Fréttasafn



  • Jafnlaunastadall

20. jún. 2012

Íslenskur jafnlaunastaðall byggður á grunni ISO stjórnunarstaðla

Íslenski jafnlaunastaðallinn er brautryðjendastarf í jafnréttismálum sem á sér ekki fordæmi, en við samningu hans var fyrirmynd sótt í alþjóðlega staðla s.s. ISO-9000 og ISO-14000. Með notkun staðalsins er fyrirtækjum auðveldað að koma á og viðhalda launajafnrétti kynja og geta þau fengið vottun þar um, ef þau svo kjósa. Þetta kom m.a. fram á opnum kynningarfundi á Grand Hótel Reykjavík í morgun. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra flutti opnunarávarp, ásamt Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ og Hannesi G. Sigurðssyni, aðstoðarframkvæmdastjóra SA. Jóhanna sagðist vonast til að staðallinn yrði endanlega samþykktur í desember á þessu ári þannig að fyrirtæki og stofnanir gætu byrjað innleiðingu um næstu áramót.

Í erindi sínu sagði Hannes „Kröfur staðalsins skipta mörgum tugum og það hefur verið fulltrúum SA leiðarljós í þessu starfi að gera hann eins einfaldan og skýran og mögulegt er þannig að hann fengi jákvæðar viðtökur hjá fyrirtækjunum. Ávinningur fyrirtækis af notkun jafnlaunastaðalsins verður alltaf óbeinn en getur jafnframt orðið verulegur. Ávinningurinn getur falist í faglegri mannauðsstjórnun og þar með ánægðara og áhugasamara starfsfólki. Hann getur einnig falist í bættri ímynd fyrirtækis í augum viðskiptavina vegna áherslna á samfélagsábyrgð og góða stjórnarhætti. Jákvæð ímynd er fyrirtækjum dýrmæt eign og fjárfesting í aðferðum jafnlauna-staðalsins ætti að falla saman við heildarmarkmið framsækinna fyrirtækja“. Hannes sagði að það yrði þó ekki fram hjá því litið að fyrirtæki sem hyggst hlíta honum mun þurfa að kosta til talsverðum fjármunum sem ekki munu skila beinum, mælanlegum ávinningi. Helsti kostnaðurinn liggur í skjölun og innleiðingu verklagsreglna“. Fyrirtæki og stofnanir sem byggt hafa upp stjórnkerfi samkvæmt ISO-9000 eða ISO-14000 ættu þó að geta verið fljót að laga sig að verklagi og kröfum staðalsins.

Guðbjartur Hannesson, velferðaráðherra svaraði fyrirspurn úr sal varðandi hvort stjórnvöld hyggðust mælast til þess að stofnanir á þeirra vegum innleiddu staðalinn. Hann sagði að svarið við spruningunni vara afdráttarlaust „já“. Guðbjartur þakkaði í lokaræðu sinni á kynningarfundinum þeim stóra hópi fólks sem tekið hefði þátt í vinnu við gerð staðalsins og sagði að vel væri fylgst með þessari vinnu í því erlenda tengslaneti sem hann ætti aðild að.

Kynning og umsagnarferli staðalsins framundan

Umræddur staðall sem fengið hefur númerið IST-85 fer nú í opið umsagnarferli fram í september, en í framhaldi af því mun tækninefndin sem unnið hefur að gerð staðalsins vinna úr athugasemdum með það að markmiði að ljúka gerð hans sem fyrst eftir að umsagnarferlinu líkur.

Davíð Lúðvíksson, SI

Nánari upplýsingar á vef Staðlaráðs Íslands þar sem hægt er að panta staðalinn til umsagnar, endurgjaldslaust:

http://www.stadlar.is/forsida/

Tengill á erindi Hannesar G Sigurðssonar, SA

http://www.sa.is/frettir/almennar/nr/5556/