Fréttasafn  • BIMfundur

26. mar. 2012

BIM – Frá hönnun til framkvæmdar

Mikill áhugi var á kynningarfundi um notkun BIM líkana í mannvirkjagerð sem haldinn var sl. fimmtudag. Verktakar og hönnuðir fylgdust með af athygli þegar sérfræðingar á sviði BIM kynntu hugmyndafræði hinnar nýju aðferðarfræði.

Upplýsingalíkön mannvirkja er íslenska heitið á hugtakinu Building Information Modeling eða BIM eins og það er oftast skammstafað. Þetta er aðferðafræði við undirbúning, hönnun, byggingu og rekstur mannvirkja þar sem hönnuðir setja upp rafræn, þrívíð og hlutbundin líkön af mannvirkjum.

Við hvern byggingarhluta er síðan unnt að tengja ýmis konar upplýsingar um eiginleika hans.  Upplýsingalíkanið gefur því raunsanna mynd af þeim einingum sem notaðar verða í mannvirkið sjálft .

Á framkvæmdatíma nýta verktakar þær upplýsingar sem í líkaninu liggja og geta þeir m.a. tekið snið í mannvirkið hvar sem þeir kjósa, framkvæmt sértæka magntöluútreikninga og tengt tímaáætlun við einstaka byggingarhluta.

Þegar framkvæmdum lýkur eru valdar upplýsingar úr líkaninu færðar yfir í svonefnt rekstrarlíkan sem auðveldar rekstraraðilum viðkomandi byggingar að fylgjast á kerfisbundinn hátt með t.d. viðhaldi á kerfum hússins.

Eitt af markmiðunum með notkun BIM er að samþætta hönnunarferli mannvirkja og hönnunargögn betur til að auka gæði, nákvæmni og áreiðanleika þeirra. Allir aðilar verkefnis vinna með rafrænar samræmdar upplýsingar í sameiginlegu upplýsingalíkani.

Á fundinn komu sérfræðingar, bæði innlendir og erlendir og greindu frá reynslu sinni. Enginn vafi var í huga framsögumanna að BIM væri framtíðin varðandi hönnun, byggingu og rekstur mannvirkja. Fyrstu verkefnin er að fara af stað hérlendis og kynntu hönnuðir Framhaldsskólans í Mosfellsbæ nýtt líkan sem unnið hefur verið fyir FSR. Vonir standa til að unnið verði með líkanið á framkvæmdatímanum.  Þá  kynnti fyrirtækið IceConsult notkun BIM líkana við rekstur mannvirkja. Einnig komu tveir tæknimenn frá danska verktakafyrirtækinu PHIL og sögðu frá BIM reynslu sinni í fjölmörgun verkefnum víða um heim. Áhugavert var að heyra hversu jákvæða reynslu fyrirtækið hefði af þessari nýju aðferðarfræði. Verulegur sparnaður fengist vegna minni sóunar og færri mistaka.

Húsfyllir var á samkomunni og fundarmenn á einu máli um að BIM-væðing á íslenskum mannvirkjamarkaði væri hafin.