Fréttasafn



  • ReMake

18. maí 2012

ReMake Electric hyggst tvöfalda starfsmannafjölda

Upplýsinga- og hátæknifyrirtækið ReMake Electric hefur undanfarið verið í samstarfi við franskan stórframleiðanda raföryggisvara við að fullþróa vörur sínar fyrir raforkumælingar. Er nú ReMake á lokastigum þess að ganga frá nýjum samningi við franska framleiðandann eftir árangursríkt samstarf. Samningurinn er hugsaður til þess að koma vörum ReMake Electric í sölu á alþjóðlegum markaði að því er kemur fram í samtali við Hilmi Inga Jónsson, framkvæmdastjóra félagsins. Vörurnar verða kynntar undir merkjum franska framleiðandans en með samningnum ættu vörur ReMake að geta orðið leiðandi á heimsmarkaði fyrir heimili og fyrirtæki að mati Hilmis Inga.

ReMake hefur sömuleiðis þróað hugbúnaðinn eTactica sem er veflægt orkustjórnunarkerfi. Hugbúnaðurinn var fyrr á árinu í öðru sæti á eftir búnaði frá Siemens í European Smart Metering Awards. Var það í flokki um besta hugbúnað í Evrópu fyrir orkustjórnun en umræddur búnaður ReMake Electric hefur verið þróaður undir stjórn Axels Gunnlaugssonar, upplýsingastjóra ReMake. Með nýja samningnum mun eTactica-hugbúnaðurinn vera notaður með vörunum frá franska stórframleiðandanum og mun ReMake þá reka hugbúnaðinn og þjónusta viðskiptavini viðkomandi framleiðanda frá Íslandi.

Rafskynjari sem stuðlar að orkusparnaði og auknu öryggi

ReMake Electric er eitt af áhugaverðari nýsköpunarfyrirtækjum landsins en það hefur ásamt hugbúnaðinum þróað rafskynjara fyrir hefðbundin rafmagnsöryggi. Rafskynjarinn nýtist vel sem greiningartæki og gefur notendum, bæði á heimilum og í fyrirtækjum, tækifæri á að vera upplýst um rafmagnsnotkun og rafmagnsálag og stuðla þannig að orkusparnaði og auknu öryggi.

Það var Hilmir Ingi sem uppgötvaði í starfi sínu sem rafvirki að skortur var á upplýsingum til bilanaleitar og kviknaði hugmyndin í framhaldinu. ReMake Electric hefur verið styrkt af Tækniþróunarsjóði frá stofnun 2009 og vann Gulleggið árið 2010 og í framhaldinu komu fjárfestar að fyrirtækinu. ReMake vinnur að frekari þróun á mælibúnaði félagsins undir forystu Halldórs Axelssonar, vöruþróunarstjóra ReMake, til að koma vörunum á alþjóðlegan markað en von er á fleiri nýjungum frá félaginu í nánustu framtíð. Að sögn Hilmis er markmið fyrirtækisins að verða leiðandi á heimsmarkaði með lausnir til orkustjórnunar í heimilum og fyrirtækjum, sannarlega metnaðarfull markmið hjá þessum frumkvöðli.

Stefnt að tvöföldun starfsmannafjöldans

Að sögn Hilmis hefur sala fyrirtækisins fyrst og fremst verið hér heima á Íslandi í þróunarskyni en fyrirtæki á borð við Arion banka, Vífilfell, Nóa-Síríus, Bláa lónið og Mjólkursamsöluna hafa með góðu samstarfi gert hraða þróun ReMake mögulega. Með vörunum hafa fyrirtækin dregið úr 30% af sínum raforkukostnaði en vörurnar hjálpa þeim að sjá og skilja hvar og hvenær rafmagn er notað. Að sögn Hilmis Inga mun ReMake sérhæfa sig í hugbúnaðargerð fyrir orkustjórnun og ná gríðarlegri útbreiðslu á kerfinu með samstarfinu. Hjá félaginu starfa nú 16 manns en að sögn Hilmis stefnir í að starfsmannafjöldinn tvöfaldist á næstu mánuðum. Bæði þarf að bæta við fólki á sölu- og markaðssviði en þó ekki síður við hugbúnaðarþróun en Hilmir sagði að hjá ReMake væri besta teymið á Íslandi við hugbúnaðarþróun.

ReMake Electric var stofnað árið 2009 af Hilmi Inga sem einnig er framkvæmdastjóri félagsins eins og áður sagði en Þórður Magnússon er stjórnarformaður þess. Nýsköpunarsjóður kom að félaginu árið 2010 og hlutdeild sjóðsins er 18%. Hlutafjáraukning varð hjá félaginu í byrjun árs þegar Eyrir Invest og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins ásamt smærri hluthöfum juku við hlutafé sitt í fyrirtækinu. Eftir hlutafjáraukninguna á Eyrir Invest 26,2% í fyrirtækinu og er annar stærsti hluthafinn í dag.