Fréttasafn



  • Iðnþing2012-Jon Dan

15. mar. 2012

Hægt að afnema gjaldeyrirshöftin á skömmum tíma

Jón Daníelsson fjallaði um ESB, Ísland og gjaldeyrishöftin í erindi sínu á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins í dag. Jón sagði m.a. að hönnun evrusamstarfsins væri það gallað frá upphafi að það gat ekki annað en leitt til erfiðleika síðar, eins og hefur nú komið í ljós. 

Hann telur alla hafa vitað að Grikkland stæðist enga mælikvarða um að ganga í evruna í upphafi leiks, samt var þeim vísvitandi hleypt inn í evrópusamstarfið.  Að auki var Grikkland ekki eina landið sem stóðst ekki upphaflega mælikvarða. Staða Grikklands nú er tvísýn því jafnvel eftir 50% til 70% skuldaniðurfellingu á skuldum Grikklands til einkaaðila, skuldar gríska ríkið 120% af landsframleiðslu. Það er allt of hátt skuldahlutfall að mati Jóns, sem bendir á til samanburðar að Argentína varð gjaldþrota með 40% skuldir af landsframleiðslu. Skuldahlutfall Grikkja megi ekki vera mikið hærra. Harkan gagnvart Grikklandi sé ekki til þess fallin að bjarga Grikklandi, hún sé sennilegast til þess fallin að sýna öðrum þjóðum t.d. Ítölum hvernig tekið er á málum.

Jón telur að líklegast muni evrusamstarfið komast gegnum erfiðleikana, en á ómarkvissan hátt og með smáskammtalækningum. Lækningaaðferðirnar geti jafnvel til lengri tíma falið í sér eyðileggingu t.a.m. á gríska kerfinu. Evrópskir leiðtogar hafa ekki ráðfært sig við sérfræðinga í skuldavanda þjóða á borð við IMF, en grípa þess í stað til aðferða sem veikja hið evrópska hagkerfi.

En hugsanlegt er einnig að evruþjóðirnar leysi vandamálið í eitt skipti fyrir öll og sameini ríkisfjármál sín með einum eða öðrum hætti. Eins getur valdastaða tækifærissinnaðra flokka dýpkað kreppuna ennfrekar segir hann. 

Við Íslandi blasa fjórir kostir að mati Jóns. Í fyrsta lagi að halda gjaldeyrishöftunum í óbreyttri mynd til langs tíma. Einnig kemur til greina að afnema gjöldin og halda krónunni. Í þriðja lagi að taka einhliða upp annan gjaldmiðil sem að mati Jóns er fráleitur kostur sem er dæmigerð þriðja heims lausn. Í fjórða lagi þá langtíma lausn að ganga í ESB og taka upp evru.

Jón segir að hægt sé að afnema gjaldeyrishöftin á þremur mánuðum. Fyrst þyrfti að bjóða upp gjaldeyri og finna verð á krónuna sem nær því að vera markaðsverð. Undirbúa þyrfti aðgerðir fyrir þá sem yrðu fyrir vondum áhrifum á gengislækkun krónunnar eftir afnám og samhliða þyrfti að tilkynna stefnumörkun sem yki traust á hagkerfinu, s.s. um skattamál, ópinbera reglustýringu, erlenda fjárfestingu og fjármálakerfið. Samstarf við IMF eykur ekki trúverðuleika auk þess orkar ráðgjöf IMF tvímælis að mati Jóns