Fréttasafn



  • Stjórn SHI, frá vinstri Árni Þór, Garðar, Perla, Jón, Sveinbjörn og Börkur. Á myndina vantar Magnús Oddson

18. jún. 2012

Jón Valgeirsson, hjá Actavis kosinn formaður Samtaka heilbrigðisiðnaðarins

Jón Valgeirsson, framkvæmdastjóri þróunareiningar Actavis á Íslandi var kosinn nýr formaður Samtaka heilbrigðisiðnaðarins - SHI á aðalfundi 14. júní og tekur við af Perlu Björk Egilsdóttur sem gengt hefur formennsku í félaginu frá stofnun.

Perla Björk flutti skýrslu stjórnar. Í henni kom fram að einn mikilvægasti áfanginn sem náðst hefur í vinnu við bætt starfsumhverfi fyrirtækja væri gildistaka laga um endurgreiðslu á rannsóknar og þróunarkostnaði. Endurgreiðslan nam um 500 milljón króna á síðastliðnu ári. Perla vildi koma á framfæri sérstökum þökkum fyrir þennan árangur. Perla bindur miklar vonir um framhaldið og nú væri unnið að tillögum um skattalega hvata fyrir kaup á hlutabréfum í nýsköpunarfyrirtækjum auk annarra verkefna.

Stjórnin var öll endurkjörin, en í henni eiga sæti auk formanns; Perla Björk Egilsdóttir, SagaMedica ehf., Sveinbjörn Höskuldsson, Nox Medical ehf. , Árni Þór Árnason, Oxymap ehf. og Garðar Þorvarðsson, Kvikna ehf. Í varastjórn eru Börkur Arnviðarson, ARCTIC Sequentia ehf. og Magnús Oddsson hjá Össuri hf. en Hákon Sigurhansson hjá EMR efh. starfar einnig með stjórninni

Samtök heilbrigðisiðnaðarins – SHI voru stofnuð 14. janúar 2011 sem starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins um málefni fyrirtækja sem tengjast þjónustu og nýsköpun í heilbrigðiskerfinu á einn eða annan hátt.

Markmiðið SHI er að vinna að hagsmuna- og stefnumálum fyrirtækja á heilbrigðissviði og taka virkan þátt í að móta stefnu markvissrar þróunar heilbrigðisiðnaðar á Íslandi.

Á fundinum var farið yfir stöðu helstu áhersluverkefna SHI, en þau eru;

  • Skilvirkt samstarf og samstarfssamningar fyrirtækja, ráðuneyta, landlæknis og heilbrigðistofnana  um þróun lausna fyrir heilbrigðiskerfið og heilbrigðisstofnanir.
  • Virkt starfs- og stuðningsumhverfi, m.a. varðandi fjármögnun nýsköpunar, með öflugri samkeppnissjóðum og skattalegum hvötum varðandi fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum.
  • Markvisst markaðsstarf, þróun, samstarf og tengslanet heima, greiðari aðgangur fyrirtækja að þróunarsamstarfi við heilbrigðisstofnanir á grunni viðurkenndra PPP (private-public-partnership) aðferða og skilvirk opinber innkaup.
  • Útflutningur og samstarf á alþjóðlegum vettvangi - Samnorrænn heimamarkaður
  • Samstarf um CE/FDA/gæða- og öryggismál.
  • Nægt framboð af vel menntuðu starfsfólki (sérstaklega tæknimenntuðu) og öflugt samstarf við háskólana varðandi rannsóknir og kennslu þannig að verkefnavinna nemenda og fræðistörf nýtist sem best við þróun nýrra lausna fyrir heilbrigðiskerfið og uppbyggingu fyrirtækja í greininni.

Í lok fundarins kynnti nýkjörin formaður Samtaka sprotafyrirtækja Sigmar Guðbjörnsson framkvæmastjóri Stjörnu-Odda nýtt verkefni sem felur í sér að yfirfæra reynslu og þekkingu fyrirtækisins við ástandsmælingar á dýrum í menn með ígræðanlegum mælitækjum. Verkefnið er eitt fimm verkefna sem valið var í markáætlun um „betri lausnir fyrir minna fé“ á heilbrigðissviði sem verið er að ganga frá samningum um.

Undir liðnum önnur mál urðu talsverðar umræður um nauðsyn þess að hraða lagasmíð og uppbyggingu markaðar með hlutabréf nýsköpunarfyrirtækja sem byggir á skattalegri hvatningu.

DL