Fréttasafn  • Vaxtarsprotinn 2012

4. maí 2012

Valka hlýtur Vaxtarsprotann 2012

Fyrirtækið Valka ehf. hlaut í morgun Vaxtarsprotann 2012 sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis á síðasta ári. Fyrirtækið meira en þrefaldaði veltu sína milli áranna 2010 og 2011 úr tæplega 130 m.kr í um 410 m.kr. Fyrirtækin Kvikna, ORF Líftækni og Thorice fengu einnig viðurkenningar fyrir góðan vöxt.

Vaxtarsprotinn er viðurkenning sem veitt er á vegum Samtaka iðnaðarins, Rannsóknamiðstöðvar Íslands og Háskólans í Reykjavík. Tilgangurinn er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja.

Oddný Harðardóttir, iðnaðarráðherra, afhenti Helga Hjálmarssyni, verkfræðingi, stofnanda og  framkvæmdastjóra Völku ásamt stjórn og öðrum starfsmönnum fyrirtækisins Vaxtarsprotann 2012 að viðstöddum fulltrúum sprotafyrirtækja og stuðningsaðilum atvinnulífsins í Grasagarðinum í Laugardal við hátíðlega athöfn í morgun.

Alls hlutu fjögur sprotafyrirtæki viðurkenningu fyrir öflugan vöxt milli áranna 2010 og 2011, en viðurkenningunum var skipt í tvo flokka. Í 2. deild, flokki sprotafyrirtækja með veltu á bilinu 10-100 milljónir hlutu fyrirtækin Kvikna og Thorice viðurkenningu, en í 1. deild, flokki sprotafyrirtækja með ársveltu á bilinu 100-1000 milljónir fengu fyrirtækin Valka og Orf Líftækni viðurkenningu.

Valka ehf. var stofnað árið 2003 af Helga Hjálmarssyni verkfræðingi sem er jafnframt framkvæmdastjóri fyrirtækisins en þar starfa nú 14 manns.

Framleiðsla á tækjum Völku er að mestu leyti unnin af íslenskum verktökum. Valka ehf. er hátæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun á tækjum og hugbúnaði fyrir fiskvinnslur. Valka býður margskonar lausnir og búnað allt frá stökum vogum, innmötunarvélum og flokkurum yfir í heildarkerfi með heilfiskflokkurum, flæðilínum og pökkunarkerfi. RapidFish hugbúnaðurinn er einfalt en öflugt framleiðslustjórnar- og pantanakerfi fyrir fiskvinnslur og sölufyrirtæki.

Nýverið kynnti Valka nýja röntgenstýrða beinaskurðarlínu sem er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Eftirspurn eftir sjálfvirkum beinaskurði er mjög mikil og er því reiknað með að sú lína muni styðja enn frekar undir framtíðarvöxt félagsins.

Valka byggir þróunarstarf sitt á nánu samstarfi fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi og hefur m.a. notið stuðning AVS-sjóðsins í því sambandi. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur einnig tekið þátt í uppbyggingarstarfi fyrirtækisins. Fyrirtækið hefur tvisvar áður hlotið viðurkenningu Vaxtarsprotans fyrir góðan vöxt.

Nánar um fyrirtækin sem hlutu viðurkenningu

ThorIce ehf. er stofnað 2003 af Þorsteini Inga Víglundssyni, en hann er framkvæmdastjóri og eini fastráðni starfsmaður fyrirtækisins en fyrirtækið byggir mikið á undirverktakastarfsemi. Fyrirtækið sérhæfir sig í þróun og sölu á ískrapavélum og öðrum sérhæfðum kælibúnaði til þess að auka geymsluþol og gæði á fiski og öðrum matvælum. Fyrirtækið hefur þróað ískrapastrokka, ískrapavélar og annan búnað og markaðssetur hann víða um heim. Í dag er erlend sala meira en 90% af sölu ThorIce ehf. Fyrirtækið hefur þróast markvisst og tryggt sér leiðandi stöðu á sínum markaði.

ThorIce hefur notið stuðnings Tækniþróunarsjóðs við þróun á nýjum umhverfisvænum ískrapavélum, tekið þátt í ÚH verkefni Íslandsstofu og CleanTech Iceland hjá Samtökum iðnaðarins. Veltuaukning ThorIce á síðustu árum hefur verið á sviði umhverfisvænna kælivéla.

ORF Líftækni hf. er stofnað árið 2001 af þeim Birni Örvari, Einar Mäntylä og Júlíusi B. Kristinssyni sem allir starfa enn í fyrirtækinu.

ORF Líftækni er vaxandi nýsköpunarfyrirtæki á sviði líftækni sem er leiðandi í framleiðslu hágæða sérvirkra próteina fyrir læknisrannsóknir, húðvörur og líftækniiðnað. Með þróun og nýtingu á einstakri framleiðsluaðferð sinni, sameindaræktun í byggi, stefnir ORF Líftækni að enn frekari uppbyggingu sem hátæknifyrirtæki í fremstu röð á alþjóðlegum markaði. Hjá ORF Líftækni starfa nú um 40 manns.

Fyrirtækið hlaut Nýsköpunarverðlaun Rannís, Útflutningsráðs og Nýsköpunarmiðstöðvar árið 2008 og taldist meðal fremstu nýskapandi líftæknifyritækja af sínum stærðarflokki í Evrópu árið 2010

Stofnendur ORF Líftækni hlutu nýverið aldarviðurkenningu Verkfræðingafélags Íslands í flokknum „Frumkvöðlar á vaxtarbraut“ ásamt fulltrúum frá VAKA fiskeldiskerfum, Marorku, Stjörnu-Odda og Stika, sem flest hafa hlotið viðurkenningu Vaxtarsprotans á undanförnum árum.

ORF Líftækni hefur notið stuðnings Tækniþróunarsjóðs við þróunarstarf sitt, en hefur verið að færast meira út í alþjóðlegt samstarf m.a. innan Eurostars á seinni árum.  

Kvikna ehf. Kvikna var stofnað síðla árs 2008 af þeim Garðari Þorvarðssyni, Heiðari Einarssyni, Guðmundi Haukssyni og Hjalta Atlasyni. Kvikna sérhæfir sig í gerð hugbúnaðar sem krefst mikillar tæknilegrar þekkingar. Fyrirtækið býður upp á hugbúnaðarþjónustu auk þess að þróa eigin vörur.

Helstu viðskiptavinir hugbúnaðarþjónustunnar eru í Noregi og Bandaríkjunum og er þar um að ræða ýmsan hugbúnað tengdan olíuiðnaði og hugbúnað fyrir lækningatæki.

Kvikna vinnur að þróun hugbúnaðar fyrir úrvinnslu á heilalínuriti sem er einkum ætlað til greiningar á flogaveiki. Hugbúnaðurinn er hannaður til þess að styðja dreifða vinnslu sem einfaldar og hvetur til samvinnu milli sjúkrastofnana. Markaðssetning á þessum vörum er á frumstigum en er lengst komin í Bandaríkjunum.

Frumkvöðlarnir starfa allir hjá fyrirtækinu, en alls eru starfsmenn 11. Kvikna hefur notið stuðnings Tækniþróunarsjóðs í þróunarstarfi sínu.

Meginviðmið dómnefndar er hlutfallslegur vöxtur í veltu milli tveggja síðustu ára. Fyrirtækið þarf að uppfylla skilgreiningu um sprotafyrirtæki – þ.e. að verja meira en 10% af veltu í rannsókna- og þróunarkostnað að meðaltali fyrir bæði árin. Heildarvelta fyrra árs þarf að vera yfir 10 milljónum en undir einum milljarði ísl. kr. Þá þurfa frumkvöðlar fyrirtækjanna að vera til staðar í tengslum við fyrirtækin og fyrirtæki sem hlýtur Vaxtarsprotann má ekki vera að meiri hluta í eigu stórfyrirtækis, fyrirtækis á aðallista kauphallar eða meðal 100 stærstu fyrirtækja landsins.

Þetta er í sjötta sinn sem Vaxtarsprotinn er afhentur en hann hefur verið veittur árlega frá árinu 2007, það ár hlaut Maroka vaxtarsprotinn. Árin 2008 og 2009 var Mentor vaxtarsproti ársins. Vaxtarsprotinn 2010 var Nox Medical og Vaxtarsprotinn 2011 kom í hlut Handpoint.

Verðlaunagripur Vaxtarsprotans er farandgripur úr áli og steini gefinn af Samtökum iðnaðarins, en auk hans fylgir skjöldur úr sömu efnum til eignar. Fyrirtækin fjögur sem hlutu viðurkenningar fengu auk þess sérstök viðurkenningarskjöl.