Fréttasafn



  • TFIB2012

27. mar. 2012

The Future is Bright

Tölvuleikjageirinn á Íslandi veltir 50 milljónum evra (8,3 milljörðum íslenskra króna) og það vinna við hann um 500 manns á landinu. Þetta er meðal þess sem kom fram á ráðstefnu IGI, samtaka íslenskra tölvuleikjaframleiðenda, sem haldin var í Hörpu sl. fimmtudag samhliða EveOnline fanfest.
 
Á ráðstefnunni var sjónum beint að þeim tækifærum sem blasa við leikjaframleiðendum þegar kemur að snjallsímum og tölvum. Fjallað var um framtíð tölvuleikjaframleiðslu hér á landi, hvaða tækifæri eru á alþjóðlegum markaði og hvernig þau verði best nýtt. Þá var sérstök áhersla lögð á markaðs- og kynningarhlið iðnaðarins ásamt því að kynna fyrir hagsmunaðilum hversu mikla þýðingu iðnaðurinn hefur fyrir íslenskan markað og markaðssetningu landsins.
 

Á ráðstefnunni var m.a. fjallað um þær skattaívilnanir sem breska ríkisstjórnin samþykkti í síðustu viku. En TIGA, Samtök leikjaframleiðenda í Bretlandi hafa lengi barist fyrir þessu málefni.

Í fréttatilkynningu sem TIGA sendi frá sér um málið segir Dr. Richard Wilson, framkvæmdastjóri að skattaafslátturinn leiði af sér 4661 bein og óbein störf í iðnaðinum, fjárfestingu upp á 188 milljónir punda, auki framlag iðnaðarins til landsframleiðslu í Bretlandi um 283 milljónir, auki skatttekjur ríkissjóðs um 172 milljónir punda á sama tíma og kostnaðurinn er ekki nema 96 milljónir punda á 5 ára tímabili. Skattaafsláttur til leikjaframleiðenda muni tryggja að Bretland verður áfram í fararbroddi leikjaþróunar.   

Lorna Evans, verkefnisstjóri hjá TIGA, einn frummælenda á ráðstefnunni og segir íslensk stjórnvöld eiga að skoða að gera slíkt hið sama. Skattaívilnanir hafa einmitt verið eitt af baráttumálum leikjaframleiðenda á Íslandi undanfarin ár. Katrín Dóra Þorsteinsdóttir, forstöðumaður hugverkaiðnaðari hjá SI segist vona að ráðmenn íslensku þjóðarinnar taki bresk stjórnvöld sér til fyrirmyndar í þessum efnum. „Á sama tíma og skattaívilnanir í Bretlandi styrkir stöðu leikjaiðnaðarins þar í landi veikir þetta þetta samkeppnisstöðu leikjaiðnaðarins á Íslandi sem í ofanálag búum við gjaldeyrishöft.

IGI, Samtök íslenskra leikjaframleiðenda og TIGA hafa verið í viðræðum og ákveðið að taka upp samstarf til að styrkja tengslanetið og samtökin.