Fréttasafn



  • Reykjanesbraut

29. mar. 2012

Sparað til tjóns

Eftir Sigþór Sigurðsson, formann Mannvirkis

 
Stjórnvöld eru að valda stórkostlegu tjóni á vegakerfi landsins með fáheyrðum niðurskurði sem á sér ekki sinn líka síðan farið var að leggja vegi hér á landi. Framlög til viðhalds eru nú komin niður fyrir helming af því sem eðlilegt var talið um áratuga skeið. Framlög til vetrarþjónustu hafa verið skert svo hastarlega að minnka þarf þjónustu og loka vegum svo öryggi vegfarenda sé ekki stefnt í hættu.
 

Reiknuð fjárþörf til viðhalds bundinna slitlaga á þjóðvegum landsins er um 8.500 milljónir króna árið 2012 til að vega upp niðurskurð síðustu þriggja ára og að meðaltali um 5.000 m.kr. á ári næstu fimm árin eftir það, en fjárheimildir eru einungis 40% af reiknaðri meðalþörf á þessu tímabili. Það vantar 15 milljarða aukalega næstu fimm árin til að forða stórtjóni á eign okkar í þjóðvegum.

Nú þegar hefur verið sparað svo hastarlega í þrjú ár og uppsöfnuð viðhaldsþörf orðin slík að vegakerfið er víða að hruni komið. Hér er um svokallaðan excel-sparnað að ræða sem stundaður er af ábyrgðarlausum stjórnmálamönnum og ráðuneytisfólki. Þegar sparað hefur verið til tjóns koma í bakið á mönnum miklu hærri útgjöld seinna meir þegar endurbyggja þarf vegi upp á nýtt, frá grunni.

En það er kannski á öðru kjörtímabili og kemur núverandi samgönguráðherra ekki við.

 

Fjarlog,-fjarveitingar-til-sumarthjonustu

Birt í Fréttablaðinu 28. mars 2012.