Fréttasafn



  • Grafa

30. maí 2012

SI telja dóm Hæstaréttar í Smákranamálinu hafa lítið fordæmisgildi

SI hafa fundað með sínum félagsmönnum og lögmönnum og komist að þeirri niðurstöðu að dómur Hæstaréttar í Smákranamálinu hefur lítið fordæmisgildi. Í þessu tiltekna máli taldi Hæstiréttur ósannað að samið hefði verið um að Smákranar myndu eignast hið leigða gegn ákveðinni greiðslu við lok leigutímans. Niðurstaða Hæstaréttar gengur þvert á niðurstöðu héraðsdóms í málinu sem og niðurstöðu Hæstaréttar í svokölluðu Kraftvélaleigumáli frá 20. október 2011.

 

Niðurstaða Hæstaréttar orsakast fyrst og fremst á skorti á sönnun um tiltekið atriði og því telja SI dóminn hafa lítið fordæmisgildi. Ljóst er að þau fyrirtæki sem fjármögnuðu tækjakaup sín með sambærilegum hætti og greinir í fyrrgreindum dómsmálum gerðu það út frá þeirri forsendu að þau myndu eignast tækin að samningstíma loknum.  

 

SI hafa því ákveðið að reka a.m.k. fjögur prófmál fyrir hönd sinna félagsmanna gegn fjármálafyrirtækjum þar sem leitast verður við að sanna að samkomulag hafi legið fyrir milli aðila um kaup á tækjum í lok samningstíma. Ennfremur verður óskað eftir að mál þessi fái flýtimeðferð fyrir dómstólum. SI vilja með þessu reyna að forðast þá stöðu að þúsundir viðskiptavina fjármálafyrirtækjanna þurfi að höfða dómsmál til að fá samninga sína leiðrétta.

 

SI hvetja félagsmenn sína til að hafa samband við skrifstofu SI vilji þeir fá nánari upplýsingar um þessi mál og réttarstöðu sína gagnvart fjármálafyrirtækjunum.