Fréttasafn



  • Ráðgjafanefnd og ESB

16. júl. 2012

Fyrsti fundur ráðgjafanefndar Íslands og Evrópusambandsins

Fyrsti fundur ráðgjafanefndar Íslands og Evrópusambandsins (ESB) fór fram í Reykjavík þann 13. júlí 2012. Tólf aðilar skipa ráðgjafanefndina, sex frá hvorum samningsaðila. Að auki sátu fundinn fulltrúar efnahags- og félagsmálanefndar Evrópusambandsins (EESC), aðilar vinnumarkaðarins og ýmissa félagasamtaka sem og áheyrnarfulltrúar frá báðum samningsaðilum. Með formennsku í nefndinni fara Bjarni Már Gylfason frá Samtökum iðnaðarins og Liina Carr frá EESC.

Með myndun ráðgjafanefndar Íslands og ESB fá aðilar vinnumarkaðarins og fulltrúar ýmissa félagasamtaka tækifæri til þess að fylgjast með og koma að samningaviðræðunum með skipulögðum hætti og styðja þannig við formlegt hlutverk stofnana ESB og Íslands í samningaviðræðunum. Komið er á formlegu skipulagi sem gerir félagasamtökum kleift að fylgjast með þróuninni í samningaviðræðunum og greiða fyrir samningsmarkmiðum Íslands út frá sjónarmiðum þeirra. Þar að auki skapast grundvöllur til þess að koma á framfæri upplýsingum bæði innan ESB og á Íslandi og eiga skoðanaskipti um hin ýmsu hagsmunamál á sama tíma og uppbyggileg samfélagsumræða er efld.

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra og aðalsamningamaður Íslands, sat fundinn ásamt Sandy Boyle, formanni alþjóðatengsladeildar EESC, Timo Summa, forstöðumanni sendinefndar ESB á Íslandi og Bryndísi Kjartansdóttur, ráðgjafa ráðherra og formanni samningahóps um EES I.

Fundarmenn ræddu stöðu aðildarviðræðna milli Íslands og ESB og beindu sjónum sérstaklega að nýlega opnuðum kafla 15 um orkumál og veltu því upp hvernig best væri að viðhalda og bæta samkeppni, birgðaöryggi og sjálfbærni.

Ráðgjafanefndin metur mikils viðleitni íslenskra stjórnvalda til að virkja aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa ýmissa félagasamtaka í aðildarviðræðuferlinu og hvetur til þess að ferlið verði áfram eins opið og gagnsætt og mögulegt er. Að sama skapi gerir ráðgjafanefndin sér grein fyrir mikilvægi framlags aðila vinnumarkaðarins í aðildarferlinu.

Ráðgjafanefndin samþykkti á fundinum verklagsreglur og verkáætlun næstu tveggja ára.