Fréttasafn  • Mannvirkjagerd4

14. maí 2012

Hæstiréttur dæmir Íbúðalánasjóð til að greiða félagsmanni SI skaðabætur

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu síðastliðinn fimmtudag að Íbúðalánasjóður ætti að greiða byggingafyrirtækinu Norðurvík ehf. skaðabætur vegna ólögmætrar kröfu sjóðsins um bankaábyrgð samhliða lánveitingu úr sjóðnum. SI studdu Norðurvík ehf. með rekstur dómsmálsins.

Málavextir voru þau að Norðurvík ehf. hafði í október 2008 sótt um lán hjá Íbúðalánasjóði til að fjármagna byggingu raðhúsalengju að Lyngholti 18 til 24 í Norðurþingi. Umsóknirnar voru fjórar, samtals að fjárhæð 48.747.537 krónur, og bárust þær Íbúðalánasjóðir 9. október 2008. Óumdeilt er að við meðferð umsóknanna hafi Íbúðalánasjóður farið fram á það að fyrirtækið legði fram bankaábyrgð til tryggingar á greiðslu lánanna. Norðurvík ehf. reiddi af þeim sökum fram fjórar ábyrgðaryfirlýsingar frá Glitni banka hf. 15. október 2008. Til að afla þessara yfirlýsinga þurfti fyrirtækið að greiða bankanum 628.368 krónur sem það gerði 22. október 2008.

Með bréfi 20. apríl 2010 óskuðu SI eftir því fyrir hönd Norðurvíkur ehf. að Íbúðalánasjóður upplýsti á hvaða lagagrundvelli farið hefði verið fram á umrædda bankaábyrgð. Þessu erindi var svarað 28. apríl 2010 þar sem fram kemur að stjórn Íbúðalánasjóðs hefði ákveðið 21. febrúar 2008 að taka að nýju upp skilyrði um bankaábyrgð byggingaraðila og hafi sú ákvörðun tekið gildi 23. febrúar 2008. Um lagaheimild var vísað til 18. gr. laga nr. 44/1998 um húnæðismál, þar sem stjórninni er falið að setja reglur um veðhæfni og greiðslugetu skuldara, auk þess sem skírskotað var til þess að stefndi væri sjálfstæð ríkisstofnun.

Með reglugerð nr. 300/2006, sem tók gildi 18. apríl 2006 og sett var með stoð í 2. mgr. 19. gr. og 29. gr. laga um húsnæðismál, var felld úr gildi sú reglugerð er gerði það að skilyrði að byggingaraðili legði fram ábyrgð frá viðurkenndri fjármáalstofnun. Óumdeilt er að upp frá því var hætt að gera það að skilyrði lánveitingar til byggingaraðila að hann legði fram ábyrgðaryfirlýsingu frá viðurkenndri fjármálastofnun. Með reglugerð sem tók gildi 22. apríl 2009 var síðan aftur gerð sú krafa að byggingaraðili legði fram fyrrnefnda ábyrgðaryfirlýsingu.

Hæstiréttur féllst ekki á túlkun Íbúðalánasjóðs og taldi að valdmörk stjórnar Íbúðalánasjóðs einskorðuðust við að setja viðmiðunarreglur um veðhæfi fasteigna og greiðslugetu skuldara. Þau næðu ekki til að gera almenna kröfu til lántaka um að hann legði fram ábyrgðaryfirlýsingu frá fjármálastofnun er kæmi í stað mats á greiðslugetu hans. Samþykki stjórnar skorti því stoð í fyrrnefndri 18. gr. laga um húsnæðismál. Var því Íbúðalánasjóður dæmdur til að greiða Norðurvík skaðabætur.

Hér má lesa dóminn.