyrirtækja og hins opinbera.

Undanfarin misseri hefur opinber stefnumörkun verið helsta hindrunin. Í sumum lykiltilvikum skortir sárlega skýrt lagaumhverfi sem nær útilokar langtímahugsun. Rammaáætlun um virkjun og verndun orkukosta tefst ítrekað í pólitísku þrátefli innan stjórnarráðsins. Sjávarútvegur og tengdar iðngreinar búa við sífellda óvissu um stöðu sína til framtíðar. Framkvæmdir við samgöngumannvirki fara löturhægt af stað, þótt lífeyrissjóðir hafi boðist til að fjármagna arðbær verkefni til langs tíma. Tilviljanakenndar og örar breytingar á skattkerfinu brengla myndina enn frekar.

Á sama tíma beina hin stífu og stagbættu gjaldeyrishöft innlendum fjárfestum að sömu fáu fjárfestingarkostunum. Af þeim sökum er farið að bera á bólumyndun í sumum eignaflokkum, svo sem opinberum skuldabréfum og tilteknum tegundum fasteigna. Stjórnvöld og Seðlabanki verða að gera alvöru úr því að hefja markvisst afnám hafta í stað þess að nefna það markmið aðeins á hátíðarstundum. Þar þarf að vinna hratt og skipulega, ekki síst til að lífeyrissjóðir þjóðarinnar geti ávaxtað fé sitt með dreifðari og áhættuminni hætti en því einu að fjármagna hallarekstur opinberra aðila á Íslandi.

Jafnframt þarf að komast að niðurstöðu um framtíðarskipan gjaldmiðlamála í landinu og leiða til lykta spurninguna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þjóðin verður að eiga síðasta orðið í því efni eigi sátt að geta ríkt. Umsóknarferlið hefur reynst tafsamara en stefnt var að. Brýnt er að samningum ljúki með eins hagstæðri niðurstöðu fyrir landsmenn og frekast er unnt.

Á undanförnum árum hefur opinberum eftirlitsaðilum vaxið mjög fiskur um hrygg. Í sumum tilvikum var sá vöxtur eðlileg viðbrögð við boðaföllum bankahrunsins en víða er reglubyrðin komin út í hreinar öfgar. Þannig hefur beinn og óbeinn kostnaður atvinnulífsins af að hlíta kröfum um eftirlit snaraukist. Óskum fyrirtækjanna um sveigjanleika og samvinnu við eftirlitsstofnanir er verr tekið en fyrr.

Atvinnulífið leggur sífellt aukna áherslu á menntað og sérhæft vinnuafl. Þarfir hagkerfisins breytast hratt í kjölfar hinnar ósjálfbæru lána- og fjármálaþenslu á síðasta áratug. Mikilvægt er að tengja menntastarf frá fyrstu skólastigum við starf fyrirtækjanna í landinu og glæða snemma áhuga barna á tækni, raunvísindum og skapandi hugsun. Samtök iðnaðarins hafa þar verk að vinna og eiga að taka frumkvæði í slíku samstarfi atvinnulífs við kennara, sveitarfélög og menntayfirvöld. Rétt eins og samtökin eiga áfram að sinna slíku starfi af krafti á efri skólastigum.