Fréttasafn



  • Seðlabanki Íslands

16. maí 2012

Hækkun stýrivaxta kemur ekki í veg fyrir verðhækkanir

Seðlabanki Íslands heldur áfram að hækka stýrivexti í viðleitni sinni til að slá á verðbólgu, nú um 0,5%. Eftir hækkunin eru sk. daglánavextir 6,5%. Hækkunin er ekki óvænt miðað við stefnu bankans, en er þveröfug við seðlabanka nágrannaríkjanna, sem flestir eru með talsvert neikvæða raunvexti og leggja höfuðáherslu á að halda hagkerfunum á siglingu.

Verðhækkanir eru áhyggjuefni á Íslandi. Stýrivaxtahækkanir Seðlabanka hafa hins vegar lítil áhrif á orsök verðhækkananna og geta reyndar til lengri tíma fremur hækkað verðbólgu en hitt. Vaxtahækkanir koma um þessar mundir sérlega illa við íslensk heimili og fyrirtæki, sem eru skuldsettari en í öðrum löndum. Stóra meinið í hagkerfinu er hið mikla atvinnuleysi og veruleg ónýtt geta til framleiðslu og fjárfestinga. Undir venjulegum kringumstæðum ætti ekki svo umfangsmikill slaki í hagkerfinu að leiða til lækkana vaxta fremur en hækkana.

Seðlabankanum er vorkunn í því að aðferðafræði peningamálastjórnunar bankans, sem honum var sett 2001, hefur lengi þurft lagfæringar við. Hún byggist fyrst og fremst á einföldu verðbólgumarkmiði og beitingu eins verkfæris, hækkunar stýrivaxta, óháð vöxtum í nágrannalöndum eða ástæðum verðbólgunnar. Gallar þessarar stefnu komu afar skýrt fram á síðasta áratug, fyrst í ofrisi gengis krónunnar og erlendri lánabólu, síðan með snöggleiðréttingu og tilheyrandi sársauka. Seðlabankinn hafði ekki þá frekar en nú stuðning opinberra fjármála eða annarrar hagstjórnar og verður því ekki einum kennt um hrakfarirnar. Það réttlætir þó vart hve sjálfvirkt Seðlabankinn heldur áfram að beita sömu aðferðum og reyndust þá svo illa.

Ástæður hækkandi verðlags nú um stundir eru ekki síst lækkandi gengi krónunnar, sem kemur til vegna gjaldeyrishafta, fjárfestingaleysis og greiðslu erlendra skulda. Hækkandi stýrivextir munu ekki leysa þessar undirliggjandi aðstæður heldur gera þær allar enn erfiðari viðureignar. Vonandi mun hækkunin ekki heldur laða fram vaxtarmunarviðskipti við útlönd, sem áður leiddu hagkerfi okkar í gildru. Erlendar kostnaðarhækkanir og hækkanir innlendra opinberra aðila á gjaldskrám sínum og sköttum eru einnig stórar orsakir hækkunar verðbólgunnar nú. Þessir þættir verða ekki fyrir minnstu áhrifum af stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands. Bankinn er því enn kominn í öngstræti með stefnu sína.